Sunnudagur 24.03.2013 - 13:53 - FB ummæli ()

Skattar voru bæði hækkaðir og lækkaðir

Umræða um skattamál verður oft ýkjukennd, enda nátengd pólitískum átökum.

Sumir segja skatta hafa verið stórhækkaða eftir hrun en aðrir benda á að skatttekjur hins opinbera séu minni hluti landsframleiðslu en fyrr.

Báðir virðast geta fært rök fyrir máli sínu. Þeir sem tala um skattahækkanir benda á álagningarhlutföll sem voru hækkuð, en ábyggilegar tölur Hagstofunnar, OECD og AGS sýna lækkaðar skatttekjur hins opinbera eftir hrun.

Hvernig má þetta vera?

Jú, svarið liggur í því að skattar voru bæði hækkaðir og lækkaðir í kreppunni. Hækkaðir hjá sumum en lækkaðir hjá öðrum. Samdráttur í kreppu rýrir líka skattstofna.

Skattbyrði hærri tekjuhópa var hækkuð (með endurupptöku hátekjuskatts í þriggja þrepa álagningarstiga). Skattaálagning á fjármagnstekjur var tvöfölduð, en fjármagnstekjur eru í mestum mæli tekjur hátekjufólks.

Skattbyrði lágtekjufólks og miðtekjufólks var hins vegar lækkuð eða stóð í stað. Hækkun skattleysismarka skilaði því, ásamt verulegri hækkun vaxtabóta sem dragast frá álögðum tekjuskatti. Lækkun tekna leiddi líka til lægri raunálagningar.

Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir, úr 15% í 20%, en eru þó ennþá með allra minnsta móti sem þekkist meðal vestrænna þjóða.

Virðisaukaskattur var hækkaður úr 24,5% í 25,5%, sem rýrði kaupmátt heimilanna og leiddi til minni neyslu. Minni neysla gæti þýtt að heimilin hafi ekki greitt jafn mikið og áður af tekjum sínum í neysluskatta.

Skattahækkanirnar voru nauðsynlegar til að greiða kostnað af hruninu (endurreisn Seðlabankans og annarra banka, aukið atvinnuleysi o.m.fl.). Án þessara skattahækkana á breiðari bökin hefði niðurskurður opinberra útgjalda þurft að vera helmingi meiri en þó varð. Þá hefði þurft að þrengja stórlega að lífeyrisþegum og stórskemma heilbrigðiskerfið og menntakerfið, umfram það sem þó varð.

Fastar var klipið í skattstofna sem minnkuðu vegna aukins atvinnuleysis, launalækkana og minni veltu í efnahagslífinu. Auknar byrðar voru hins vegar í meiri mæli lagðar á þá sem meiri greiðslugetu hafa, þ.e. fólk í hærri tekjuhópum.

Samt var siglt í gegnum kreppuna með minni opinberar tekjur en fyrir hrun, bæði að raunvirði og sem hlutfall af landsframleiðslu (sem sjálf minnkaði um 10%).

Það er merkilegt í ljósi þess að verkefni stjórnvalda stórjukust með hruninu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar