Fimmtudagur 30.05.2013 - 15:01 - FB ummæli ()

The Great Gatsby myndin

Nú þegar nýja útgáfan af Gatsby bíómyndinni, eftir klassískri sögu F. Scott Fitzgerald, er í bíó er við hæfi að skoða aðra hlið á Gatsby-fyrirbærinu.

En áður en ég geri það, ætla ég að mæla með bíómyndinni, sem Baz Luhrmann gerði. Þetta er skemmtileg og litrík innsýn í heim ofurríka fólksins í Bandaríkjunum á Jazz-tímanum, þriðja áratug síðustu aldar, sem endaði með hruni og Kreppunni miklu frá 1929. Minnir svolítið á tíðaranda 2007-samfélagsins á Íslandi!

Alræði auðsins, óhóf og hégómi eru í aðalhlutverki. Keypt hamingja og keyptir stjórnmálamenn eru viðfangsefni. Gamla auðstéttin í höllum sínum og nýríka fólkið með illa fengið fé úr undirheimum og braski takast á.

Boðskapurinn er sá, að þeir nýríku tapa og geta ekki keypt sér ást, jafnvel þó þeir yfirbjóði í hvívetna. Og þeim fátæku er fórnað. Þetta er líka almenn lexía um áhrif auðsins í bandaríska samfélaginu.

 

The Great Gatsby Curve

Í fræðaheiminum hafa menn á síðustu misserum farið að tala um það sem kallað er “Great Gatsby kúrfan”, sem á að sýna neikvæð áhrif mikillar samþjöppunar auðsins í samfélaginu, þ.e. áhrif mikils ójafnaðar.

Megin boðskapur Gatsby-kúrfunnar (sem væri betur nefnd “Gatsby-myndin”) er sá, að í samfélagi þar sem er mikill ójöfnuður tekna og eigna, þar er líka erfiðara að vinna sig frá fátækt til bjargálna. Þar eru minni tækifæri til að komast úr lægri stétt í milli eða hærri stétt, frá einni kynslóð til annarrar.

Ójafnaðarsamfélagið er lokaðra samfélag.

Hér er Gatsby-myndin úr fræðaheiminum:

Slide1

Myndin er byggð á gögnum um tekjudreifingu og ójöfnuð tækifæri frá einni kynslóð til annarrar.

Niðurstaðan er sú, að norrænu þjóðirnar eru með jafnari tekjuskiptingu, opnari samfélög og meiri möguleika fyrir fólk úr lægri stéttum til að vinna sig upp í milli eða hærri stéttir.

Bandaríkin og Bretland, ásamt Ítalíu, eru með ójafnari tekjuskiptingu, lokaðri samfélög og minni möguleika fyrir fólk til að vinna sig upp úr lægri stéttum.

Bandaríkin voru auðvitað áður „land tækifæranna“, en nú gætir þar mun meiri tilhneigingar til lokunar og erfðra forréttinda og ríkidæmis frá einni kynslóð til annarrar. Að sama skapi er erfiðara að brjótast þar úr fátækt til bjargálna en áður var. Þetta hefur breyst til hins verra á síðustu 30 árum.

Norrænu velferðarríkin eru helstu lönd tækifæranna nú á dögum. Norræna blandan af þróttmiklum samkeppnismarkaði og öflugu velferðarríki skilar árangri.

Þegar minna kemur í hlut þeirra ofurríku verður meira til skiptanna fyrir alla hina.

Þá virkar samfélagið líka betur – á flesta vegu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar