Sunnudagur 23.12.2012 - 14:34 - FB ummæli ()

Ævintýri – Djásnið í krúnu Jóskubusku

Jólin eru tími ævintýra. Sagan af frelsaranum sem fæddur var í fjárhúsi er auðvitað eitt áhrifaríkasta ævintýri allra tíma. Þótt kaupahéðnar keppi ákaft við Kristsmenn um yfirráð yfir jólahátíðinni þá tekst þeim ekki til fulls að gera hana að veraldlegri hátíð.

Án töfra og tónlistar guðspjallsins væru jólin bara neysluhátíð.

Ein besta leiðin til að upplifa töfra jólanna er að fara á tónleika í kirkjum landsins á aðventunni. Önnur leið er að fara á tónleika í Hörpu, háborg menningarinnar á Íslandi.

Ég fór um daginn á klassíska jólatónleika Frostrósa í Hörpu, með hinum  stórkostlega Kristni Sigmundssyni og fleiri góðum listamönnum í aðalhlutverki. Með ríflega hundrað manna kór að baki og klassíska hljómsveit að auki hlaut þetta að verða ævintýraleg stund. Sem það sannarlega var.

Þar sem ég sat og naut andartaksins varð mér hugsað til þess hvílíkt ævintýri Harpa sjálf endurspeglar. Í henni kristallast saga þjóðarinnar frá ræningjatíma frjálshyggjunnar til upprisunnar eftir hrunið. Það er mikil saga. Hér kemur hún…

Ræningjar og rummungar höfðu látið greipar sópa um borgina við sundin. Seldu Esjuna og önnur verðmæti landsins og fluttu gróðann í erlendar ræningjaparadísir, svokölluð skattaskjól. Skuldsettu allt sem eftir stóð upp í rjáfur – og létu víxilinn svo falla á almenning.

Jesús Kristur hefði velt borðum þessara víxlara um koll og stuggað þeim á braut, hefði hann verið uppi á þessum tímum!

Leiðtogar víxlaranna vildu byggja monthús fyrir sig og hyski sitt, fyrir lánsfé eins og allt annað sem þeir komu nálægt. Höfðu látið hanna sérstúkur og einkasali í höllinni fyrir yfirstéttina eina. Áttu svo að fá dýrustu lóð borgarinnar til að byggja höfuðstöðvar hrunbankans upp að suðurvegg Hörpunnar.

Þetta skyldi verða háborg mammons – með menningarívafi.

En æðri máttarvöld gripu í taumana og gerðu víxlarana lánlausa. Þá hrundi spilaborgin til grunna, um svipað leiti og beinagrindin að Hörpu var að rísa upp úr jarðveginum.

Almenningur þusti út á strætin og rak ríkisstjórn og bankastjórn rummunganna á braut og sótti Jóskubusku og Steinbrjót til forystu í endurreisnarstjórn. Þeirra beið sviðin jörð fjármálahruns og skuldahelsi að glíma við. Fordæmalaus kreppa í sögu þjóðarinnar.

Ótrauð hófu þau hjúin starfið með liðsmönnum sínum, svokölluðum vinstri mönnum. Höfðu sér til halds og trausts guðspjallamenn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Á undraskömmum tíma tókst að koma böndum á óværuna sem frjálshyggjudraugurinn hafði sleppt lausri úr Pandóruboxi peninganna.

Eitt af afrekum þeirra liðsmanna Jóskubusku og Steinbrjóts var að taka við þrotabúi mammonshallarinnar Hörpu. Í stað þess að láta húsið standa óklárað um áratugi, sem minnisvarða um hégóma, græðgi og heimsku, var ákveðið að klára höllina sem menningarhús íslenskrar tónlistar – án beinnar tengingar við hirðmenn mammons.

Það tókst þrátt fyrir gríðarlegan fjárhagsvanda og erfiðleika í þjóðarbúskapnum. Í fyrra opnaði Harpa svo og hóf starfsemi sína, tónlist og menningu til dýrðar – en án montsala fyrir yfirstéttina.

Svo vel tókst til að undrun vekur um heimsbyggð alla.

Frjálshyggjudindlar og aðrir talsmenn fallinna rummunga láta að vísu enn í sér heyra. Þeir vilja ýmist ekki sjá húsið né þá starfsemi sem þar er, eða beinlínis leggja til að húsið verði notað sem skipaafgreiðsla eða spilavíti, jafnvel hóruhús. Þeir hafa ekki enn látið af mammonsdýrkun sinni og siðleysi. Þeim reynist líka erfitt að skilja að skattar eru verðið sem menn greiða fyrir að búa við siðmenningu.

Ég er að vísu lítill vinstri maður sjálfur, en tek ofan fyrir þeim vinstri mönnum sem endurreistu þjóðarbúið og kláruðu Hörpu á þann glæsilega hátt sem raun ber vitni.

Sómi þeirra er mikill.

Þannig endar ævintýrið vel. Rummungum og ræningjum var stuggað á braut, þjóðin endurreist og Harpa listagyðjunnar kláruð.

Harpan reynist vera eitt dýrasta djásnið í krúnu ríkisstjórnarinnar.

Sumir halda að rummungarnir verði kosnir aftur til valda í vor. Því verður þó varla trúað eftir reynslu liðinna ára.

Það yrði í öllu falli með ævintýralegum ólíkindum!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar