Þriðjudagur 28.05.2013 - 09:52 - FB ummæli ()

Framsókn gerist velferðarflokkur

Framsóknarflokkkurinn setti heimilin í forgang í kosningabaráttunni, með höfuðáherslu á lækkun skulda.

Framsókn lofaði líka umtalsverðri kjarabót til lífeyrisþega, með því að afnema skerðingar sem voru innleiddar 1. júlí 2009.

Eygló Harðardóttir, nýskipaður félagsmálaráðherra, er afgerandi á fyrstu dögum sínum í embætti og segir að staðið verði við þessi loforð – jafnvel strax á sumarþinginu.

Nýr félagsmálaráðherra vill sem sagt bæta hag lífeyrisþega og draga úr skerðingum.

Það er í samræmi við stefnu sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, setti í gang undir lok árs 2007 og allt árið 2008. Þá voru stigin mörg skref til að draga úr skerðingum í almannatryggingum vegna annarra tekna, m.a. með aukinni áherslu á frítekjumörk, á atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur. Þá voru einnig aflagðar skerðingar vegna tekna maka.

Síðan var innleidd lágmarksframfærslutrygging í september 2008, rétt fyrir hrunið. Hún hækkaði lágmarkið (gólfið) í almannatryggingakerfinu, þ.e. bætti hag verst settu lífeyrisþeganna. Það viðmið var svo hækkað um 20% 1. janúar 2009, til að lyfta öllum lífeyrisþegum upp fyrir fátæktarmörk í kreppunni. Það var mikilvæg aðgerð. Hins vegar hækkaði almennur lífeyrir ekki til fulls með verðlaginu.

Þann 1. júlí var að hluta snúið af braut minnkandi skerðinga er þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, innleiddi m.a. skerðingar á grunnlífeyri almannatrygginga vegna tekna úr lífeyrissjóðum. Það var hluti af aðhaldsaðgerðum vegna erfiðrar fjárhagsstöðu ríkisins. Það var mjög umdeilanleg aðgerð sem sparaði ríkinu einungis um 3,5 milljarða á ári. Skerðingin bitnaði verst á lífeyrisþegum með milli og hærri tekjur. Lífeyrislágmarkið hélt sér þó að fullu og varði áfram þá sem allra lægstu tekjurnar höfðu.

Þessar skerðingar verða nú teknar til baka, samkvæmt yfirlýsingu Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra. Það er mikilvæg kjarabót fyrir lífeyrisþega.

Framsókn virðist hafa tekið stakkaskiptum frá þeim tíma er Halldór Ásgrímsson var formaður flokksins. Þá var lítil áhersla lögð á velferðarmál og flokkurinn lét Sjálfstæðisflokkinn draga sig langt út í frjálshyggjufenið, illu heilli.

Nú er sem sagt öldin önnur. Framsókn Sigmundar Davíðs virðist ætla að gera velferðarmálum hátt undir höfði.

Það er reyndar sniðug herfræði hjá Framsókn, því þannig getur hún styrkt stöðu sína á miðjunni og jafnvel yfir á vinstri vænginn. Með því gæti Framsókn nálgast það hlutverk sem krataflokkarnir í Skandinavíu hafa lengi haft.

Samfylkingin missti sjónar á velferðarhlutverki sínu í kosningabaráttunni. Þar með opnaðist tækifæri fyrir Framsókn til að svara betur kalli heimilanna.

Ef loforð nýju stjórnarinnar á sviði lífeyrismála verða efnd á sómasamlegan hátt hefur Framsókn fest sig í sessi sem velferðarflokkur. Farsæl lausn á skuldalækkun heimilanna mun auðvitað bæta þungum lóðum á sömu vogaskál.

Ef Framsókn verður flokkur með afgerandi velferðaráherslu gæti Samfylkingin átt erfitt með að endurheimta fyrri stöðu sína sem “turn” á miðjunni. Vinstri flokkar eiga raunar ekki einkarétt á velferðarríkinu. Miðjuflokkar í Evrópu hafa margir gert velferðarmálum hátt undir höfði.

Þetta eru því athyglisverðar breytingar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar