Mánudagur 17.06.2013 - 11:59 - FB ummæli ()

Er arðvænlegt að fjárfesta í Sjálfstæðisflokki?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið helsti málsvari þess að afnema nýja veiðigjaldið. Það var boðað í Mogganum fyrir kosningar og einnig tilkynnt á meðan stjórnarmyndun stóð yfir að gjaldið yrði aflagt, strax á sumarþinginu sem nú situr.

Ákafinn var mikill. Mogginn er auðvitað málsgagn LÍÚ og hefur hamrað á málinu lengi.

Framsókn hefur verið höll undir sjávarútveginn í gegnum tíðina, en hún hefur þó trúlega lagst gegn afnámi veiðigjaldsins í samningum um stjórnarmyndun og fallist í staðinn á breytingu þess og lækkaðar álögur.

Það er málamiðlunin sem nú verður væntanlega framkvæmd.

 

Er hægt að kaupa áhrif í stjórnmálum?

Alþekkt er að auðmenn í Bandaríkjunum ráða mestu í stjórnmálum þar í landi fyrir tilstilli ríflegra fjárframlaga til beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Stór framlög fjármálafyrirtækja á Wall Street eru t.d. talin ráða miklu um það, að fáir ef nokkrir stjórnmálamenn fara af krafti gegn hagsmunum fjármálaelítunnar bandarísku.

Sama má segja um áhrif Koch bræðra, sem nota gríðarlegt fjármagn til að greiða fyrir róttæk frjálshyggjuáhrif í bandarískum stjórnmálum, svo sem afreglun, niðurskurð velferðarútgjalda og skattfríðindi fyrir auðmenn (sjá hér, t.d. frá mín. 23-50)

Getur slíkt átt við á Íslandi?

Fyrst mætti t.d. rifja upp 55 milljón króna framlög til Sjálfstæðisflokksins í desember 2006, frá FL-Group og Landsbankanum, sem margir tengdu hagsmunamálum (t.d. REI-málinu).

Nú eru komnar fram upplýsingar um fjárframlög sjávarútvegsfyrirtækja til stjórnmálaflokkanna (sjá hér). Ungur stjórnmálafræðinemi, Hörður Unnsteinsson, tók saman tölurnar í BA ritgerð sinni.

Niðurstöðurnar eru að á fjórum árum, frá 2008 til 2011, fékk Sjálfstæðisflokkurinn um 23 milljónir frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Stjórnarflokkarnir tveir fengu samanlagt rúmlega 90% allra framlaga (um 35 m.kr.) frá sjávarútvegsfyrirtækjum, um tveir þriðju fóru til Sfl.

Ef litið er á framlög sömu fyrirtækja til einstakra frambjóðenda í kosningunum í apríl sl. kemur í ljós að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fengu um 6,3 milljónir en frambjóðendur allra annarra flokka fengu samanlagt um 12.000 krónur!

Sjálfstæðismenn fengu þannig 99,8% framlaga sjávarútvegsfyrirtækja til einstakra frambjóðenda í síðustu kosningum til Alþingis. Framlög til frambjóðenda annarra flokka voru til málamynda – og varla það!

Sjávarútvegurinn einbeitti sér semsagt að því að fjármagna Sjálfstæðismenn.

 

Ályktanir

Tvennt er athyglisvert við þetta.

Í fyrsta lagi er þetta lítill kostnaður fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Ef þau eru að kaupa sér áhrif með því að fjárfesta í stjórnmálaflokkum þá er það mjög ódýrt.

Í öðru lagi þá skilar fjárfesting útvegsmanna í stjórnmálaflokkum, sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum, gríðarlegum ábata – þegar flokkurinn kemst til valda.

Fyrir 35 milljóna styrki til stjórnmálaflokka fá útvegsmenn í ár og á næsta ári um 9.600 milljóna króna lækkun á veiðigjaldinu á tveimur árum.  Það er gríðarleg ávöxtun – á alla mælikvarða! Um 35 milljónir skila um 9.600 milljónum til baka!

Fullvíst má telja að fáir ef nokkrir fjárfestingarkostir í atvinnu- eða fjármálalífinu séu arðvænlegri en þetta!

Engan skyldi því undra að það sé freistandi að hafa áhrif á Sjálfstæðisflokkinn, eða aðra flokka, með smá fjárframlögum, til frambjóðenda og flokksins sjálfs.

Reynslan af veiðigjaldinu sýnir svart á hvítu hversu gríðarlega arðvænlegt það gæti verið.

 

Skipta peningar máli í pólitíkinni?

Er ég kanski að gera of mikið úr gildi þessara fjárframlaga til Sjálfstæðisflokksins? Er málið einfaldlega það að Sjálfstæðismenn hugsa eins og útvegsmenn og að þeir hefðu lagt af eða stórlækkað veiðigjaldið án ríflegra fjárframlaga frá LÍÚ-mönnum?

Það er hugsanlegt.

Hugmyndafræði Sjálfstæðismanna, ekki síst nýfrjálshyggjan, er mjög höll undir atvinnurekendur og fjárfesta og fjandsamleg ríkishlutverki og sköttum. Það var því ekki nauðsynlegt fyrir útvegsmenn að „kaupa“ Sjálfstæðismenn til fylgilags við hugmyndir sínar og hagsmuni.

En eftir sem áður gætu peningar útvegsmanna hafa keypt þeim áhrif í stjórnmálunum. Fjárframlögin til Sjálfstæðisflokksins gerðu flokknum og einstökum frambjóðendum hans kleift að reka öflugri kosningabaráttu. Auglýsa meira og dreifa dýrari og áhrifameiri bæklingum og halda úti stærri hópum einstaklinga sem hringdu í kjósendur til að hafa áhrif á þá.

Þannig gætu fjárframlög hafa greitt fyrir betri útkomu Sjálfstæðisflokksins en ella hefði orðið – og þar með aukið líkur á að flokkurinn kæmist í áhrifastöðu til að framkvæma það sem þjónaði hagsmunum útvegsmanna.

Þeir flokkar sem fá mesta fjármagnið eiga alla jafna betri möguleika á að afla sér meira fylgis– þó fleira komi við sögu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf fengið mest fjármagn frá atvinnulífinu og fjármálamönnum.

Best fjármögnuðu flokkarnir hafa forskot á aðra flokka. Þannig hafa peningarnir óhjákvæmilega áhrif í stjórnmálum.

Stjórnmál snúast ekki bara um lýðræði.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar