Mánudagur 18.02.2013 - 15:19 - FB ummæli ()

“Hyski” rændi völdum frá aðlinum

Það vakti mikla athygli þegar stjórnarmaður í Félagi sjálfstæðismanna í Grafarvogi kallaði Jón Gnarr borgarstjóra og samstarfsfólk hans “hyski”. Sagðist vilja losna við hann og “hyski” hans úr lífi sínu!

Margir voru hneykslaðir á uppákomunni og formaðurinn baðst síðar afsökunar á umnmælum sínum, en tók fram að það væri ekki vegna þess að hann harmaði þau.

En þetta er sami tónn og iðuglega heyrist í Morgunblaðinu um fólkið sem var kosið af þjóðinni til að stýra landinu út úr hruninu, eftir að Davíð Oddsson (þá æðsti stjórnandi íslenska peningakerfisins) hafði stýrt fjármálum þjóðarinnar fyrir björg.

Ritstjóri Morgunblaðsins talar iðuglega af svipaðri fyrirlitningu um lýðkjörin stjórnvöld landsins, eins og þessi formaður Sjálfstæðismanna í Grafarvogi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði svo gagnrýnendur sína “svín”. Margt fleira af þessum toga mætti nefna.

Halló! Er ekki allt í lagi í Sjálfstæðisflokknum?

Eru stjórnvöld í Reykjavíkurborg svo ómerkileg að sjálfsagt sé að kalla þau “hyski”? Eða stjórnvöld þjóðarinnar? Ég held ekki.

Jón Gnarr og félagar voru kosnir af borgarbúum eftir að Sjálfstæðismenn stýrðu borginni og Orkuveitunni því sem næst í gjaldþrot, undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi borgarstjóra, þó rætur vandans mætti rekja lengra aftur í tíma. Hanna Birna sagði fyrir kosningarnar 2010 að ekki þyrfti að hækka gjaldskrá Orkuveitunnar, hún stæði svo vel! Borgarbúar höfnuðu hins vegar Hönnu Birnu og Sjálfstæðisflokknum. Kusu Jón Gnarr og félaga í staðinn.

Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og efnahagsráðgjafi Sjálfstæðisflokksins, telur að staða borgarinnar og Orkuveitunnar hafi verið orðin svo slæm á þessum tíma, að best hefði verið að setja það allt á hausinn og fá erlenda vogunarsjóði til að endurreisa borgina – fyrir væna þóknun. Sagðist þó ekki vera að hugsa um eigin hag með tillögu sinni (sjá hér).

En Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa, að því er Gylfi Magnússon hagfræðingur segir, náð ótrúlegum árangri við að bjarga Orkuveitunni og borginni. Miðað við núverandi stöðu sé hægt að greiða skuldirnar niður á rúmum áratug. Gjaldþroti var sum sé forðað.

Svipað segja ábyrgir erlendir aðilar um endurreisn þjóðarbúsins undir vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms. Hún er almennt talin hafa náð góðum árangri við afar erfiðar aðstæður.

Hvers vegna eru Sjálfstæðismenn þá að nota þessi ókvæðisorð um pólitíska andstæðinga sína, sem hafa að bestu manna yfirsýn náð ágætum árangri?

Jú, það virðist sem Sjálfstæðismenn sætti sig ekki við að hafa misst völdin. Líta beinlínis á sig sem sjálfkjörna stjórnendur og eigendur Íslands. Jafnvel þó þeir hafi fyrir skömmu rekið landið í þrot.

Þeir eru íslenskur aðall – að eigin mati!

Ég minnist þess er helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins sagði fyrir Alþingiskosningar á síðasta áratug (líklega 2007), að kosningar væru tilraun til valdaráns – og átti hann þá við tilraun til að taka völdin af Sjálfstæðisflokknum.

Þetta þótti fyndið á þeim tíma. En ekki lengur.

Sjálfstæðismenn virðast ekki sætta sig við niðurstöður lýðræðislegra kosninga, ef þeir tapa. Vilja þá hafa lýðræðið að engu.

Þess vegna er heift, hroki og óþol þeirra svona mikið gagnvart andstæðingum sínum. Og gagnvart lýðræðinu.

Aðallinn telur sig einan réttborinn til valda. Þannig var það á miðöldum og þannig virðist það vera í Sjálfstæðisflokki nútímans.

Þeir sem taka völdin frá Sjálfstæðisflokknum eru því réttnefnt “hyski” – af aðlinum í Valhöll!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar