Laugardagur 23.02.2013 - 13:03 - FB ummæli ()

Sjálfstæðisflokkur – Flokkur ríka fólksins

“Hvers konar flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn”, spyr Styrmir Gunnarsson í nýlegri bók sinni, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör? (sjá bls. 268 og áfram)

Við getum bætt við og spurt frekar, er Sjálfstæðisflokkurinn íhaldsflokkur, frjálslyndur flokkur, frjálshyggjuflokkur hins óhefta kapítalisma (í anda Répúblikana í USA), hagsmunaflokkur yfirstéttarinnar eða flokkur allra stétta? Hvað vegur mest í einkennum flokksins?

 

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn

Styrmir vísar til skilgreiningar Birgis Kjarans á flokknum frá árinu 1959, þar sem lögð er áhersla á þjóðernislegar rætur hans. Birgir Kjaran átti sjálfur fortíð í nasistaflokknum, Þjóðernissinnaflokki Íslands, sem var aflagður í byrjun seinni heimsstyrjaldar.

Birgir bendir í grein sinni á að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Þess vegna er oft sagt að Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist íhaldsstefnu í bland við frjálslyndisstefnu.

Á sjöunda og áttunda áratugnum var stundum sagt að menn í Sjálfstæðisflokki væru mest hægri menn, en þar mætti einnig finna miðjumenn smitaða af “kratisma”. Styrmir leggur sjálfur áherslu á að flokkurinn hafi verið hægri flokkur og spyr hvort hægt sé að komast lengra til hægri en Birgir Kjaran gerði, en hann var í metum í flokknum á sínum tíma. Samstarfsflokkar í ríkisstjórnum héldu hins vegar oft aftur af hægri stefnu flokksins.

Þetta er myndin af gamla Sjálfstæðisflokknum, þjóðernislega sinnuðum hægri flokki, með ívafi við miðjustefnu. Í rómantískum lýsingum á þeim gamla flokki var gjarnan sagt að hann væri flokkur allra landsmanna og kjörorðið “stétt-með-stétt” átti að vísa til þess.

Flokkurinn átti ekki bara að vera fyrir forstjóra frystihússins heldur líka fyrir fiskverkakonuna, segir Styrmir. Hvaða máli skipti það þótt forstjórinn hafi kanski átt meiri peninga, spyr hann einnig?

Þetta var auðvitað ímyndin – en í veruleikanum réðu atvinnurekendur oftast ferðinni, eins og Styrmir lýsir raunar vel í öðrum hlutum bókar sinnar.

 

Nýi Sjálfstæðisflokkurinn

Síðan kom frjálshyggjubyltingin, sem Eimreiðarhópurinn gekkst fyrir frá um 1979, “…með Hannes Hólmstein Gissurarson fremstan í flokki sem eins konar talsmann og Kjartan Gunnarsson að tjaldabaki sem virkan áhrifamann…” (bls. 269).

Þá breyttist allt. Styrmir lýsir umskiptunum þegar frjálshyggjan fór af hugmyndastiginu yfir á framkvæmdastigið svona:

“…frá vori 1991 og þar til í ársbyrjun 2009, eða á nær tveimur áratugum, tókst hinni nýju kynslóð í Sjálfstæðisflokknum, sem tekið hafði við keflinu úr hendi Geirs Hallgrímssonar, að koma fram öllum meginmarkmiðum leiftursóknarinnar, sem kynnt var fyrir þingkosningarnar 1979, þrátt fyrir að misstíga sig í byrjun.

Frjálsræði var aukið á öllum sviðum atvinnulífs og efnahagslífs og í viðskiptum við aðrar þjóðir. Viðamikilli einkavæðingu var hrint í framkvæmd og með hvoru tveggja voru margvíslegir kraftar leystir úr læðingi, sem að lokum reyndist bæði hafa verið til góðs og ills” (bls. 255).

Eftir frjálshyggjubyltinguna varð Sjálfstæðisflokkurinn ekki samur og áður. Hugmyndafræði íhaldsstefnu leystist upp og hvarf að miklu leyti en í staðinn kom peningahyggja og róttæk markaðshyggja frjálshyggjunnar, með afskiptaleysisstefnu og vúdú-hagfræði Laffers í öndvegi. Hvergi á Norðurlöndum hefur þessi vafasama speki Laffers náð jafn mikilli festu og í Sjálfstæðisflokknum.

Einnig varð hagsmunabarátta fyrir atvinnurekendur og fjármálamenn harðari en áður. Hún kom meðal annars fram í ofurfrelsi og afskiptaleysi eftirlitsaðila á fjármálamarkaði, fríðindum fyrir fjárfesta, skattalækkunum á fyrirtæki, hátekjufólk og stóreignafólk um leið og skattbyrði lágtekjufólks og jafnvel millistéttarinnar var aukin. Barnabætur og vaxtabætur til ungra fjölskyldna voru rýrðar ár frá ári eftir 1995 og bætur almannatrygginga drógust afturúr launum.

Sjálfstæðisflokkurinn gerðist í auknum mæli flokkur yfirstéttarinnar, flokkur ríka fólksins, og hirti minna um milli og lægri stéttir samfélagsins en áður hafði verið.

Þjónkun við þessi hagsmunaöfl yfirstéttarinnar hafði að vísu alltaf verið nátengd Sjálfstæðisflokknum, en nú keyrði hún um þverbak um leið og hagsmunum fiskvinnslukonunnar, lífeyrisþega og ungra barnafjölskyldna var fórnað. Styrmir segir eftirfarandi um þessi hagsmunatengsl:

“Í annan stað er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er veikur fyrir áhrifum sérhagsmunahópa. Á landsvísu á þetta augljóslega við um útgerðarmenn og fiskverkendur, um viðskiptalífið almennt, svo og um fjármálafyrirtækin um nokkurra ára skeið eftir einkavæðingu bankanna” (bls. 263).

Svo segir hann nánar um það sem misfórst í frjálshyggjubyltingunni og sem hann segir flokkinn ekki hafa gert upp við á viðunandi hátt:

“Það sem hins vegar fór úr böndunum við þessa frelsisvæðingu athafnalífsins á Íslandi var að það voru ekki settar upp nægilega sterkar girðingar til þess að hinir nýfrjálsu ungu athafnamenn æddu ekki út um allt eins og þegar kúnum er sleppt út á vorin og þær ráða ekki við gleði sína. Það er auðvelt að sjá eftirá en ekki endilega fyrirsjáanlegt…” (bls. 261).

Síðan nefnir Styrmir einnig aukin áhrif peningamanna á flokkinn, meðal annars í prófkjörum, og spyr: “Hvernig stóð á því að Sjálfstæðisflokkurinn skar ekki upp herör gegn þeirri ósvinnu? Varla er það eða var skoðun flokksins að sjálfsagt væri að kaupa úrslit kosninga með nokkrum tugum milljóna”?

Þegar horft er til eignarhalds á Morgunblaðinu og stjórnmálaafskipta þess, auk áhrifa samtaka atvinnurekenda, verður þó varla annað sagt en að þessi áhrif peningaafla í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hafi aukist frekar en minnkað á síðustu árum.

Þegar horft er til stefnu og málflutnings talsmanna Sjálfstæðisflokksins í gegnum hrunið örlar heldur hvergi á neinni endurskoðun frjálshyggjustefnunnar sem steyptu þjóðinni fyrir fjármálabjörg. Frjálshyggja hins óhefta markaðar og auðmannadekur eru enn í öndvegi.

Það er vel þekkt í fjármálafræðunum að aukið frelsi á fjármálamarkaði í bland við óhóflega græðgi og andvaraleysi eftirlitsaðila felur í sér stórkostlegar hættur á bóluhagkerfi og fjármálahruni, eins og hér varð. Slík þróun tengist einnig verulega auknum ójöfnuði í tekju- og eignaskiptingu, enda hagnast peningaöflin stórlega við slík skilyrði (sjá hér og hér).

Hvergi sér þess merki að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hefta það frelsi með aukinni reglun og aðhaldi, sem Styrmir bendir þó á að sé nauðsynlegt að gera. Yfirstéttin sem ræður ferðinni í flokknum virðist ekki á sama máli.

Á yfirstandandi landsfundi flokksins er boðað að lækka skatta á hátekjufólk og fyrirtæki, afskrifa skuldir hjá fólki í hærri tekjuhópum, um leið og sagt er að úrræði séu þegar til staðar fyrir lægri tekjuhópana. Veiðigjaldinu á að skila aftur til útvegsmanna.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er skýr. Sjálfstæðisflokkurinn breyttist í grundvallaratriðum eftir frjálshyggjubyltinguna. Hann hefur hvergi snúið frá þeim nýju áherslum sem þar komu til sögunnar. Siðferðileg íhaldsstefna hefur að miklu leyti horfið sem einkenni á flokknum og eftir stendur einn róttækasti frjálshyggjuflokkur Vesturlanda.

Að þessu leyti er Sjálfstæðisflokkurinn ólíkur Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum, þ.e. ekki með samfélagslega, siðferðilega eða trúarlega íhaldsstefnu. Samhljómur er með þeim að flestu öðru leyti, ekki síst hvað snertir auðmannadekrið.

Kjörorðið “stétt-með-stétt” heyrist ekki lengur. Hagsmunir fiskvinnslukonunnar ber varla á góma, né hagsmunir lægri stétta almennt. Peningamenn yfirstéttarinnar ráða ferðinni sem aldrei fyrr. Hagsmunagæsla í þeirra þágu eru helstu mál flokksins. Formaðurinn er meira að segja auðmaður sjálfur.

Sjálfstæðisflokkur nútímans er flokkur ríka fólksins – og lítið annað.

Það er synd, því gamli Sjálfstæðisflokkurinn var ekki alslæmur.

 

Sjá nánar bók Styrmis Gunnarssonar (2012), Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar