Föstudagur 28.12.2012 - 21:28 - FB ummæli ()

Ný könnun – Íslendingar bjartsýnastir í Evrópu

Samkvæmt nýrri könnun, sem gerð var fyrir Eurobarometer í nóvember sl. í öllum Evrópuríkjum, þá er niðurstaðan fyrir Íslendinga mjög athyglisverð.

Íslendingar eru nú með allra ánægðustu þjóðum með líf sitt og jafnframt bjartsýnastir Evrópuþjóða á hagfellda þróun á næstu 12 mánuðum. Þetta á við um þróun efnahagslífsins, atvinnuþróun og lífsgæðin almennt.

Hér verða sýndar nokkrar myndir með niðurstöðum úr þessari könnun, sem birt var á vef Eurobarometer nú í desember.

 

Sérstaða Íslands – Botni náð og nú á réttri leið upp

Mynd 1 sýnir svör almennings í Evrópuríkjunum við spurningu um það hvort botni kreppunnar á vinnumarkaði hafi þegar verið náð eða hvort það versta sé enn eftir. Ísland sýnir sig að hafa algera sérstöðu hvað þetta atriði varðar.

Mynd 1: Botni kreppunnar náð eða er það versta eftir? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Um 60% Íslendinga telja að botni kreppunnar á vinnumarkaði sé þegar náð, en einungis um þriðjungur telur það versta eftir. Þetta er mun jákvæðara en í öðrum Evrópulöndum og í mestu kreppulöndunum (Kýpur, Portúgal, Grikklandi) eru um og yfir 80% svarenda sem telja það versta enn eftir.

Næsta mynd sýnir svör við spurningum um hvort aðstæður í viðkomandi landi séu nú að þróast í rétta eða ranga átt. Þar er Ísland einnig með mikla sérstöðu, með mun stærri hluta þjóðarinnar sem telur þróunina í rétta átt en næstu þjóðir (Danmörk og Svíþjóð). Ísland hefur bætt stöðu sína í þessu efni frá því haustið 2011 og vorið 2012 (sjá hér)

Mynd 2: Eru aðstæður í landinu nú á réttri eða rangri leið? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Tæplega 60% svarenda segja Ísland á réttri leið, en næsta landið (Danmörk) er með 46% á sömu skoðun. Meðaltal Evrópuríkjanna er einungis um 24%. Á Írlandi eru einungis um 28% á því að land þeirra sé á réttri leið og meirihlutinn telur Írland á rangri leið. Það er öfugt við niðurstöðuna á Íslandi. Yfirburðir Ísland eru því miklir í þessu efni.

 

Horfur fyrir árið 2013 bestar á Íslandi

Mynd 3 sýnir mat almennings á efnahagshorfum í löndum sínum fyrir árið 2013. Þarna er Ísland aftur í sérstöðu, með mun hærra hlutfall sem segja að efnahagurinn muni verða betri á næstu 12 mánuðum, meira en 10 prósentustigum hærra en hjá næstu löndum (Bretlandi og Danmörku).

Mynd 3: Efnahagshorfur fyrir 2013: betri, svipaðar eða verri? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Eystrasaltslöndin, sem ásamt Íslandi lentu illa í fjármálakreppunni, eru einnig bjartsýn á bata, en ekki nærri jafn bjartsýn og Íslendingar. Aðrar kreppuþjóðir (Kýpur, Portúgal og Grikkland) eru enn mjög svartsýnar og stór meirihluti þeirra spáir versnandi efnahagsstöðu á árinu 2013. Írar, sem lentu í svipuðu áfalli og Íslendingar, eru mun svartsýnni en Íslendingar á efnahagshorfurnar fyrir næstu 12 mánuðina. Hér hefur greinilega gengið betur á endurreisnarbrautinni.

Myndir 4 sýnir mat almennings á horfum í atvinnumálum fyrir næstu 12 mánuðina.

Mynd 4: Telurðu að staða atvinnumála í landi þínu verði betri, svipuð eða verri á næstu 12 mánuðum? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Hér er niðurstaðan svipuð. Íslendingar eru mun bjartsýnni á bata í atvinnumálum en allar aðrar Evrópuþjóðir. Um og yfir 80% íbúa kreppuþjóðanna í suður Evrópu eru frekar á því að staðan hjá þeim versni. Almennt er mikil svartsýni í þessum efnum í Evrópu – nema á Íslandi.

Að lokum má sjá hér hvernig þjóðirnar meta horfurnar fyrir lífsgæðin almennt, á mynd 5. Þar var spurt hvort fólk teldi að líf þess myndi verða betra, svipað eða verra á næstu 12 mánuðum.

Mynd 5: Telurðu að líf þitt verði betra, svipað eða verra á næstu 12 mánuðum? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Þarna eru Íslendingar einungis sjónarmun á undan Svíum, í efstu sætunum. Heldur fleiri Íslendingar eru á því að lífið verði betra, en hjá báðum þjóðunum eru það um 95% almennings sem telja að lífið verði betra eða svipað á næsta ári. Danir og Finnar eru með svipaða niðurstöðu á þann mælikvarða, þó báðar þær þjóðir séu með færri sem segja betra og fleiri er segja svipað.

Innan við 10% almennings í kreppulöndunum Portúgal, Grikklandi og Kýpur telja að líf þeirra verði betra 2013 en nú er. Meirihluti i þessum löndum væntir þess að líf þeirra versni.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er þannig sú, að Íslendingar hafa mikla sérstöðu í hópi Evrópuþjóða. Íslendingar eru með allra hæstu þjóðum hvað snertir ánægju með líf sitt og þeir eru bjartsýnni en aðrar þjóðir á frekari framfarir á næstu 12 mánuðum.

Árið 2013 gæti því orðið Íslendingum gott að mörgu leyti. Íslendingar munu að öllum líkindum saxa á það forskot sem mörg grannríkjanna náðu í lífskjarasamanburði með hruninu hér á landi.

Ísland virðist vera á réttri leið – að mati þjóðarinnar sjálfrar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar