Sunnudagur 28.04.2013 - 11:29 - FB ummæli ()

Úrslitin: Stór sveifla frá vinstri til miðju

Þegar úrslit kosninganna eru skoðuð með því að skipta flokkunum í hægri – miðju – vinstri fylkingar kemur undirliggjandi breyting kosninganna skýrlega fram.

Þetta er stór sveifla frá vinstri til miðjunnar, en ekki til hægri.

Í síðustu kosningum (2009) varð mjög mikil sveifla frá hægri (Sjálfstæðisflokki og Frjálslynda flokknum) til vinstri. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá minnsta fylgið sem hann hefur fengið á lýðveldistímanum (23,7%). Hann bætir einungis litlu við sig nú.

Samanlagt fylgi miðjuflokka er nú nærri tvöfalt að stærð miðað við það sem var 1999 og 2003 (gráu súlurnar á myndinni). Miðjan er nú í sögulegu hámarki.

Myndin sýnir þróun fylgisins milli hægri, miðju og vinstri fylkinga frá og með kosningunum 1999, er meginþættir núverandi flokkaskipanar komu fram.

Sveiflan frá vinstri

Vinstri sveiflan 2009 var sögulega stór og kom sterkust fram hjá VG og Borgarahreyfingunni, auk þess sem Samfylkingin fékk ágæta kosningu þá.

Í kosningunum núna fellur fylgi vinstri vængsins samanlagt úr hátt í 60% niður í um 40%, en skiptist á miklu fleiri flokka en síðast. Samanlagt fylgið á vinstri vængnum er þó enn stórt í sögulegu samhengi.

Hægrið er enn í sögulegu lágmarki (útkoma Sjálfstæðisflokksins nú er sú næst versta frá stofnun lýðveldisins, verri en eftir klofninginn í flokknum árið 1987 er Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn).

Kosningarnar nú eru því augljóslega stór sigur miðjunnar, sem er mikið nýmæli í íslenskri stjórnmálasögu seinni áratuga.

 

—————————————————-

Skipting flokka á hægri – miðju – vinstri ás:

Hægri (Sjálfstæðisflokkur, Hægri grænir, K-listi)

Miðja (Framsókn, Dögun, Flokkur heimilanna, Landsbyggðarflokkur)

Vinstri (VG, Samfylking, Björt framtíð, Píratar, Regnboginn, Alþýðufylkingin, Lýðræðisvaktin)

Við flokkunina er höfð hliðsjón af flæði fylgis milli flokka skv. nýjustu könnunum, þ.e. hvaðan þeir fá mest af fylginu. Helsta álitamálið sem gæti breytt útkomunni á myndinni er hvort telja beri Bjarta framtíð og Pírata til vinstri eða að hluta á miðjuna (sem mætti réttlæta, þó þessir flokkar taki mest frá Samfylkingu og VG). Ef það væri gert yrði útkoma miðjunnar nú enn betri en myndin sýnir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar