Þriðjudagur 26.02.2013 - 20:46 - FB ummæli ()

Jeffrey Sachs – Bylting frjálshyggjunnar í USA

Jeffrey Sachs, heimsþekktur hagfræðiprófessor við Columbia háskóla í New York og ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna í þróunarmálum, skrifaði nýlega athyglisverða grein um áhrif frjálshyggju á efnahag og þjóðfélag í Bandaríkjunum.

Hann gefur frjálshyggjunni falleinkunn og segir hana hafa stórskaða samfélagið.

Bylting frjálshyggjunnar hófst með stjórnartíma Ronald Reagans upp úr 1980. Reagan sagði að ríkisstjórnir hefðu ekki lausnir á vandamálum Bandaríkjanna. “Ríkið er vandamálið”, voru hin fleygu orð hans!

Í staðinn boðaði Reagan frjálshyggjubyltingu og afskiptaleysisstefnu (free market revolution) með skattalækkunum, einkum til hinna efnameiri í samfélaginu. Hann vildi einnig skera niður opinbera þjónustu og almannatryggingar, minnka velferðarríkið og efla markaðinn.

Jeffrey Sachs segir Reagan hafa sett í gang herferð sem í reynd rýrði kjör fátækra (lægstu laun lækkuðu; bætur lækkuðu; heimilislausum tók að fjölga stórlega), en einnig herferð gegn umhverfisvernd, vísindum og tækni. Í reynd grófu aðgerðir Reagan-stjórnarinnar einnig undan millistéttinni.

Sachs segir aðgerðir Reagan-stjórnarinnar einkum hafa falist í fjórum þáttum:

  • Skattalækkunum fyrir þá ríku
  • Niðurskurði opinberra útgjalda til menntunar, samgöngumannvirkja, orkuöflunar, umhverfisverndar og starfsþjálfunar fyrir ungmenni
  • Mikilli aukning hernaðarútgjalda
  • Afreglun efnahagslífsins (aukið frelsi á fjármálamarkaði) og aukin einkavæðing á grunnþjónustu hins opinbera

Allt þetta leiddi til þess að tekju- og eignaskiptingin varð mun ójafnari en áður hafði verið og grunngerð samfélagsins veiktist. Bilið milli ríkra og fátækra jókst stórum og millistéttin dróst saman.

Ameríski draumurinn varð sífellt innantómari og tækifæri til að hefja sig upp úr fátækt rýrnuðu. Eina leiðin til að halda kaupmætti fyrir venjulegar fjölskyldur í millistétt var sú, að auka vinnu og safna skuldum.

Sachs veltir einnig fyrir sér hvort komið sé að lokum frjálshyggjutilraunarinnar í Bandaríkjunum, sem staðið hefur nú í um 30 ár. Hann bendir á niðurstöðu sagnfræðingsins kunna, Arthur Schlesinger yngri, um að í seinni tíma sögu Bandaríkjanna hafi skipst á u.þ.b. 30 ára tímabil þar sem einkahagsmunir þeirra ríku og hagsmunir almennings hafi verið ríkjandi á víxl.

Frjálshyggjunni fylgja áherslur er hagnast einkum þeim ríku, eins og verið hefur síðustu 30 árin. Áratugirnir þrír frá lokum seinni heimsstyrjaldar voru hins vegar mun hagsælli fyrir almenning en yfirstéttina (sjá hér).

Sachs veltir fyrir sér hvort Obama forseti sé að hallast að stefnubreytingu frá frjálshyggjuáherslunum sem ríkt hafa frá tíma Reagans og bindur nokkrar vonir við það. Hann varar þó við því, að talsmenn frjálshyggju eru þeir sem hafa mestu völdin í samfélaginu, þ.e. peningaöflin, yfirstéttin og stórfyrirtækin.

Ísland fékk sína frjálshyggjubyltingu fyrir tilstilli Eimreiðarhópsins í Sjálfstæðisflokknum, sem gætti með vaxandi þunga í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, frá um 1995 til 2007. Frjálshyggjunni á Íslandi fylgdu mörg sambærileg einkenni og fram komu í Bandaríkjunum.

Að mörgu leyti var gengið lengra hér í átt frjálshyggjuáhrifa en í Bandaríkjunum og urðu afleiðingarnar hrikalegri, bæði hvað snertir skuldasöfnun, spákaupmennsku í bóluhagkerfinu, aukinn ójöfnuð tekna og eigna og hið hrikalega fjármálahrun, með mestu kjaraskerðingu almennings á lýðveldistímanum.

Í Bandaríkjunum eru málsmetandi menn, eins og Jeffrey Sachs, að sjá hversu óheillavænleg áhrif frjálshyggjan hefur haft á síðustu áratugum. En á Íslandi herðir Sjálfstæðisflokkurinn róðurinn á frjálshyggjumiðin.

Það er sennilega vegna þess að peningaöflin ráða ferðinni í Sjálfstæðisflokknum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar