Föstudagur 25.01.2013 - 09:26 - FB ummæli ()

Vúdú-hagfræði Laffers er alger snilld!

Arthur Laffer er einn af áhrifamönnum nýfrjálshyggjunnar. Hann kom til Íslands í boði frjálshyggjumanna um miðjan nóvember 2007, er Ísland var þegar komið að bjargbrún fjármálahrunsins.

 

Skilaboð Laffers í aðdraganda hrunsins

Laffer sagði við það tækifæri, að hér á landi væri allt í besta hugsanlega lagi (sjá hér). Allt væri svo frjálst í landinu að allir vildu koma með fé sitt hingað. Ekkert væri til sem héti ofhitun hagkerfisins eða ofþensla.

Venjulegir hagfræðingar segja hins vegar, að ef viðskiptahalli er í tveggja stafa tölu í meira en eitt ár, með tilheyrandi ofhitun, þá stefni í voða. Þannig hafði ástandið verið á Íslandi í nokkur ár í röð, með methalla á erlendum viðskiptum og ógnvænlegri skuldasöfnun. Frjálshyggjumenn höfðu engar áhyggjur af því. Gróðinn skilaði sér sem aldrei fyrr.

Laffer yfirsást að vísu að búið var á þessum tíma að skrúfa fyrir frekari lánveitingar til bankanna á erlendum mörkuðum. Þeir björguðu sér með brellum í tvö misseri í viðbót, m.a. með söfnun sparifjár frá almenningi í grannríkjunum, með yfirboðum á vöxtum (Icesave o.fl.).

Þáverandi fjármálaráðherra, Árni Matthiesen, sagði að Ísland væri sönnun þess að kenning Laffers væri rétt! Hvorki meira né minna. Kanski Árni Matthiesen og Sjálfstæðismenn almennt hafi endurskoðað kenninguna eftir hrunið – eða hvað?

Þess sjást þó engin merki!

En hver er kenning Laffers um Laffer-bogann?

 

Vúdú-hagfræði Laffers í hnotskurn

Megin boðskapur Laffers er að skattar verði að vera mjög lágir til að fólk vilji vinna launavinnu og til að hagvöxtur geti gengið þokkalega. Allar skattahækkanir eru taldar leiða til minna vinnuframlags einstaklinga og minni hagvaxtar.

Síðan segja bogamenn Laffers að ef skattlagning fari yfir svona 25% þá hætti hækkunin að skila samsvarandi aukningu á tekjum ríkisins. Ekki hefur þó tekist að sanna að slíkt geti gerst að ráði fyrr en við mun hærri skattlagningu, t.d. við 70-80% (sjá hér). Þessu til viðbótar segja Laffer-menn að allar skattalækkanir skili auknum tekjum í ríkissjóð! Þar koma vúdú-áhrifin til sögunnar…

Ef speki Laffers væri rétt þá myndi enginn nenna að vinna í Skandinavísku löndunum, því þar eru skattar svo háir. Samt er reyndin sú, að atvinnuþátttaka er meiri í Skandinavíu en í Bandaríkjunum og Bretlandi (sem hafa mun lægri skatta). Þannig hefur það verið í áratugi.

Í Bandaríkjunum er reynslan sú, að á þremur áratugum eftir seinni heimsstyrjöldina, þegar hámarks álagning í tekjuskatti einstaklinga var sem hæst (yfir 90%), þá jókst atvinnuþátttaka og hagvöxtur varð meiri en fyrr eða síðar (sjá hér)! Það var alveg öfugt við speki og spá Laffers. Vúdú-brögð hans virkuðu ekki í reynd.

 

Prófun á Laffer áhrifum á Íslandi

Hvernig eru Laffer áhrifin á vinnuframboð á Íslandi? Þau virðast ekki vera nein á áratugnum fram að hruni – eða í besta falli öfug. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Þarna er sýnt samband milli hámarks álagningar í tekjuskatti einstaklinga og meðallengdar vinnutíma. Speki Laffers segir að vinnutími ætti að styttast þegar jaðarskatturinn hækkar og lengjast þegar skatturinn lækkar.

Svo heppilega vill til að hámarksálagningu í tekjuskatti var breytt á 15 ára tímabilinu fram að hruni (hækkun kom fyrst 1994 og síðan var lækkuð álagning á hærri tekjur frá 2004 ti 2008). Það er því hægt að prófa hvort hér hafi gætt Laffer áhrifa.

Niðurstaðan er sú, að engin Laffer-tengsl virðast vera milli hámarks álagningar í tekjuskatti og lengdar vinnutíma. Ef eitthvað er þá styttist vinnutími um leið og álagningin lækkaði frá 2004 til 2008 (fylgni er jákvæð upp á 0,48), sem er öfugt við speki Laffers!

Samband skattabreytinganna við atvinnuþátttöku er beinlínis ekkert. Þetta má skoða nánar hér.

Það er sitthvað annað en bara álagning í tekjuskattinum sem stýrir atvinnuþátttöku og vinnutíma fólks. Hagvexti líka. Raunverulegi heimurinn er flóknari og öðruvísi en heimur Laffers og frjálshyggjukóna hans!

 

Niðurstöður

Laffer áhrif á vinnuframboð, hagvöxt og tekjur ríkisins eru almennt ósönnuð og afar umdeilanleg. Þau gætu hins vegar átt við í öfgakenndu ástandi, sem þekkist almennt ekki í vestrænum samfélögum nú á dögum. Notagildi þessarar speki Laffers, sem Georg Bush eldri  gaf nafnið „vúdú-hagfræði“, er því lítið sem ekkert.

Ef finna á einhver áhrif af breytingu á skattlagningu launatekna á vinnuframboð eða hagvöxt þá þyrfti að fara mjög ofarlega í skattstigann. Til dæmis mætti búast við að lækkun skatta úr um 70-80% í svona 40-50% gæti hugsanlega haft einhver hvataáhrif eða bætt skattaskil (sjá hér).

Svo há álagning þekkist þó almennt ekki núna á Vesturlöndum svo líkindin á að finna Laffer áhrif virðast hverfandi í nútímanum. Erindi vúdú-spekinnar er því lítið, nema í blekkingar- eða áróðursskyni.

Annars eru menn mest farnir að hlægja að speki Laffers, jafnvel í Bandaríkjunum (sjá hér). Svo eru líka sumir hægri menn farnir að sjá í gegnum sjónhverfingar Laffers. Bruce Bartlett, einn af efnahagsráðgjöfum Reagans og höfundur hugtaksins „Reaganomics“, gagnrýnir núna villandi og hættulega notkun Repúblikanaflokksins á speki Laffers (sjá hér).

En það er annað á Íslandi.

Birgir Þór Runólfsson, riddari frjálshyggjuboðsins, hefur hamast við að birta fyrri greinar Hannesar Hólmsteins um hin “miklu” Laffer áhrif, bæði á Íslandi og í Sviss og Svíþjóð (t.d. hér).

Sú endurvinnsla er hálf súrrealísk, en hún hefur skemmtigildi. Þar eð ég er forfallinn aðdáandi súrrealisma þá mæli ég með vúdú-hagfræðinni sem dægradvöl og gef henni þrjár stjörnur fyrir skemmtigildið (***).

Þó fann ég einn hægri mann á Íslandi sem hefur varað við kuklinu í Deiglunni (sjá hér). Það sannar að til eru hægri menn hér sem kjósa meira raunsæi en frjálshyggjumenn bjóða uppá.

Vonandi næ ég að snúa einum hægri manni frá villutrú frjálshyggjunnar og vúdú-hagfræðinnar með pistli þessum. Þá myndi fjölga í hópi sómakærra Sjálfstæðismanna – sem væri gott fyrir land og þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar