Miðvikudagur 19.06.2013 - 13:43 - FB ummæli ()

Stéttaskipting á Ísland

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði á athyglisverðan hátt um stéttaskiptinguna á Íslandi, í ávarpi sínu á þjóðhátíðardaginn. Hann sagði meðal annars:

“Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land.“

Sannleiksgildi þessa er þó svolítið háð því hvað átt er við með “stéttaskiptingu”.

Í þjóðfélagsfræði er greint á milli andlegrar og efnahagsslegrar stéttaskiptingar.

 

Andleg stéttaskipting

Með andlegri stéttaskiptingu er átt við skiptingu þjóða í virðingarhópa (eftir “status”), þ.e. í æðri og óæðri stéttir. Það er eins konar virðingarröðun þjóðfélagshópa, sem skiptir miklu máli í sumum samfélögum – en síður á Íslandi.

Þegar sagt er að Íslendingar “séu allir jafnir”, eins og víkingarnir sögðu forðum, eða að þeir sýni hærra settum ekki mikla lotningu, er vísað til þess að andleg stéttaskipting sé lítil á Íslandi.

Íslendingar fara ekki mikið í manngreinarálit í samskiptum og snobb er almennt illa þokkað hér á landi. Að þessu leyti eru ummæli forsætisráðherra alveg rétt.

Þjóðir sem búa við afar mikla andlega stéttaskiptingu eru t.d. Indverjar (kasta-kerfið, sem er eitt ógeðfeldasta stéttakerfi sem þekkist). Þeir sem eru lægst settir á Indlandi eru álitnir svo lítilfjörlegir að þeir eru kallaðir “hinir ósnertanlegu”, eru taldir vera óhreinir og fá einungis að stunda hin verstu störf.

Andleg stéttaskipting er sem sagt frekar lítil á Íslandi, en það er hún einnig á hinum Norðurlöndunum. Hún er hins vegar meiri hjá Englendingum, Frökkum og Þjóðverjum og í Bandaríkjunum er gríðarleg andleg stéttaskipting milli hvítra og svartra, þar sem þeir svörtu eru álitnir óæðri og njóta takmarkaðri tækifæra.

Hugmyndafræði jafnaðar og mannréttinda vinnur gegn andlegri stéttaskiptingu og við höfum náð ágætum árangri á þeim sviðum á Íslandi.

 

Efnahagsleg stéttaskipting

Ef við hins vegar lítum á efnahagslega stéttaskiptingu þá er átt við mun tekna, eigna og annarra veraldlegra gæða milli þjóðfélagshópa.

Þá erum við farin að tala um tekjuskiptingu og hag starfsstétta, svo dæmi sé tekið.

Fyrir um 30 árum síðan skrifaði ég mikla rannsóknarritgerð um lagskiptinguna á Íslandi. Niðurstaða mín var sú, að á Íslandi væri lítil andleg stéttaskipting en efnahagsleg stéttaskipting væri svipuð og á hinum Norðurlöndunum.

Vegna norræna velferðarríkisins var munur kjara og tækifæra minni á Norðurlöndunum öllum en í flestum öðrum vestrænum löndum. Í samfélögum fyrri tíma var almennt meiri stéttskipting, bæði andleg og efnahagsleg. Það gilti líka um Ísland. Til dæmis var talsverður munum á kjörum ríkra bænda og kjörum hjúa, leiguliða og flækinga á Íslandi miðaldanna.

Á fyrri hluta 20. aldar var mikill munur á kjörum verkafólks og yfirstéttar atvinnurekenda og embættismanna. Eftir hrun varð aukinn munur á kjörum útvegsmanna og almennra launamanna, vegna mjög mikillar gengisfellingar krónunnar.

Stéttaskiptingin getur þannig verið breytileg yfir tíma. Til dæmis jókst ójöfnuður tekna og eigna á Íslandi mjög hratt á árunum eftir aldamótin 2000 og fram að hruni. Þá var efnahagslega stéttaskiptingin að stóraukst frá því sem áður hafði verið hér á landi.

 

Aukinn ójöfnuður eftir 1995

Tekjuskiptingin á Íslandi varð ójafnari frá um 1995 og það sama gerðist raunar á hinum Norðurlöndunum. Hraðinn á ójafnaðarþróuninni varð þó fljótlega meiri á Íslandi og frá 2002 var Ísland komið vel framúr hinum norrænu löndunum í aukningu ójafnaðar. Frá 2002 til 2007 jókst ójöfnuðurinn svo með fordæmalausum hætti hér og var fyrir hrun orðinn talsvert meiri en á hinum Norðurlöndunum (sjá hér).

Það með varð Ísland stéttaskiptara land en áður hafði verið, í efnahagslegu tilliti. Til varð yfirstétt sem var orðin miklu ríkari en áður hafði tíðkast hér á landi. Bil milli ríkra og fátækra hafði aldrei verið meira en þá.

Eftir hrun gekk þessi ójafnaðarþróun að verulegu leyti til baka, bæði vegna minni tekjuuppgripa fjármálamanna og vegna aukinnar jöfnunar fyrir tilstilli skatta- og bótastefnu stjórnvalda.

Nú er spurningin hvað gerist þegar fjármálamarkaðurinn fer að virka á ný. Munu fjármálamenn og atvinnurekendur, hátekjuhóparnir í samfélaginu, skríða aftur framúr öllum öðrum í tekju- og eignaþróun eins og var á árunum fram að hruni?

Ef það gerist mun stéttaskiptingin á Íslandi aukast á ný.

 

Síðasti pistill spurði um áhrif peninga í stjórnmálum – það tengist líka stéttaskiptingu:

Er arðvænlegt að fjárfesta í Sjálfstæðisflokki?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar