Miðvikudagur 23.01.2013 - 23:02 - FB ummæli ()

Um hóflegar vinsældir ríkisstjórnarinnar

Karl Th. Birgisson skrifaði pistil á Eyjunni þar sem hann veltir fyrir sér hvers vegna ríkisstjórnin njóti ekki meira fylgis, eftir að hafa að sögn unnið afar góð verk í einstaklega erfiðum aðstæðum, í kjölfar frjálshyggjuhrunsins.

Karl kennir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um fylgisleysið. Segir hana ekki vera nógu góðan ræðumann og að hún hafi ekki kynnt árangurinn nógu vel né talað nógu mjúku máli fyrir hönd stjórnarinnar.

Efast má um þessa kenningu Karls.

Fyrir það fyrsta er fylgistapið sértaklega afgerandi hjá VG og má einkum rekja það til sundrungar þar á bæ, sem engu jákvæðu hefur skilað. Sundrungin hefur þvert á móti varpað neikvæðu ljósi á bæði VG og ríkisstjórnina sem heild. Samfylkingin hefur staðið saman og ekki tapað jafn miklu fylgi. Hún á sennilega talsvert inni í stórum hópi óráðinna og gæti náð þokkalegri kosningu í vor.

Stuðningur við stjórnina fór að rýrna þegar sundurlyndið í VG fór að magnast. Icesave málið, sem Sjálfstæðismennirnir í Landsbankanum færðu þjóðinni, varpaði líka skugga á stjórnina.

Stærsti áhrifavaldur óvinsældanna er þó líklega kjaraskerðing heimilanna, sem hrun krónunnar orsakaði. Þó ríkisstjórninni hafi tekist að hlífa lægri og milli tekjuhópum við verstu afleiðingum hrunins og hemja atvinnuleysið, þá hafa allir fundið fyrir kjaraskerðingunni. Reynslan, bæða hérlend og erlend, kennir að stjórnum sem sitja í gegnum djúpa efnahagskreppu er oft refsað – jafnvel þó ósanngjarnt sé.

Ég held að þjóðin þekki Jóhönnu Sigurðardóttur alveg nógu vel eftir hennar langa og farsæla feril. Allir vita að hún er vinnusöm, heiðarleg og trú þeirri stefnu að verja þá sem minna hafa. Þjóðin metur forystu hennar í endurreisninni og mun án efa sýna það í verki þegar á hólminn er komið.

Það er afrek að hafa ekki aðeins náð að endurreisa samfélagið þannig að aðdáun vekur á alþjóðavettvangi, heldur einnig að hafa náð að halda ríkisstjórninni saman í ólgusjó dýpstu kreppunnar í lýðveldissögunni. Fordæmalaus óbilgirni frá stjórnarandstöðu og áhrifamiklum fjölmiðlum hefur einnig haft áhrif, auk hinna veiku hlekkja í stjórnarliðinu.

Jóhanna og hennar lið hefur hamið hverja ógnina á fætur annarri, sem virtist líkleg til að granda fleyi stjórnarsamstarfsins. Sá árangur er raunar einstakur og óvæntur, ekki síst í huga þeirra sem hafa sagt Jóhönnu vera óbilgjarna og ósveigjanlega í samningum.

Steingrímur J. Sigfússon fékk versta starf landsins er hann gerðist fjármálaráðherra í kjölfar hrunsins. Flestir eru sammála um að hann hefur leyst það farsællega af hólmi, enda vitnisburðurinn ótvíræður. Minnkandi fylgi VG er ekki vegna ófullnægjandi árangurs hans – heldur vegna sundrungarinnar.

Það er líka reynslan af sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi á 20. öldinni, að sundrung var alltaf mesta eyðileggingaraflið, sem færði Sjálfstæðisflokki og Framsókn ofurvald til að móta samfélagið, oft í þágu atvinnurekenda og fjármálamanna.

Þó stjórnarflokkarnir súpi nú seyðið sem sundurlyndisfjandinn bruggðaði þeim, þá hygg ég að staða þeirra geti batnað talsvert í aðdraganda kosninga – nema þeir kjósi að klúðra kosningabaráttunni algerlega, t.d. með enn frekari sundrungardansi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar