Föstudagur 29.03.2013 - 10:49 - FB ummæli ()

Mesta blekking frjálshyggjunnar á Íslandi

Í þessari grein mun ég sýna hvernig íslenskir frjálshyggjumenn hafa blekkt almenning gróflega, með boðskap sínum um möguleika á því að afla ríkinu auknar tekjur með stórfelldum skattalækkunum.

Blekkingarnar voru meðal annars framkvæmdar með villandi framsetningu á tölum um samband milli skattalækkana og aukinna tekna af tekjuskatti fyrirtækja, sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti fyrstur og hefur síðan margítrekað.

Bæði var beitt brellum við gerð áhrifamikils línurits sem notað hefur verið og horft framhjá raunverulegum áhrifum á skil skatttekna, svo sem augljósum áhrifum af hagsveiflunni og breikkun skattstofnsins.

Hannes og félagar fullyrða að skattalækkanir hafi haft þau áhrif að auka vinnuframlag fólks sem svo skilaði sér í auknum hagvexti og meiri skattgreiðslum af auknum umsvifum, sem aukið vinnuframlag átti að hafa skapað. Ekkert slíkt samband finnst hins vegar milli skattahlutfalls í tekjuskatti og vinnuframlags einstaklinga eftir 1990 á Íslandi (sjá hér).

Sjálfsagt er að berjast fyrir lækkun skatta á Íslandi, en það eru blekkingar að halda því fram að með skattalækkunum aukist skatttekjur hins opinbera. Skatttekjurnar lækka í kjölfar umtalsverðra skattalækkana, jafnvel þó þær geti örvað efnahagslífið lítillega.

 

Laffer áhrifin á Íslandi

Óvíða hafa menn gengið lengra á vit vúdú-hagfræða frjálshyggjunnar en á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hannes Hólmsteinn hefur verið helsti talsmaður þeirrar speki og sækir hann hugmyndir sínar til Arthurs Laffers.

Laffer kom hingað, eins og menn muna, skömmu fyrir hrun og sagði þá að í íslensku fjármála- og efnahagslífi væri allt í eins góðu ástandi og hugsast gæti. Hannes og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sögðu við það tækifæri að Ísland væri sönnun þess að kenningar Laffers virkuðu.

Svo kom hrunið – og afsannaði allt! Eða svo hefði mátt ætla.

En frjálshyggjumenn hafa hvergi gefið eftir og flagga hagspeki Laffers sem aldrei fyrr. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í reynd byggt núverandi kosningastefnu sína á hugmynd Laffers um að hægt sé að lækka skatta mikið og halda sömu skatttekjum ríkissjóðs – ef ekki bara auka þær stórlega.

Þetta er sem sagt hugmynd um að skattalækkanir borgi fyrir sig sjálfar. Hugmyndin á í reynd meira skylt við gullgerðarlist miðalda en reynsluvísindi nútímans. Þess vegna var þessari speki Laffers réttilega valið heitið “vúdú-hagfræði” af fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, George Bush eldri.

 

Vúdú-brella Hannesar Hólmsteins

Áhrifamesta „mynd“ Laffer-áhrifa í íslensku samhengi kom frá Hannesi Hólmsteini og átti að sýna að þegar skattaálögur á fyrirtæki voru lækkaðar á tímabilinu frá 1985 til 2003 þá hefðu skatttekjur af þeim stóraukist, eða nærri tvöfaldast.

Þetta sýndi Hannes á línuritinu hér að neðan, sem margir virðast hafa tekið mark á.

HHG mynd

Það er hins vegar margt rangt og villandi við þetta línurit. Eftirfarandi eru helstu athugasemdir sem gera þarf:

  • Það er hagsveiflan sem skýrir stóran hluta breytinga á skatttekjum af fyrirtækjum, en ekki álagningarhlutfall tekjuskattsins eitt og sér.
  • Fyrirtæki greiða tekjuskatt af hagnaði sínum. Munurinn á skatttekjum af fyrirtækjum fyrir og eftir 1995 liggur m.a. í því, að árin fyrir 1995 (1988-1994) voru kreppuár, með samdrætti og stöðnun hagvaxtar á víxl. Afkoma fyrirtækja var lök og tekjuskattgreiðslur þeirra voru því minni en í góðæri. Frá og með 1995 hófst ágætt hagvaxtarskeið og afkoma fyrirtækja batnaði og þau greiddu þá meira í tekjuskatt, óháð því að álagningarhlutfallið lækkaði.
  • Skattgreiðslur ráðast hins vegar ekki einungis af álagningarhlutfallinu heldur einnig af frádráttarliðum. Í umfjöllunum um Laffer-áhrif er nær aldrei talað um frádrætti, bara álagningarhlutföll. Helmingi sögunnar er sleppt!
  • Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sýnt að samhliða öllum lækkunum á álagningarhlutfalli tekjuskatts fyrirtækja á þessum tíma var skattstofn þeirra breikkaður, með lækkun og niðurfellingum gildra frádráttarliða (sjá hér). Í reynd hækkaði raunskattlagning fyrirtækja frá 1990 til 2000 ef tekið er tillit til minnkandi heimilda til frádráttar, að mati SA. Rýrnun frádráttarliða (stækkun skattstofns) vóg meira en lækkun álagningarinnar.
  • Skattlagning fyrirtækja breytti þannig einkum um form og hækkaði frekar en að lækka í reynd, segja Samtök atvinnulífsins á vef sínum.
  • Einnig benda Samtök atvinnulífsins á að lækkun tekjuskattsálagningar hafi verið að hluta aðlögun að minni verðbólgu eftir 1990 (tekjuskattur var greiddur eftirá af tekjum fyrra árs og með minni verðbólgu gat skatthlutfallið verið lægra en samt skilað sömu rauntekjum).
  • Línuritið sem Hannes birti, og sem talsmenn hans (Birgir Þór Runólfsson og Skafti Harðarson) hafa einnig birt mörgum sinnum, er þar að auki sett fram á mjög villandi hátt og ýkir stórlega tekjumuninn milli tímabilanna fyrir og eftir 1995. Kvarðarnir á báðum ásum byrja langt fyrir ofan núllstöðu og er þeim beinlínis hagrætt til að magna upp sýndaráhrif. Þá eru valin stök ár (með fimm ára millibili og einu þriggja ára bili), sem einnig villir um fyrir fólki (sjá ítarlegri mynd í viðauka hér að neðan).
  • Þar að auki eru tölurnar sem Hannes notar fyrir skatttekjur af fyrirtækjum fyrir árin 2000 og 2003 beinlínis rangar, sem einnig ýkir sambandið.

Þarna eru því margvíslegar brellur í gangi í senn. Auknar skatttekjur hins opinbera eru sagðar vera vegna lækkunar álagningar í tekjuskattinum, þegar þær eru einkum vegna áhrifa af hagsveiflunni og breikkun skattstofnsins. Myndin magnar að auki upp sýndaráhrif af sambandi skattalækkana og aukinna tekna – sem villir um fyrir lesandanum. Loks eru þarna rangar tölur sem magna upp áhrifin enn frekar.

Þetta er sem sagt margþætt vúdú-brella hjá Hannesi Hólmsteini! Sorglegt er að margir hafa fallið fyrir þessu, jafnvel heill stjórnmálaflokkur.

 

Reynslan frá Finnlandi

Sumir hafa undanfarið vísað til orða Esko Aho um lækkanir skatta á fyrirtæki í Finnlandi sem skiluðu auknum skatttekjum þar (sjá hér). Esko sagði að fyrir kreppuna hafi skattar á finnsk fyrirtæki verið háir, en undantekningar og frádráttarmöguleikar margir. Stjórn hans hafi hins vegar lækkað skatta eins mikið og mögulegt var og þurrkað út allar undantekningar og frádrætti.

Finnar breikkuðu sem sagt skattstofninn stórlega samhliða lækkaðri álagningu. Það skilaði auknum tekjum.

Þetta er það sama og úttekt Samtaka atvinnulífsins sýnir fyrir Ísland á tímabilinu 1990 til 2000. Þar segir: “Þá var skattstofninn breikkaður með lækkun og afnámi frádráttarheimilda sem hækkuðu virkan tekjuskatt á móti lækkun hlutfallsins.  Þegar tekið er tillit til þessara atriða kemur í ljós að engin skattalækkun átti sér stað heldur sýna þessar tölur þvert á móti að raunvirði tekjuskatts lögaðila fór heldur hækkandi á síðasta áratug.”

Rýrnun frádráttarliðanna vóg sem sagt meira en lækkun álagningarinnar, segja SA. Samkvæmt þessu var það hagsveiflan sem skýrir mest af breytingum skatttekna hins opinbera af tekjuskatti fyrirtækja.

Raunar var algengast við lækkun skatthlutfallsins í tekjuskatti á Vesturlöndum eftir 1980 að skattstofnar væru samhliða breikkaðir með fækkun frádráttarliða, eins og hér að ofan var lýst. Þegar það er gert er rökrétt að tekjutap vegna skattalækkana komi ekki fram, eins og OECD hefur ítrekað sýnt.

Áhrif Laffers koma því almennt ekki við sögu og sýna sig að vera vúdú-brellur eða sýndaráhrif.

En Hannes Hólmsteinn hefur útfært vúdú-speki Laffers á fleiri sviðum, eins og nú skal sýnt.

 

Annað dæmi: Hækkun leigutekna árið 1998

Hannes nefnir annað dæmi sem hann telur að sýni galdraáhrif skattalækkana á upphæð skatttekna (sjá grein hér).

Hann segir að skatttekjur vegna leigutekna hafi þrefaldast frá 1997 til 1998, á einu ári. Það er að sönnu mikil aukning. Hannes þakkar það því að frá og með árinu 1998 hafi skattlagning tekna af útleigu húsnæðis stórlækkað (þ.e. með upptöku fjármagnstekjuskatts).

Hannes segir að vegna þess að skatturinn af leigutekjum hafi lækkað úr um 40% í um 10% hafi leigusalar farið að gefa þær upp í auknum mæli og að framboð leiguhúsnæðis hafi stóraukist samhliða (hann hefur þó engin gögn um það). Þetta hafi stækkað skattstofninn og skilað ríkinu auknum tekjum.

Þetta segir hann enn eitt dæmið um að “minni sneið af stærri köku skili sömu eða meiri tekjum”!

En þarna horfir Hannes þó framhjá mikilvægustu breytingunni sem varð einmitt 1. janúar 1998. Þá voru innleiddar húsaleigubætur sem bættu mjög hag leigjenda! Til að njóta þeirra þurftu þeir hins vegar að gefa upp leigugreiðslur sínar og þar með stækkaði skattstofn leigutekna stórlega.

Með húsaleigubótunum var þannig kominn sjálfstæður og áhrifaríkur hvati til þess að leigutekjur yrðu taldar fram til skatts, í mun meiri mæli en fyrr, sem skilaði stórauknum skattstofni leigutekna.

Ekki er líklegt að leigusalar sem höfðu lengi komist upp með að stinga leigutekjum undan skatti hafi allt í einu fundið hjá sér hvöt til að fara að greiða 10% skatt af þeim! Þeir þurftu hins vegar að leyfa leigjendum sínum að njóta leigubótanna.

Við slíkar aðstæður gat lægri álagning á leigutekjur skilað svipuðum skatttekjum til hins opinbera – vegna húsaleigubótanna en ekki vegna lækkaðrar álagningar á leigutekjur.

Þarna er annað dæmi um blekkjandi áhrif vúdú-hagfræðinnar hjá Hannesi Hólmsteini.

 

Niðurstaða: Misskilningur eða ísköld blekking?

Þannig má sjá að vúdú-spekin um að skattalækkanir geti skilað sér í allt að tvöföldun skatttekna er annað hvort kaldrifjuð blekking eða í besta falli byggð á misskilningi, sýndaráhrifum sem koma fram vegna annarra orsaka, eins og hagsveiflunnar og/eða breikkun skattstofnsins.

Allt tal íslenskra frjálshyggjumanna um að miklar skattalækkanir geti skilað sér í sömu eða jafnvel auknum tekjum hins opinbera sýnir sig að vera á sandi byggt.

Einhver Laffer-áhrif er að vísu ekki hægt að útiloka, en þeirra er fyrst og fremst að vænta við verulega háa skattlagningu, t.d. þegar álagning er um eða yfir 60-80% (sjá hér). Fráleitt er þó að mikil skattalækkun geti skilað sömu tekjum og fyrr, ef allt annað er óbreytt (t.d. frádráttarheimildir og stærð skattstofnsins).

Þeim sem hafa haft tilhneigingu til að trúa vúdú-blekkingum Hannesar Hólmsteins og félaga skal bent á skrif Bruce Bartlett efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Ronalds Reagans og höfundar hugtaksins “Reaganomics” (sjá t.d. hér og hér).

Bartlett hefur í seinni tíð dregið aðrar ályktanir af spekinni sem hann áður aðhylltist og varar hann nú við ýktri notkun Repúblikanaflokksins á hugmyndum Laffers. Þó hann snúi ekki baki við öllu sem Reagan-stjórnin boðaði þá viðurkennir hann nú að það sé hættuleg firra að skattalækkanir geti borgað fyrir sig sjálfar með aukningu skatttekna, eins og Laffer, Hannes og félagar boða.

Hægri menn á Íslandi hafa margir fallið í dýpstu gryfju þessara Laffer-blekkinga.

Þeir ættu að skoða málið betur. Miklu betur.

 

——————————————————

Viðauki: Ítarlegri greining á sambandi skattalækkana og skatttekna

Hér að neðan má sjá ítarlegri mynd af sambandi álagningar á tekjur fyrirtækja og skatttekjur sem skila sér til ríkisins. Í stað þess að taka sérvalin ár sem gefa ýkta og villandi mynd eru tekin öll árin milli 1990 og 2011 og kvarðarnir á myndinni eru sýndir til fulls, en ekki skornir sérstaklega til að skapa sjónhverfingar. Einnig eru tímabil hagsveiflunnar auðkennd, frá kreppu til hagvaxtar og bóluhagkerfis.

Slide1

Þarna má sjá að veruleg óregla er í sambandi skattahlutfallsins og skattteknanna sem skila sér. Til dæmis voru skatttekjurnar á svipuðu róli á árunum frá 1990 til 1994, þó skatthlutfallið hafi á þeim tíma lækkað úr 50% í 33%. Nokkur hækkun varð á skatttekjum árið 1995 (fór úr 0,8% í 1,1% af VLF), en það var vegna uppsveiflu í hagvextinum, sem reyndar gætti um allan hinn vestræna heim. Einnig voru frádrættir fyrirtækja skertir á þessum tíma.

Skatttekjurnar jukust úr um 0,9% árið 1996 í 1,3% árið 1999 en lækkuðu svo aftur niður í 0,9% til ársins 2002, þó álagning væri þá óbreytt í 30%.

Þar eð skattálagning hvers árs leggst á tekjur ársins á undan mætti ætla að lækkun skatthlutfallsins úr 30% í 18% árið 2003 hefði átt að hafa skilað sé að fullu árið 2004 (með töfum vegna aðlögunar í fyrirtækjunum), en það ár lækkaði skattheimtan þvert á móti úr um 1,1% 2003 í 0,9%, sem var svipað og hafði verið á árinu 2001, þegar skatthlutfallið var 30%.

Svo stórjukust skatttekjurnar eftir 2004 vegna bóluhagkerfisins, á meðan skatthlutfallið var stöðugt í 18%. Svo þegar það lækkaði í 15% lækkaði skattheimtan, öndvert við það sem Laffer spekin spáir. Þar gætti auðvitað áhrifa bólunnar og hrunsins. Svo þegar álagningin á fyrirtæki var hækkuð eftir hrun þá jukust skatttekjurnar af fyrirtækjum samhliða, en minnkuðu ekki eins og Laffer hefði spáð.

Sýndarsambandið sem Hannes Hólmsteinn teiknaði upp hverfur þegar gögnin eru skoðuð til fulls og þegar tillit er tekið til áhrifa af hagsveiflunni og frádráttarliðum skattsins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar