Þriðjudagur 15.01.2013 - 12:44 - FB ummæli ()

Svíþjóð afsannar frjálshyggjuna

Hægri menn hafa lengi haft horn í síðu Svíþjóðar og norrænu velferðarríkjanna almennt.

Þeir elska markaðinn en hata velferðarríkið og lýðræðið.

Til að réttlæta þessa afstöðu hafa frjálshyggjumenn nokkrar kenningar. Grundvöllurinn er þó alltaf sá, að ríkið megi ekkert gera. Allt sem ríkið geri sé slæmt, en allt sem einkageirinn geri sé gott. Það er þeirra kredda (sem nú er í kreppu).

Samt er ríkisrekna heilbrigðiskerfið á Norðurlöndum bæði ódýrara og árangursríkara en einkarekna heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum. Munurinn er mikill.

Skoðum nokkrar tilgátur frjálshyggjumanna með hliðsjón af árangri Svíþjóðar til lengri tíma:

  • Frjálshyggjumenn segja að þeim mun stærra sem ríkið sé þeim mun minni verði hagsældin.
  • Staðeyndin: Svíar eru í dag með eitt stærsta ríkisvald Vesturlanda en samt með ágætan hagsæld almennings (ríka fólkið í Svíþjóð er að vísu ekki eins ríkt og þeir ríku í USA; kjör þeirra fátæku eru mun betri í Svíþjóð). Þannig hefur það verið í áratugi.
  • Frjálshyggjumenn segja að háir skattar letji fólk frá vinnu og breyti samfélaginu í letigarð.
  • Staðreyndin: Svíar eru með næst hæstu skattbyrðina í OECD-löndunum og jafnframt með einna mestu atvinnuþátttökuna, mun meiri atvinnuþátttöku en t.d. USA og Bretland, sem hafa mun lægra skattstig. Þannig hefur það verið í áratugi.
  • Frjálshyggjumenn vilja óheftan fjármálamarkað, lausan við ríkisafskipti.
  • Staðreyndin: Traustu opinberu regluverki og eftirliti er þakkað að Svíþjóð finnur nú lítið fyrir fjármálakreppunni. Afreglun og aukið frelsi á fjármálamarkaði 1980-90 leiddi hins vegar til fjármálakreppunnar er hófst í Svíþjóð 1990 (sjá t.d. Reinhardt og Rogoff 2009).
  • Frjálshyggjumenn vilja ekki jafna tekjuskiptinguna sem markaðurinn skilar, segja það hamla efnahagsframförum. Þeir vilja frekar ójöfnuð.
  • Staðreyndin: Svíþjóð er nú með einna jöfnustu tekjuskiptinguna í OECD-ríkjunum en samt er verið að hæla þeim fyrir góðan efnahagsárangur og ágæta hagsæld. Jöfnuður og efnahagsframfarir hafa lengi farið farsællega saman í Svíþjóð – og gera enn.

Svíþjóð er sem sagt alger andstæða þess þjóðmálalíkans sem frjálshyggjumenn boða. Þeir hafa hingað til sótt mest í hugmyndir um óheftann kapítalisma og lágmarksríki, sem eiga meira upp á pallborðið hjá róttækustu hægri mönnum í Bandaríkjunum.

Stórt, lýræðislegt og öflugt ríkisvald, öflugt opinbert velferðarkerfi, háir skattar og mikill jöfnuður. Allt er þetta dauðadómur samkvæmt rétttrúnaðarkenningum frjálshyggjunnar.

Leiðin til ánauðar og fátæktar, eins og Hayek sagði!

Samt eru þetta einkenni Svíþjóðar í dag og hafa verið lengi. Og frjálshyggjumenn viðurkenna nú loks að Svíum hefur vegnað vel.

Svíþjóð hefur náð góðum árangri um áratuga skeið, bæði í hagsæld og velferðarmálum almennings – þrátt fyrir allt.

Það er spurning hvort frjálshyggjumenn séu að búa sig undir að afneita kenningum sínum fyrst þeir eru farnir að mæla með “nýju sænsku leiðinni”, sem er að stærstum hluta eins og “gamla sænska leiðin”?

Ég hef áður bent á hvernig ungir frjálshyggjumenn eru farnir að horfa til hippahreyfingarinnar og ævintýra Thorbjörns Egner í leit að nýjum ímyndum og hugmyndum (sjá “Hipparnir í Hálsaskógi”).

Ef Ísland ætti að fara þessa “nýju sænsku leið” þyrfti að auka hér velferðarútgjöld verulega, stækka opinberu stjórnsýsluna, efla opinbert eftirlit, hækka skatta stórlega – og jafnvel hækka kaupið.

Jóhanna Sigurðardóttir yrði að sitja eitt kjörtímabil í viðbót!

Ætla frjálshyggjumenn virkilega að mæla með því að Ísland fylgi nýju sænsku leiðinni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar