Miðvikudagur 20.02.2013 - 22:00 - FB ummæli ()

Helber ósannindi

Nærri þriðjungur af þeim greinum sem Birgir Þór Runólfsson skrifar á Eyjuna fjallar um mig og verk mín.

Þessar greinar eru allar sama marki brenndar.

Fyrirsagnirnar innihalda yfirleitt nafn mitt með upphrópun um „reiknivillur“ eða „leiðréttingar“ eða „rangfærslur“. Markmiðið er alltaf að ófrægja nafn mitt en ekki að segja satt og rétt frá.

Það er augljóst því allt það sem Birgir Runólfsson hefur hingað til sagt um meint mistök mín er rangt.

Ekki sumt; ekki flest; heldur allt.

Það vill líka svo til að hann veit það, því ég hef skýrt flest af þessu á prenti. Háskólakennari sem lætur frá sér önnur eins gífuryrði um verk fólks og Birgir Runólfsson gerir ætti að hafa kannað heimildirnar sem málinu tengjast.

En hann kýs frekar að endurtaka í síbylju þessi ósannindi sín.

Gott dæmi er nýjasta grein hans hér á Eyjunni (hér). Ég skal fara í gegnum rangfærslur hans þar. Hér eru fullyrðingar hans:

  1. Birgir segir: “(Stefán) reiknaði til dæmis með miklu meiri fátækt árið 2003 en í ljós kom í mælingum.”
  2.  “(Stefán) reiknaði líka Gini-stuðla um tekjudreifingu rangt árið 2006 og ofmat þá, hversu ójöfn tekjudreifingin væri.”
  3. “Hann reiknaði líka skattleysismörk lægri en þau voru og notaði það til að saka stjórnvöld um „skattalækkunarbrellu“.

Allt er þetta rangt hjá manninum. Hér eru svörin mín:

  1. Tölur mínar um fátækt voru fyrir árin 1997-8 en ekki fyrir 2003. Það breytir miklu.
  2. Ég reiknaði ekki þá Gini-stuðla sem hann nefnir. Stuðlarnir komu af vef evrópsku hagstofunnar (Eurostat) og íslensku tölurnar voru reiknaðar af Hagstofu Íslands. Skömmu síðar kom í ljós að þær voru ekki sambærilegar. Ég gerði grein fyrir því í blaðagrein og útskýrði málið. Hef síðan skrifað fjölda fræðilegra greina um efnið þar sem þessar tölu koma hvergi við sögu. Það er því blekkjandi og beinlínis óheiðarlegt að staglast á þessu eins og ég sé í verkum mínum eitthvað að byggja á þessum villandi samanburði sem Hagstofurnar sjálfar gerðu.
  3. Í grein minni um “skattalækkunarbrellu” stjórnvalda frá 2006 birti ég tölur Hagstofu Íslands um skattbyrði tekjuhópa en reiknaði þær ekki sjálfur. Þetta hefði Birgir getað staðreynt með lágmarks heimildakönnun. Ég hef raunar aldrei gert neinar slíkar reiknivillur sem hann talar um varðandi skattleysismörkin. Annað hvort skilur maðurinn ekki þau gögn sem byggt er á eða hann segir vísvitandi ósatt (því ég hef sagt honum hvernig þetta er, t.d. hér og hér).

Í þessum síðasta pistli sínum talar Birgir síðan um “nýja tölfræðivillu” sem ég á að hafa gert í kafla í bókinni Eilífðarvélin. Hann fullyrðir að ég reikni þar meðaltal hagsældar norrænu og enskumælandi þjóðanna á rangan hátt. Ég reiknaði óvegið meðaltal en hann vill nota vegið meðaltal. Segir þetta vera mikinn glæp og ber sig mannalega.

Nú er það svo að OECD og allir aðrir nota ýmist vegið eða óvegið meðaltal í samanburði hinna ýmsu atriða milli þjóða. OECD notað hugtakið “OECD average” yfir óvegna meðaltalið (sem ég nota), en “OECD total” fyrir vegna meðaltalið (sjá t.d. hér).

Hvort notað er vegið eða óvegið meðaltal ræðst af því hvaða sögu menn eru að segja með samanburðinum. Það væri beinlínis rangt að nota vegið meðaltal í þeim samanburði á árangri þjóðríkja sem ég er að gera í umræddri bók. Viðmiðið er ekki samanburður einstaklinga óháð því frá hvaða þjóðríki þeir koma, heldur samanburður þjóðríkja. Með vigtun meðaltalsins í slíkum samanburði myndu útkomur fjölmennustu ríkjanna skyggja á útkomur hinna ríkjanna.

Fullyrðing Birgis Runólfssonar um “tölfræðivillu” í þessu samhengi er því út í hött. Ef ég hef gert villu þarna þá gerir OECD slíka villu í hverri einustu skýrslu sem frá þeim kemur. Enginn málsmetandi maður hefur haldið slíku fram.

Þeir sem kjósa að ítreka ósannindi þrátt fyrir að þeim hafi verið bent á hið rétta, eins og Birgir gerir, eru ekki í rökræðu. Þeir eru í áróðurs- eða ófrægingarherferð – nema hvoru tveggja sé.

Birgir Runólfsson leggur lykkju á leið sína til að gefa falska mynd af verkum mínum og gagnrýnir þau síðan á upplognum forsendum. Það er mun alvarlegra en að búa sér til ódýran strámann til að fella. Birgir brýtur raunar með þessu helstu siðareglur fræðasamfélagsins sem hann tilheyrir.

Hann slær fram helberum ósannindum. Endurtekur þau síðan ítrekað þrátt fyrir að honum sé bent á hið rétta.

Ég mun ekki fjalla aftur um skrif Birgis Runólfssonar. Þau verðskulda enga umfjöllun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar