Laugardagur 15.06.2013 - 14:03 - FB ummæli ()

Vúdú-hagfræðin eykur vanda ríkissjóðs

Ég gagnrýndi málflutning Sjálfstæðismanna um skattamál fyrir kosningar. Sérstaklega varaði ég við þeim hugmyndum að hægt væri að lækka skatta mikið og vænta um leið aukinna skatttekna í ríkissjóð af lægri sköttum, eins og Sjálfstæðismenn höfðu eftir Hannesi Hólmsteini.

Þessi hugmynd um að skattalækkanir borgi sig sjálfar, með hærri tekjum vegna aukinna umsvifa, er það sem kallað hefur verið “vúdú-hagfræði”.

Gamla hagfræðin var sú, að lægri skattheimta leiddi að mestu leyti til minni skatttekna. Hún er meira í takti við veruleikann.

Að vísu er hægt að finna dæmi um framtaksörvandi skattalækkanir sem gætu skilað hluta af hinum töpuðu skatttekjum til baka (það átti t.d. við um átakið “Allir vinna”, sem fyrri ríkisstjórn greip til). En slíkt skilar einungis minnihluta tekjutapsins til baka – og oft á lengri tíma.

Örvunaráhrif af frægum skattalækkunum Bush-stjórnarinnar í USA voru um 10%, þ.e. um 10% af töpuðum skatttekjum komu til baka í aukinni efnahagsstarfsemi.

Um 90% af töpuðum skatttekjum ríkisins voru einfaldlega tapaðar. Þeim þurfti að fylgja samsvarandi lækkun útgjalda eða aukning á skuldum bandaríska ríkisins. Skuldirnar hækkuðu og þykja nú orðnar hættulega miklar.

Nú eru horfur í fjármálum íslenska ríkisins sagðar enn verri en áður hafði komið fram. Hallinn verður meiri en spáð var og jöfnuður á árinu 2014 virðist fjarlægur draumur. Þetta kann að þýða auknar skuldir ríkisins og þar með aukin vaxtagjöld, sem eru ærin fyrir – nema til komi mikill niðurskurður velferðarútgjalda.

Í þessum aðstæðum boða fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra skattalækkanir (lækkað veiðigjald, afnám auðlegðarskatts og fleira) sem munu þýða enn minni tekjur í ríkissjóð en áður var áætlað. Samhliða eru boðuð aukin útgjöld til góðra mála, þar á meðal velferðarmála.

AGS vara við rýrnun tekna ríkissjóðs við þessar aðstæður og segja veiðigjaldið vel heppnaðan skatt (sjá hér). Sama segir Jón Steinsson hagfræðingur  við Columbia háskóla í USA (hér).

Ég held það sé mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að geta staðið við gefin loforð um velferðarumbætur. Tilkynnt skattalækkunaráform draga úr möguleikum á efndum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun nú væntanlega læra þá þungbæru lexíu að ríkisfjármálum verður ekki farsællega stjórnað með vúdú-brögðum frá kuklurum frjálshyggjunnar.

Ef skatttekjur minnka þarf fjármálaráðherra (og ríkisstjórnin) að auka skuldir ríkisins eða skera niður vinsæl útgjöld, ef fram heldur sem horfir.

Ef fjármálaráðherrann ætlar að byggja tekjuöflun ríkissjóðs á brellum vúdú-hagfræðinnar þá mun vandinn einungis aukast – skuldir vaxa og þörf fyrir niðurskurð magnast.

Þegar töfrabrögðum sleppir verður valið í heimi veruleikans nefnilega erfitt – og gengið meðal kjósenda fallvalt!

 

Síðasti pistill:

Mesta fífl í sögu íslenskra efnahagsmála?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar