Mánudagur 18.03.2013 - 15:38 - FB ummæli ()

Geta vestrænir róbótar keppt við Kínverja?

Race against machineNý tækni hefur lengi breytt framleiðsluháttum og leyst vinnandi hendur af hólmi. Það er gömul saga og ný, alveg frá árdögum iðnbyltingarinnar. Þetta er það sem Jósef Schumpeter, einn af mikilvægari hagfræðingum og samfélagsrýnum 20. aldarinnar, kallaði “skapandi eyðileggingu” (creative destruction).

Ný tækni eyðileggur gömul störf – en skapar oftast ný í staðinn. Til skemmri tíma getur slík tækniþróun leitt til atvinnuleysis, en til lengri tíma hefur yfirleitt tekist að búa til nógu mörg ný störf á öðrum sviðum, meðal annars með aukningu kaupmáttar og hærra stigi menntunar og fagþekkingar.

Nú segja menn að þetta sé að breytast. Ekki verði lengur til nógu mörg ný störf í ríku löndunum.

Lengi vel héldu menn á Vesturlöndum að gott mál væri að rútínubundin framleiðslustörf og láglaunastörf í þjónustu færðust til láglaunalanda, t.d. Kína og Indlands. Það var ein af afleiðingum hnattvæðingarinnar sem ágerðist stig af stigi á síðustu 30 árum.

Verstu störfin færu til þróunarlanda – en í staðinn yrðu til fleiri góð og vel launuð störf við sérfræði ýmiss konar og hástigs þjónustu. Eða svo héldu menn.

Slík þróun hefur vissulega orðið og stór hluti af iðnaðarframleiðslu Vesturlanda hefur þannig tapast til þróunarlandanna, þar sem laun eru miklu lægri. Verkafólk ríku landanna er einfaldlega ekki samkeppnishæft við láglaunafólk í Kína og Indlandi og öðrum þróunarlöndum (sjá nánar hér).

Það nýjasta er að hátæknistörf og ýmis þjónustustörf eru líka að flytjast til láglaunalanda, sem hækka menntunarstig sitt og færni. Sérfræðingar á þessu sviði eru því farnir að hafa meiri áhyggjur af starfstækifærum á Vesturlöndum en áður.

En vélmenni, róbótar og tölvur eru líka að hafa áhrif á störfin í ríku löndunum.

Skoðið þetta frábæra myndband frá “60 minutes” þættinum um áhrif tækniþróunar á störf. Þar er viðtal við Eric Brynjolfsson og Arthur McAfee sem hafa skrifað mjög athyglisverða bók um málið, Race against the machine.

 

Fjölgun iðnaðarróbóta er ekki ný af nálinni. Menn voru byrjaðir að tala um það fyrir 20-30 árum síðan, og sú tækni hefur fengið stærra hlutverk, t.d. í bílaframleiðslu, bæði á Vesturlöndum og annars staðar.

Róbótar hafa hins vegar verið lítið í fréttum á síðustu árunum, kanski vegna þess að fjármálaþjónustan skyggði á þá. Fjörið og tekjurnar voru á sviði fjármálanna – fram að kreppunni.

Sérfræðingar segja hins vegar að mikið hafi verið að gerast í þróun og fjölgun róbóta á síðustu árum. Róbótar eru núorðið farnir að keppa við menn um störfin á Vesturlöndum. Þannig að bæði hnattvæðingin og róbótarnir takmarka starfstækifærin fyrir unga fólkið í ríku löndunum.

Menn sjá þetta alls staðar. Heimabankar leysa bankamenn af hólmi, verslun á netinu leysir verslunarfólk af hólmi, sjálfsalar skrá okkur í flug, þjónustusjálfsalar sinna margvíslegum erindum í síma, vélmenni manna risastór vöruhús, o.s.frv… Listinn gæti verið mjög langur.

Það nýjasta er að nú sé möguleiki á því að ná einhverju af störfum til baka frá Kína og Indlandi – en ekki handa fólki, heldur handa vestrænum róbótum. Kostnaður við nýja róbót í Bandaríkjunum er nú svipaður og tímakaup kínverskra verkamanna!

Ef þetta reynist rétt, þá eru horfurnar ekki nógu góðar fyrir venjulegt fólk – en þær eru hins vegar batnandi fyrir verstræna róbóta!

Þarna er athyglisverð umræða um framtíðina, tæknina og störfin…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar