Sunnudagur 27.01.2013 - 10:58 - FB ummæli ()

Orsakaði frjálshyggjan kreppuna?

Íslenskir frjálshyggjumenn hafa gengið hart fram í að þvo kenningu sína af ábyrgð á fjármálakreppunni og hruninu. Það er annað erlendis. Þar tengja virtir fræðimenn aukin frjálshyggjuáhrif á fjármálamarkaði við tilkomu fjármálakreppunnar alþjóðlegu. Einnig við almennt aukna tíðni fjármálakreppa eftir um 1980.

Hættur á að fjármálakreppur skelli á aukast stórlega með aukinni skuldasöfnun. Óholl skuldasöfnun fylgir oftast auknu frelsi og áhættuaukandi nýmælum á fjármálamörkuðum, sem ekki búa við fullnægjandi reglun, aðhald og eftirlit.

Hér eru nokkur dæmi um slíkan málflutning. Byrjum fyrst á frjálshyggjumanninum Richard A. Posner, sem tekur frjálshyggjumenn í bakaríið.

 

Uppgjör frjálshyggjumannsins Richard A. Posner

Posner er bandarískur fræðimaður, sem hefur verið mjög hallur undir frjálshyggju á liðnum árum. Hann hefur nýlega skrifað tvær bækur um fjármálakreppuna (bandarísku og alþjóðlegu) til að greina og skýra orsakir hennar. Hann kennir frjálshyggjunni að umtalsverðu leyti um núverandi kreppu í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Fyrri bókin heitir “Hvernig kapítlisminn brást” (A Failure of Capitalism, útg. 2009) og sú seinni “Kreppa kapítalísks lýðræðis” (The Crisis of Capitalist Democracy, útg. 2010).

Niðurstaða Posners er sú, einkum í seinni bókinni, að aukin frjálshyggjuáhrif á síðustu áratugum (afreglun, afskiptaleysisstefna, aukið frelsi á fjármálamarkaði) hafi gert kapítalismann viðkvæmari fyrir sveiflum. Aukið frelsi og minna aðhald á fjármálamörkuðum, í bland við aukið framboð á ódýru fjármagni, leiddi til bóluhagkerfisins eftir aldamótin, með ótæpilegri skuldasöfnun, sem endaði svo í núverandi fjármálakreppu, segir Posner.

Posner ítrekar að hann sé ekki andvígur kapítalisma heldur varar hann við því, að menn jafni kapítalisma við óheftan markað. Hann varar í reynd við afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar, sem að stórum hluta bannar ríkisafskipti. Hann segir reynslu sögunnar sýna að kapítalismi sé annað og meira en óheftir markaðir. Ríkisafskipti, lýðræði og aðhald séu allt nauðsynlegir þættir markaðshagkerfanna, svo þau virki vel og þjóni almannahag – en ekki bara sérhagsmunum.

Posner bendir í seinni bókinni á það, að kapítalismi sé í eðli sínu óstöðugur. Það er raunar augljóst af sögunni. Það var einnig niðurstaða John M. Keynes og Hyman Minskys og margra annarra sérfræðinga í fjármálum. Tilhneiging kapítalismans til óstöðugleika, ekki síst fjármálamarkaðanna, getur svo dregið allt hagkerfið niður með sér þegar markaðirnir fara verulega afvega, eins og gerðist í Kreppunni miklu er hófst 1929 og á afgerandi hátt í núverandi kreppu frá 2008.

Þess vegna er reglun, virkt eftirlit og aðhald svo mikilvægt. Í kjölfar Kreppunnar miklu var reglun verulega aukin til að draga úr áhættum. Það ásamt Bretton Woods samkomulaginu, sem tók gildi í upphafi eftirstríðsáranna, dró stórlega úr tíðni fjármálakreppa, alveg fram á áttunda áratuginn, er kerfið brotnaði upp á ný (frá og með 1971). Bretton Woods kerfið takmarkaði flæði fjármagns milli landa og veitti fjármálamörkuðum gagnlegt aðhald og stöðugleika. Eftir hrun þess jukust svo frjálshyggjuáhrif með aukinni útbreiðslu markaðshyggju og peningahyggju, ekki síst eftir 1980.

 

Rannsóknir og niðurstöður Reinhart og Rogoff

Það var einmitt eftir 1980 sem tíðni fjármálakreppa í heiminum tók einnig að aukast á ný (sjá umfjöllun um það í stórmerkri bók Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff, This Time is Different – Eight Centuries of Financial Follies, er kom út 2009; sjá hérhér og hér).

Það er einnig niðurstaða Reinhardt og Rogoff að aukið frelsi á fjármálamarkaði og óhófleg skuldasöfnun hafi átt stærstan þátt í aukinni tíðni fjármálakreppa almennt eftir 1980. Á bls. 217 segja þau t.d.: „Sögulega séð hefur aukið frelsi í fjármálum (financial liberalization) eða nýmæli í starfsháttum verið með síendurteknum hætti einkennandi fyrir aðdraganda fjármálakreppa…“.

Núverandi kreppa er einfaldlega óvenju stór fjármálakreppa af klassískri gerð, þar sem saman fer aukið frelsi og aðhaldsleysi, aukið framboð á fjármagni, aukin spákaupmennska og óhófleg skuldasöfnun, sem eykur allar áhættur, samkvæmt niðurstöðum þeirra Reinhart og Rogoff. Alltaf er þetta eins, þó menn segi í hvert skipti að nú sé þetta með öðrum hætti (þaðan kemur heiti bókar þeirra: This Time is Different).

Minnstu frávik eða bakslög geta svo sprengt slíkar bólur og dregið hagkerfin niður í djúpa kreppu. Því meiri sem skuldasöfnunin er, þeim mun meiri er áhættan og því stærra hrunið, ef til þess kemur.

 

Voru of mikil ríkisafskipti orsök kreppunnar?

Posner varar við öllu tali róttækra frjálshyggjumanna um að of mikil ríkisafskipti (t.d. af húsnæðismarkaði í USA) hafi orsakað fjármálakreppuna. Hann finnur slíkum rökum engan stað í framvindunni og segir óhjákvæmilegt að viðhafa öfluga reglun, eftirlit og aðhald gagnvart mörkuðum, vegna hins eðlislæga óstöðugleika þeirra. Annars fer illa.

Posner leggur einnig áherslu á að menn endurnýji kynni sín af klassískri hagfræði John Meynard Keynes, ekki síst um reynsluna af Kreppunni miklu og viðbrögðum við henni. Paul Krugman og Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði, leggja einnig mikla áherslu á þá lexíu. Frjálshyggjumenn bjóða hins vegar enn upp á óhefta markaði og hafna gjarnan hagfræði sem er í anda Keynes.

Óheftir fjármálamarkaðir eru samkvæmt þessu alvarleg ógn við velferð almennings. Ógn sem aukin frjálshyggjuáhrif juku stórlega á síðustu áratugum og keyrðu um þverbak eftir aldamótin 2000.

Það er ánægjulegt að til skuli vera málsmetandi frjálshyggjumenn, eins og Richard A. Posner, sem draga réttar ályktanir af reynslu sögunnar – og laga kenningar sínar að veruleikanum. Draumóramenn óheftrar markaðshyggju á Íslandi ættu að kynna sér þessi skrif hans, sem og skrif Reinhart og Rogoff, Paul Krugmans, Joseph Stiglitz og annarra helstu sérfræðinga á þessu sviði.

Á Íslandi gerðist þetta með svipuðum hætti. Aukin frjálshyggjuáhrif, samhliða verulega auknu aðgengi að ódýru fjármagni, stórjuku áhættuna á ósjálfbærri skuldasöfnun, bóluhagkerfi og hruni. Eftirlitsaðilarnir brugðust í einu og öllu, aðhald varð ekki nægt og markaðsaðilar í taumlausri gróðaleit steyptu þjóðarbúinu fyrir björg, með fordæmalausri skuldasöfnun. Frjálshyggjan færði þeim frelsið til að gera það.

Meira um orsakir íslensku kreppunnar síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar