Mánudagur 28.01.2013 - 22:34 - FB ummæli ()

Hverjir færðu okkur Icesave og verstu lausnina?

Nú þegar við fögnum innilega fullnaðarsigri Íslands í Icesave-málinu er hollt að minnast tveggja atriða:

  • Hverjir færðu íslensku þjóðinni Icesave
  • Hverjir lögðu til dýrustu leiðina til að leysa málið

Þeir sem færðu okkur Icesave voru eigendur og stjórnendur Landsbankans. Hvers vegna? Jú þeir voru að reyna að bjarga eignum sínum í bankanum og öðrum fyrirtækjum eftir að lokað hafði verið á frekari lánveitingar til bankans á alþjóðlegum fjármálamarkaði á árinu 2006.

Þá ákváðu þeir að afla fjár með því að ryksuga upp sparifé almennings í Bretlandi og Hollandi með yfirboðum í vaxtakjörum. Með því gætu þeir haldið bankanum lengur á floti.

Þetta voru ekki bara uppáhaldsbankamenn forystu Sjálfstæðisflokksins heldur sat sjálfur framkvæmdastjóri flokksins í bankaráðinu, þegar ákvörðun um þetta var tekin. Stjórnendur bankans ákváðu líka að gera þetta í formi útibúa frá bankanum (en ekki dótturfélaga eins og Kaupþing gerði), því þannig gátu þeir flutt féð örar til Íslands. Kölluðu þetta “tæra snilld”.

Þeir völdu leið sem lagði áhættuna á íslensku þjóðina, af því það hentaði þeim sjálfum betur. Kaupþing fór hina leiðina og hætti ekki fjöreggi þjóðarinnar með sínum innlánsreikningum (þó þeir gerðu það á aðra vegu).

Svo þegar kom að því að horfast í augu við þennan gerða hlut, eftir hrunið, þá samþykkti ríkisstjórn Geirs Haarde skuldbindingu um að Ísland myndi greiða lágmarksinnstæðutrygginguna í formi láns frá Bretum og Hollendingum. Lánið sem þannig yrði til skyldi greiðast til baka á tíu árum með 6,7% vöxtum (sjá hér og hér og hér og hér og hér).

Bjarni Benediktsson mælti fyrir samþykkt þessarar skuldbindingar á Alþingi fyrir jólin 2008, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Á myndinni hér að neðan, sem kemur frá fjármálaráðuneytinu, má sjá áætlaðan kostnað við hinar ýmsu leiðir í Icesave-málinu, ásamt samanburði við kostnaðinn af endurreisn Seðlabankans, sem varð gjaldþrota. Tölurnar eru settar fram sem % af landsframleiðslu.

Fyrsta leiðin var sem sé sú dýrasta og kom fram í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde (Árni Matthiesen var fjármálaráðherra og Bjarni Benediktsson studdi málið – sjá ræðu hans hér).

Fyrri Svavars-samningurinn kostaði rúmlega helming af fyrsta samningnum, en að auki fólst í honum að eignir Landsbankans myndu renna til greiðslu “skuldarinnar”. Þær eignir borga nú innstæðurnar til fulls.

Seinni samningur nefndar Svavars Gestssonar lækkaði svo kostnaðinn úr 7,6% í 5,1% af landsframleiðslu og Buchheit-samningurinn náði kostnaði ríkisins svo niður í 2,8% af landsframleiðslu.

Við skulum fagna því lengi og innilega að vel hefur unnist úr þessu máli á lokasprettinum.

Við skulum líka hafa skilning á því að Ísland var í afar þröngri stöðu á hverjum tíma til að bregðast við þessu ógæfulega máli og þeir sem um það sýsluðu gerðu án efa sitt besta. Óvissa um aðstæður, möguleika og framtíðarhorfur fylgdu allri aðkomu að málinu – á hverjum tíma.

Ísland var líka beitt þvingunum til að standa við hinar upprunalegu skuldbindingar, sem m.a. Árni Matthiesen fjármálaráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri skrifuðu undir.

Enginn gat gengið að því vísu að EFTA dómurinn myndi sýkna okkur. Flestir lögfræðingar óttuðust útkomuna fyrirfram, enda hefur ESA unnið flest mál sín á þessum vettvangi.

En gleymum ekki hvernig málið varð til og hverjir komu að dýrustu leiðinni sem til greina kom. Þeir sömu hafa verið iðnastir við að afneita eigin ábyrgð á málinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar