Fimmtudagur 20.06.2013 - 12:34 - FB ummæli ()

Gjaldtökuvæðing ferðaþjónustu – álitamál

Stjórnarflokkarnir hafa lagst gegn því að hækka virðisaukaskatt á gistinætur úr 7% í 14%. Sú hækkun var sögð geta skilað allt að 1,5 milljarði við fulla framkvæmd.

Nú er í staðinn verið að ræða gjaldtöku á vinsælum ferðmannastöðum sem sagt er að gæti skilað 3 til 5 milljörðum.

Það er sem sagt verið að tala um að heimta tvisvar til þrisvar sinnum meira fé út úr ferðaþjónustunni en gera átti með gistináttaskattinum!

Þeir sem voru á móti hækkun gistináttaskattsins sögðust gera það af tillitssemi við ferðaþjónustuna og samkeppnishæfni hennar. En kemur það ekki við samkeppnishæfnina að rukka sama eða miklu meira fé með beinni gjaldtöku?

Er nú allt í lagi að taka miklu meira fé út úr ferðaþjónustunni bara ef það heitir “gjald” en ekki “skattur”?

Það eru jú ferðamenn sem greiða, hvort sem það heitir virðisaukaskattur eða gjald.

En það eru fleiri hliðar á málinu. Víðtæk og umfangsmikil gjaldtaka breytir virkni og ímynd íslenskrar ferðaþjónustu.

Það verður öðruvísi land að koma til þar sem ferðamenn eru rukkaðir á hverjum markverðum stoppustað í íslenskri náttúru. Svo munu landeigendur ganga á lagið og fara að rukka fyrir minnstu umferð á landi sínu, án þess að nokkuð sé tryggt að þeir leggi féð í umhverfisvernd eða þjónustu á svæðinu.

Setjið ykkur í spor erlendra ferðamanna á Íslandi. Haldið þið að það muni ekki breyta upplifun þeirra af landinu ef gjaldheimtuásóknin verður alltumlykjandi? Ef alls staðar sé verið að plokka af manni fé.

Gjaldtaka á ferðamannastöðum leggst líka á Íslendinga, en gistináttaskatturinn leggst einkum á erlenda ferðamenn.

 

Gullni (peninga)hringurinn

Gullni hringurinn væri þá kanski svona: Þingvellir: 5 þúsund krónur; Geysir: 3 þúsund krónur; Gullfoss: 3 þúsund krónur. Alls 11 þúsund krónur (á mann?) – til viðbótar við gjald fyrir skoðunarferðina. Síðan myndu bætast við fleiri gjöld á öðrum stöðum, t.d. í Kerinu, þar sem landeigendur vilja gjarnan komast í buddu ferðamanna, eins og fram hefur komið.

Þeir sem vilja njóta Íslands í botn munu þurfa að greiða afar mikið í slíkri gjaldtöku – jafnvel þó gjöldin væru umtalsvert lægri en í dæminu hér að ofan (tölurnar um heildartekjur koma frá Greiningardeild Arion banka, en útfærslan er mín)!

Fyrir Íslendinga sem t.d. vilja fara með erlenda gesti sína (kanski fjögurra manna fjölskyldu) í svona skoðunarferð væri gjaldtakan verulegur “skattur” – umfram bensínkostnaðinn. Alger lúxusferð! Margir hefður alls ekki efni á slíku.

Með víðtæku gjaldtökufyrirkomulagi væri íslensk náttúra peningavædd í mun meiri mæli en nú er. Er það góð ímynd og vænleg fyrir aðdráttarafl Íslands?

Er ekki vænlegra að hækka frekar gistináttaskattinn svo hann verði svipaður og í grannríkjum okkar? Hann er jú minna sýnilegur og alls ekki sérstaklega íþyngjandi fyrir gistiþjónustuna, sem greiðir lítinn virðisaukaskatt í dag.

Er hatur hægri manna á „sköttum“ og ást þeirra á „gjöldum“ kanski á villigötum?

 

Síðasti pistill: Stéttaskipting á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar