Miðvikudagur 24.04.2013 - 11:00 - FB ummæli ()

Vill formaður Samfylkingar nýja hrunstjórn?

Ég er undrandi á sumu sem kemur frá formanni Samfylkingarinnar þessa dagana.

Sérstaklega hversu neikvæður hann er gagnvart þeirri leið Framsóknar að setja heimilin í algeran forgang og freista þess að nýta hluta snjóhengjunnar svokölluðu til skuldalækkunar heimila (sjá hér).

Þessi áhersla Framsóknar er í ágætu samræmi við norrænu velferðaráhersluna um að verja heimilin gegn neikvæðum áhrifum hrunsins. Það var ágætlega gert af vinstri stjórninni, en heimilin telja augljóslega að ekki hafi verið gengið nógu langt (sjá hér). Gott fylgi Framsóknar er því til sönnunar.

Því er rökrétt fyrir stjórnarflokkana að ganga lengra fram í þágu heimilanna ef svigrúm til þess skapast. Þannig tala VG-menn og reyndar sumir Samfylkingarmenn, en formaður Samfylkingar virðist hafa meiri áhyggjur af erlendu vogunarsjóðunum. Það er ágætt að vera ábyrgur – en þetta er óviðeigandi afstaða.

Hann hefur einnig sagt að leið Framsóknar feli í sér að færa fé frá fátækum til ríkra heimila. Það er misskilningur. Ekkert væri fært frá fátækum heldur frá erlendum auðmönnum (með samningum) og ég tel fullvíst að Framsókn væri til viðræðu um að setja t.d. þak á skuldalækkun til tekjuhæstu heimila í samningum um stjórnarsamstarf. Á það mætti a.m.k. láta reyna.

Einskis á að láta ófreistað til að ná auknu svigrúmi fyrir almenning. Málsmetandi fjármálamenn hafa staðfest að slíkir möguleikar leynast í snjóhengjunni og þeir snúast ekki um eignaupptöku heldur um eðlilega samninga og beitingu skattheimtu.

Vonandi er formaður Samfylkingar ekki með neinar grillur um að hann sé að fara að leiða flokk sinn í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Það væri endurreist “hrunstjórn”, eins og sú sem rekin var frá völdum af byltingarfólki búsahalda í byrjun árs 2009. Raunar tel ég víst að stór hluti Samfylkingarfólks myndi alls ekki sætta sig við samstarf við Sjálfstæðisflokk við núverandi aðstæður, enda ríkir óheft frjálshyggjan þar enn.

Samstarf Samfylkingar við Framsókn í nýrri miðjustjórn er augljóslega miklu vænlegri leið.

Til að gera slíkt mögulegt þurfa menn að vera lausnamiðaðir og byggja brýr, eins og Össur Skarphéðinsson og fleiri hafa reyndar gert. Það er líka vænlegri leið til að forðast samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Landið þarf að fá starfhæfa stjórn sem setur heimilin í forgang. Stjórnmálamenn þurfa að vera sveigjanlegir í kröfum og samskiptum til að það sé mögulegt.

Ég hef raunar ekki trú á að formaður Samfylkingarinnar sé í neinni alvöru að stefna á stjórn með Sjálfstæðisflokki. En sumt af því sem hann segir gæti bent til þess – og það er óheppilegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar