Laugardagur 22.06.2013 - 15:22 - FB ummæli ()

Davíð talar um RÚV

Davíð Oddsson er ritstjóri Morgunblaðsins sem flestum er ljóst að gengur erinda eigenda sinna í þjóðmálaumræðunni, berst m.a. kröftuglega fyrir hag útvegsmanna.

Mogginn er líka blað sem berst fyrir hagsmunum Sjálfstæðisflokksins, með kjafti og klóm. Mogginn er ekki hlutlaus fjölmiðill.

Samt telur Davíð sig þess umkominn að leggja hrokafullt mat á vinnubrögð annarra fjölmiðla og saka þá um skort á hlutleysi! Þetta á ekki síst við um RÚV, sem Davíð hefur lengi lagt í einelti.

Í leiðara Moggans í dag segir hann eftirfarandi:

“En nú er fréttastofa »RÚV« orðin þekkt fyrir að vera opinber taglhnýtingur eins stjórnmálaflokks, Samfylkingarinnar. Þetta væri nógu slæmt ef um væri að ræða flokk sem landsmenn almennt flykktu sér um, en þarna er að auki um einsmálsflokk um ESB að ræða, sem fréttastofan hefur að vísu einnig sér í hjartastað.”

Er þetta trúverðug lýsing á RÚV? Það held ég ekki.

Fjarri lagi er að hægt sé að finna þessum ummælum stað í greiningu á fréttum og fréttatengdu efni RÚV.

Að halda því fram að RÚV sé þjónn einhvers eins stjórnmálaflokks eða einhver sérstakur boðberi ESB-aðildar Íslands er fráleitur áburður.

Flestir fréttamenn RÚV og annarra fjölmiðla reyna að gera þjóðmálunum skil á heiðarlegan hátt, eins og tíðkast á málsmetandi fjölmiðlum erlendis, þó minni mannafli og þrengri fjárhagur seti metnaði fjölmiðlamanna oft skorður hér á landi.

Raunar hefur það lengi verið svo á Íslandi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft langmesta fjölmiðlaaðgengið til að nota í flokkspólitískum tilgangi – og er þá vísað í ritstjórnargreinar frekar en fréttaflutning.

Hvaða annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú til ráðstöfunar fjölmiðil eins og Moggann sem beitt er af fullum krafti í þágu flokkshagsmuna og gegn öðrum flokkum? Enginn – eftir að hinir flokkarnir hættu útgáfu litlu flokksblaðanna!

Það er leiðinlegt að sjá hversu lágt forsætisráðherrann fyrrverandi og ritstjórinn núverandi leggst í málflutningi. Hann virðist sleginn miklum einstrengingi, heift og hlutdrægni.

Davíð telur allt tal um málefni sem honum eru ekki að skapi vera áróður og virðist vilja banna það.

Slík sjónarmið samrýmast ekki lýðræðislegu umhverfi.

 

Síðasti pistill: Hagnaður sjávarútvegs er á kostnað heimilanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar