Þriðjudagur 19.03.2013 - 22:16 - FB ummæli ()

Velferðarútgjöld – aldrei hærri en nú

Þó mest hafi verið talað um niðurskurð á sviði velferðarmála eftir hrun þá er staðreyndin sú, að velferðarútgjöld voru einungis skorin niður á sumum sviðum en aukin verulega á öðrum.

Nettóútkoman er sú, að velferðarútgjöld hins opinbera í heild hafa aldrei fyrr verið hærri en nú eftir hrunið. Það þýðir að velferðarkerfinu hefur verið beitt til að vernda heimilin gegn hluta af afleiðingum kreppunnar.

Sérstaklega voru tekjutilfærslur til heimilanna auknar (bætur og lífeyrir) en skorið var niður í þjónustuhlutum velferðarkerfisins (heilbrigðisþjónustu og menntun). Tekjutilfærslur til heimila má sjá á fyrri myndinni, sem % af landsframleiðslu.

Velferðarútgjöld

Mynd 1: Opinber útgjöld til almannatrygginga og bóta (tekjutilfærslur til heimila), sem % af landsframleiðslu (Heimild: Hagstofa Íslands)

Opinber útgjöld til lífeyris almannatrygginga og bóta (atvinnuleysi, barnabætur og vaxtabætur) jukust úr rúmlega 8% af landsframleiðslu 2006-7 upp í 11-12% frá og með 2009. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra á Íslandi.

Þetta er hluti þess sem hefur verið kallað “skjaldborg heimilanna”. Ekki var sjálfgefið að útgjöld væru aukin á þessu sviði, nema helst til atvinnuleysisbóta (vegna aukins atvinnuleysis). Aukin útgjöld til lágmarkslífeyris og vaxtabóta voru miðuð að því að minnka hættu á fátækt og létta greiðslubyrði hópa í sérstökum vanda.

Á Írlandi voru slík útgjöld dregin saman.

Á seinni myndinni má sjá hvernig útgjöldin til allra liða velferðar-, heilbrigðis- og menntamála þróuðust á föstu verðlagi, frá 1998 til 2011.

Velferðarútgjöld á föstu verðlagi

Mynd 2: Þróun opinberra útgjalda til allra þátta velferðarmála, á föstu verðlagi, 1988 til 2011. (Heimild: Hagstofa Íslands)

Þarna má sjá hvernig útgjöldin til almannatrygginga og bóta (svarta línan) jukust að raunvirði eftir hrunið og eru nú hærri en nokkru sinni fyrr.

Útgjöld til heilbrigðismála og menntamála lækkuðu hins vegar að raunvirði frá 2008 til 2011. Útgjöld til menntamála eru nú svipuð að raunvirði og var árið 2005 en útgjöldin til heilbrigðismála lækkuðu meira og eru nú svipuð og var á árinu 2003.

Þrátt fyrir lækkun útgjalda til heilbrigðismála og menntamála var hækkunin á tekjutilfærslum til heimilanna svo mikil að samanlögð heildarútgjöld til allra þessara liða eru hærri eftir hrun en nokkru sinni fyrr.

Bæði að raungildi og sem hlutfall af landsframleiðslu.

Þeir sem vildu laga fjárhagsvanda ríkisins með niðurskurði einum og engum skattahækkunum hefðu þurft að skera opinber útgjöld niður tvisvar sinnum meira en gert var í reynd.

Þá hefðu kjör heimilanna ekki verið varin með auknum tekjutilfærslum og enn meira hefði verið þrengt að heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Lífeyrisþegar hefðu tekið á sig mun meiri byrðar. Þeir sem eru óánægðir með “hversu lítið var gert fyrir heimilin” hefðu þá haft yfir mjög miklu að kvarta.

Í þessu liggur munurinn á velferðarstefnu og niðurskurðarstefnu, sem viðbrögðum við djúpri kreppu. Skattar voru einkum hækkaðir á tekjuhærri hópa og fyrirtæki til að greiða fyrir tekjutilfærslur til heimila með milli og lægri tekjur (sjá nánar um þetta hér).

Íslenska leiðin í gegnum kreppuna var leið velferðarstefnu og nýtur hún nokkurrar sérstöðu í Evrópu, þar sem niðurskurðarstefnunni hefur víðast verið beitt í meiri mæli en hér var.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar