Mánudagur 20.05.2013 - 10:41 - FB ummæli ()

USA: Skuldir og skattar í tíð ólíkra forseta

Skuldavandi bandaríska ríkisins þykir vera mikið vandamál nú og horfurnar slæmar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi halla á fjárlögum til a.m.k. 2020. Skuldirnar eru því eitt heitasta átakamálið í stjórnmálunum þar vestra.

Skuldir eru líka mikið vandamál á Íslandi – fyrir ríkið, heimilin og fyrirtækin.

Skoðum nánar skuldaþróunina í Bandaríkjunum og það sem að baki býr. Myndin sýnir skuldir bandaríska ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu (brúna línan) og heildarupphæð skuldanna á núvirði (bláa og gula línan, skipt eftir flokki sitjandi forseta).

Skuldirnar náðu hámarki í seinni heimsstyrjöldinni (sem % landsframleiðslu) en lækkuðu jafnt og þétt fram til um 1980. Þá urðu umskipti, einkum með valdatíma Ronalds Reagans, sem fylgdi frjálshyggjustefnu í ríkari mæli en áður hafði tíðkast.

Hann hóf að lækka skatta, einkum á fyrirtæki, hátekjufólk og stóreignafólk. Það kom niður á tekjum ríkisins og þar eð ekki voru skorin niður útgjöld í sama mæli jukust skuldirnar. Verulega. Bush eldri bætti í skuldastabbann til 1993.

Þá tók Bill Clinton við og hækkaði skatta á hærri tekjuhópa og snéri skuldasöfnuninni við. Skuldir lækkuðu þar til Bush yngri tók við (2001) og hóf að lækka skatta á ný, mest á hátekjufólk.

Viti menn, þá tóku skuldir ríkisins aftur að aukast!

Slide2

Síðan jukust skuldirnar enn frekar og mjög ört í tíð Obama, vegna kreppuáhrifanna, eins og alltaf gerist í fjármálakreppum.

Lexían er þessi: Skattalækkanir til hátekjuhópa og eignafólks auka skuldir ríkisins, ef ekki eru samsvarandi lækkanir á útgjöldum. Vúdú-hagfræðin um að skattalækkanir auki skatttekjurnar sjálfkrafa virkar ekki.

Aftur til Íslands: Spurningin er þá hvort skattalækkunarstefna Sjálfstæðisflokksins verður sett í framkvæmd á næsta kjörtímabili?

Skattalækkanir einar og sér myndu auka skuldir ríkisins enn frekar og hækka vaxtagreiðslurnar (sem eru geigvænlegar fyrir). Ef gripið yrði samhliða til mikils niðurskurðar opinberra útgjalda til að forðast auknar skuldir gæti hægt á hagkerfinu, atvinnuleysi aukist og kjör versnað umtalsvert.

Það yrði ekki til vinsælda fallið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar