Mánudagur 22.04.2013 - 13:46 - FB ummæli ()

Miðjustjórn Framsóknar?

Ef fram fer sem horfir verður Framsóknarflokkurinn í lykilstöðu við stjórnarmyndun að kosningum loknum. Margir spyrja því hvort Framsókn vilji frekar mynda ríkisstjórn til hægri eða vinstri?

 

Hægri eða vinstri stjórn í kortunum?

Sjálfstæðimenn reyna að fæla fylgi frá Framsókn með því að segja fólki að Framsókn vilji helst mynda vinstri stjórn.

Vinstri menn telja hins vegar einsýnt að hjúskapur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar frá tíma Davíðs og Halldórs verði endurnýjaður, með frjálshyggju Hannesar Hólmsteins og félaga að leiðarljósi.

Niðurstöður kosninganna ráða auðvitað mestu um endanlega möguleika á samstarfi flokka. Ef Framsókn nær því að verða stærsti flokkurinn, eða svipaður að stærð og Sjálfstæðisflokkurinn, opnast möguleikar sem ekki hafa verið uppi í afar langan tíma.

 

Nýir möguleikar opnast

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur lagt áherslu á að Framsókn sé miðjuflokkur. Það er áherslubreyting frá tíma Halldórs Ásgrímssonar, sem límdi sig upp að Sjálfstæðisflokknum á sama tíma og sá flokkur var sem mest á kafi í róttækri frjálshyggjupólitík.

Samfylkingin virtist á síðustu árum vera búin að taka yfir stöðu Framsóknar sem leiðandi flokkur á miðju íslenskra stjórnmála. Nú er það allt breytt – ef fer sem horfir.

Því hefur opnast möguleiki fyrir Framsókn á að endurheimta lykilstöðu sína sem stór miðjuflokkur.

Í hægri stjórn með Sjálfstæðisflokki færi Framsókn að umtalsverðu leyti aftur í far Halldórs Ásgrímssonar, sem færði flokkinn til hægri. Það tímabil leiddi ekki til farsældar fyrir þjóðina.

 

Miðjustjórn – nýr áhugaverður kostur?

Framsókn gæti myndað stjórn með Samfylkingu og VG. Vegna stærðaryfirburða Framsóknar nú væri það ekki vinstri stjórn í þeim anda sem stjórn Jóhönnu og Steingríms var, heldur vinstri-miðjustjórn, eða hófleg félagshyggjustjórn með áherslu á hagsmuni heimilanna.

Hins vegar á Framsókn líka þann möguleika að setja á legg hreinni miðjustjórn, með Samfylkingu einni (ef fylgið skyldi duga til þess) eða með Samfylkingu og Bjartri framtíð.

Það væri nýr kostur í íslenskum stjórnmálum.

Framsókn gæti vegna stærðar sinnar hugsanlega fengið jafn marga ráðherra í slíkri þriggja flokka miðjustjórn og þeir fengju í tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokki. Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar svo illa klofinn að varla er hægt að tal um tveggja flokka stjórn með honum!

Ef farsæl stjórnarmyndur á að takast þurfa auðvitað allir aðilar að slaka á sínum ítrustu kröfum og fara millivegi. Það gæti t.d. átt við um endanlegar útfærslur leiða í skuldamálum heimila, breytingar á verðtryggingu og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB.

Ef Framsókn ætlar að vera alvöru miðjuflokkur, en ekki frjálshyggjuhækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þarf hún að tryggja stöðu sína á miðjunni til frambúðar.

Miðjustjórn Framsóknar gæti því verið athyglisverður möguleiki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar