Miðvikudagur 23.01.2013 - 12:20 - FB ummæli ()

Var meiri fátækt á Íslandi en í Skandinavíu?

Frjálshyggjumenn hafa ítrekað reynt að afbaka og hártoga 13 ára gömul skrif mín um fátækt. Telja sig geta sýnt með tölum Hagstofu Íslands um afstæða fátækt frá 2003-2005 að ég hafi haft rangt fyrir mér er ég ályktaði út frá ýmsum gögnum frá 1997-1998, að fátækt virtist þá hafa verið heldur meiri á Íslandi en í Skandinavíu.

Nú eru hins vegar til nýrri og betri gögn um efnið sem að mörgu leyti styðja fyrri ályktun mína. Horfa þarf á fleira en afstæða fátækt (hlutfall heimila með tekjur undir 50% eða 60% af miðtekjum heimila á mann), eins og almennt er gert nú á dögum.

Ein mjög mikilvæg vísbending um fátækt er raunverulegur kaupmáttur lágtekjufólks. Á myndinni hér að neðan, sem kemur frá OECD og er fyrir árið 2005, má sjá hvernig Ísland kom út í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar.

Raunverulegur kaupmáttur ráðstöfunartekna lágtekjufólks í OECD-ríkjum árið 2005 (miðað er við þau 10% heimila sem lægstar tekjur hafa). (Heimild: OECD Growing Unequal?, 2008)

Hér má sjá að lágtekjufólk á Íslandi var með lægri rauntekjur en samsvarandi hópar á hinum Norðurlöndunum (rauðu súlurnar).

Lágtekjufólk á Íslandi hafði sem sagt minna fé milli handanna og minni kaupmátt til að lifa af á þessum tíma. Það styður vissulega þá ályktun að fátæktarþrengingar hafi verið meiri hér á landi en í Skandinavíu um árið 2005, mitt í góðærinu svokallaða. (Til eru samsvarandi gögn fyrir 2007 sem gefa svipaða niðurstöðu).

Ég hef hins vegar sagt og skrifað að skoða þurfi fátækt með margvíslegum mælingum til að fá heildstæða mynd. Almennt myndi ég ekki gera mjög mikið úr því að fátæktarvandamál séu meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Við erum ekki mjög langt frá þeim og fátækt Skandínava er ein sú alminnsta sem þekkist í heiminum, þegar allt er skoðað. Fátækir í hinum hagsælu Bandaríkjum Norður Ameríku eru t.d. með talsvert minni kaupmátt ráðstöfunartekna en norrænu þjóðirnar (sjá myndina) – og njóta að auki lakari velferðarþjónustu frá hinu opinbera.

Kreppan eftir hrun hefur þó dregið okkur neðar og í meiri fjárhagsþrengingar en þessar frændþjóðir okkar hafa mátt þola, vegna hins gríðarlega hruns krónunnar og kjaraskerðingarinnar sem af hlaust.

Þó tekist hafi að hlífa lægri tekjuhópum við áfallinu að hluta þá slapp nær enginn Íslendingur við umtalsverða kjaraskerðingu vegna hrunsins (sjá hér). Við getum því illa keppt við frændþjóðir okkar í þessum efnum fyrr en við erum búin að ná kaupmættinum aftur upp á það plan sem var fyrir hrun.

Ég mun síðar birta fleiri upplýsingar um fjárhagþrengingar og basl á Íslandi í samanburði við frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar