Mánudagur 21.01.2013 - 12:10 - FB ummæli ()

Villandi tal um fátækt

Birgir Þór Runólfsson skrifar um fátækt árið 2003 hér á Eyjunni í dag. Þar endurtekur hann, nær orðrétt, skrif sem Hannes Hólmsteinn hefur prentað í tugum greina á liðnum árum.

Boðskapurinn er sá, að ég hafi í grein í Morgunblaðinu árið 2003 (það var raunar athugasemd frekar en grein) fullyrt að fátækt væri “verulega” meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Síðan hafi Hagstofa Íslands gert könnun fyrir árið 2003 (og birt 2007) sem hafi sýnt að fátækt var þá á svipuðu róli hér og á hinum Norðurlöndunum. Síðan er fullyrt sigri hrósandi að ég hafi haft rangt fyrir mér. (Í þessu er í öllum tilvikum miðað við “afstæða fátækt”, þ.e. hlutfall heimila undir 50% eða 60% af miðtekjum heimila á mann).

Þarna er ranglega farið með hjá BÞR (og HHG). Tölur sem ég vísaði til í athugasemdinni í Mbl. 2003 voru frá 1997-8, en ekki 2003. Könnun Hagstofunar fyrir 2003 getur því varla verið prófsteinn á sannleiksgildi minna niðurstaðna frá sex árum áður! Þetta vita BÞR og HHG en kjósa að bera þessa villu ítrekað á borð fyrir fólk. Það eru alvarleg óheilindi í fari fræðimanna.

Í ályktunum mínum um þessi gögn sagði ég reyndar að tölurnar bentu til að á þeim tíma (1997-8) hafi fátækt verið „heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænum þjóðunum“. Ekki “verulega”, eins og Birgir Þór og félagi hans iðuglega segja. Þeir félagar leggja mér ranga lýsingu í munn til að villa um fyrir fólki.

Ég vil líka hvetja áhugasama lesendur til að skoða athugasemdina sem ég gerði í Morgunblaðið 2003, svo þeir fái réttari mynd af umræðunni sem þá var (sjá hér).

Ég hafði unnið mér það til sakar að hafa gert rannsókn á fátækt frá 1986 til 1998 og skrifað hóflega um að hér væri einhverja fátækt að finna. Þáverandi stjórnvöld vildu hins vegar halda því að fólki að hér væri engin fátækt. Ég féll því í ónáð hjá forsætisráðherra (DO) og félögum hans. Þeir telja enn að eitt brýnasta verkefni þeirra sé að refsa mér fyrir þetta frumhlaup!

 

Afstæð fátækt og raunverulegar fjárhagsþrengingar

Ef menn hins vegar vilja fá sem sannasta mynd af umfangi fátæktar á Íslandi og bera saman við niðurstöður frá hinum Norðurlöndunum, þá þarf að skoða marga mælikvarða, ekki bara aftæða fátækt. Ólíkir mælikvarðar gefa nefnilega ólíkar niðurtöður, enda segja þeir ólíkar sögur, eins og eðlilegt er. Fátækt er margþætt og flókið fyrirbæri.

Tölur um “afstæða fátækt” benda t.d. til að hún sé með minnsta móti á Íslandi frá 2003 til nútímans, í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar. Tölur um raunverulegar fjárhagsþrengingar heimila benda hins vegar til að þær hafi verið markvert meiri hér á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum á hverju ári frá 2004 (sjá hér og hér).

Afstæð fátækt (hlutfall heimila undir 60% fátæktarmörkum) var um 10% á Íslandi frá 2003 til 2007 en um 11-12% á hinum norrænu löndunum að meðaltali. Hlutfall heimila þar sem “mjög erfitt var að láta enda ná saman” var hins vegar um 9% á Islandi árið 2004 en að meðaltali um 3% í hinum norrænu löndunum. Þarna eru misvísandi niðurstöður úr sömu könnunum. Enda verið að mæla ólíka hluti. Báðir mælingar hafa þó þýðingu fyrir mat á fátæktarþrengingum heimila.

Ef sérstaklega er litið á þá sem eru í lágtekjuhópnum (þ.e. undir afstæðu fátæktarmörkunum), þá eru fjárhagsþrengingar þeirra afgerandi meiri á Íslandi en í samsvarandi hópi á hinum Norðurlöndunum. Þannig voru það um 21% lágtekjuheimila á Íslandi sem sögðust “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman” árið 2004, en á hinum Norðurlöndunum voru tölurnar 8-13% á sama tíma. (Gögnin um þetta koma frá Eurostat).

Stærð lágtekjuhópsins (afstæð fátækt) er því ekki það eina sem máli skiptir. Raunverulegar fjárhagsþrengingar fólks sem er í lágtekjuhópnum segja meira um fátæktarþrengingar. Þar stendur Ísland verr en hinar norrænu þjóðirnar og hefur svo verið öll árin frá 2004 til 2011.

Ég birti líka tölur um raunverulegan kaupmátt ráðstöfunartekna lágtekjufólks í OECD löndunum árið 2005 í nýlegum pistli mínum, sem BÞR kýs að hafa að engu, þó hann hafi áður viðurkennt gildi þeirra talna frá OECD. Þær tölur sýna svo ekki verður um villst, að kaupmáttur ráðstöfunartekna lágtekjufólks var lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum á þeim tíma (sjá hér). Það segir ef til vill mest um fjárhagslega fátækt hér á landi í samanburði við vestræn hagsældarríki.

Þannig gefa ólíkar mælingar ólíkar niðurstöður. Fleiri dæmi um það mætti tína til. Að því þarf að huga, ekki bara grípa eina tölu og ætla henni að vera hin eina sanna niðurstaða. (BÞR og HHG hafa raunar ítrekað lýst vanþónkun sinni á mælingum á “afstæðri fátækt” – en nota þær þó þegar hentar! Það er enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð þeirra).

Skoða þarf sem flesta þætti fátæktar til að fá heildstæða mynd af einkennum og umfangi hennar. Það hef ég leitast við að gera í rannsóknum mínum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar