Fimmtudagur 25.04.2013 - 08:04 - FB ummæli ()

Svona var frjálshyggjan í framkvæmd

Stundum er sagt að meira sé að marka hvað fólk gerir en hvað það segir.

Það virðist eiga við um frjálshyggjumenn í meiri mæli en marga aðra.

Frjálshyggjumenn boða frelsi til handa fjárfestum og atvinnurekendum. Þeir kalla þetta frelsi fjármálamanna “atvinnufrelsi” og segja það gott fyrir farsæld þjóða. Vilja engin ríkisafskipti né velferðarríki.

Aðrir taka eftir því að þar sem hugmyndir frjálshyggjumanna eru framkvæmdar þar græða auðmenn og braskarar mest, en almenningur nýtur lítilla kjarabóta. Reynslan frá Bandaríkjunum á síðustu 30 árum sýnir þetta vel og einnig reynslan hér á Íslandi fram að hruni.

Enn aðrir taka eftir því að margir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum voru virkir þátttakendur í braski og skuldasöfnun hrunáranna. Þeir voru að reyna að maka krókinn í hinum “frjálsu aðstæðum” sem Sjálfstæðisflokkurinn skapaði þeim.

Birgir Þór Runólfsson, náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins og mikill talsmaður frjálshyggju og “atvinnufrelsis”, virðist vera dæmi um þetta.

Birgir Þór bloggar ákaft um nytsemd “atvinnufrelsis” fyrir fjárfesta og atvinnurekendur á Eyjunni. Hann hefur meðal annars endurunnið og birt fjöldan allan af gömlum áróðursgreinum Hannesar Hólmsteins, stundum nær orðrétt og meira að segja með sömu línuritunum og Hannes lét teikna fyrir sig!

BÞR

Boðskapur Birgis Þórs er í þágu óhefts kapítalisma þar sem afskiptaleysisstefna stjórnvalda og niðurrif velferðarríkisins eru leiðarljós. Slíkt fyrirkomulag skapar fjárfestum og bröskurum hámarks frelsi og lægsta skatta.

Það var einmitt frelsi braskara til að leita sér skjótfengins gróða með lánsfé sem stefndi Íslandi í gríðarlega skuldasöfnun og áhættu – sem svo leiddi til hrunsins.

Birgir Þór er ekki bara ákafur talsmaður slíks frelsis, heldur var hann sjálfur stórtækur þátttakandi í spákaupmennsku með lánsfé á árunum fyrir hrun. Það lánsfé fékk hann að mestu frá SpKef, að því er fram hefur komið í fjölmiðlum. Birgir Þór var í stjórn SpKef þegar hrunið varð.

Samkvæmt nýlegri frétt í DV skuldaði hann og félög honum tengd meira en hálfan milljarð, sem notaður var m.a. til kaupa á bréfum í sparisjóðnum sjálfum. Þessi skuld verður afskrifuð vegna ófullnægjandi veða (sjá hér).

Birgir Þór hefur ekki hirt um að véfengja né gera athugasemdir við þessi skrif DV um málið. Svarið sem DV fékk var: „Okkur ber engin skylda til að tala um þetta“.

Eftir því hefur verið tekið að margir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum voru á svipaðan og jafnvel stórtækari hátt þátttakendur í braski með lánsfé, sjálfum sér til hagsbóta. Núverandi framkvæmdastjóri flokksins var einn af þeim og teljast skuldir hans við SpKef meira en þrír milljarðar (þ.e. þrjú þúsund milljónir!), að því er DV upplýsir. Þær skuldir Valhallar-stjórans verða væntanlega afskrifaðar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson og fyrrv. varaformaður voru einnig virkir þátttakendur í braski með fjölskyldum sínum, þar sem gríðarlegt lánsfé kom við sögu. Mörg fleiri dæmi mætti nefna.

Þannig er frjálshyggjan í framkvæmd.

Hugmyndafræðingar frjálshyggjunnar segjast vera að vinna að almannahag – en eru bara sjálfir að maka krókinn.

Svo segja þeir að “ósýnilega höndin” sjái til þess að eigin gróðasókn þeirra verði samfélaginu til hagsbóta. Það jafngildir því að segja, að almenningur hafi haft hag af braski auðmanna, útrásarvíkinga og af hruninu sjálfu!

En frjálshyggjan er bæði fræðilega röng og siðferðilega hættuleg.

Samt er hún enn kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er synd að gott fólk í Sjálfstæðisflokknum hafi ekki getað hreinsað flokkinn af þessari óværu.

Þess vegna snúast kosningarnar meðal annars um það, hvort þjóðin vilji aftur fá frjálshyggjuna í framkvæmd.

 

Síðasti pistill: Vinstri stjórnin gerði meira en Sjálfstæðisflokkur lofar nú

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar