Miðvikudagur 26.06.2013 - 13:16 - FB ummæli ()

Tímamót hjá lífeyrisþegum

Eygló Harðardóttir, ráðherra félags- og húsnæðismála, stendur við loforðin sem hún gaf lífeyrisþegum og hefur nú lagt fram frumvarp um afnám skerðinga lífeyris sem innleiddar voru 1. júlí 2009. Þetta er mikilvægur áfangi sem fylgt verður eftir með frekari umbótum í haust.

Mikilvægasta skrefið nú er að tekjur frá lífeyrissjóðum skerða ekki lengur grunnlífeyri almannatrygginga. Grunnlífeyririnn er nú um 34 þúsund krónur á mánuði.

Einnig mega ellilífeyrisþegar nú hafa um 110 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði án þess að það skerði lífeyri frá almannatryggingum, í stað 40 þúsund króna áður. Þarna er réttur eldri borgara jafnaður rétti öryrkja.

Þetta eru mikilvægar breytingar fyrir kjörin en einnig fyrir virkni lífeyriskerfisins. Um 7000 lífeyrisþegar fá strax einhverjar kjarabætur, þar á meðal 2500 sem höfðu ekki lengur neinar greiðslur frá almannatryggingum.

Að því er fundið, t.d. af talsmönnum öryrkja, að þeir sem engar tekjur hafa aðrar en frá almannatryggingum fá nú litla eða enga hækkun. Að því er hins vegar að gæta, að sami hópur var sérstaklega vel varinn af aðgerðum fyrri ríkisstjórnar, með mikilli hækkun lágmarkslífeyristryggingarinnar.

Þeir sem þá sátu eftir, einkum eldri borgarar (sjá hér), fá nú meiri leiðréttingu og þannig er tekið skref frá skerðingaraðgerðum krepputímans.

En þetta er ekki endanlegt því fleiri skref verða stigin síðar á árinu. Þá er stefnt að lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar almannatrygginga úr 45% niður í 38,35%, sem mun gagnast öllum lífeyrisþegum (bæði öryrkjum og eldri borgurum).

Þegar allar þessar aðgerðir verða komnar til framkvæmda munu þær kosta um 4,6 milljarða króna á ári, þ.e. frá og með næsta ári.

Umbætur á almannatryggingum sem gerðar voru á árinu 2008 miðuðu að því að auka hvata til atvinnuþátttöku og sparnaðar. Skerðingarnar sem voru innleiddar 1. júlí 2009 hurfu frá þeirri stefnu. Breytingarnar nú og síðar á árinu ná því að umtalsverðu leyti til baka.

Eftir stendur þó að skerðingar vegna fjármagnstekna (af sparnaði) eru enn meiri en var fyrir kreppuna. Það er mikilvægt framtíðarmarkmið að auka svigrúm lífeyrisþegar á því sviði.

Með þessum breytingum félags- og húsnæðismálaráðherra fækkar neikvæðum afleiðingum hrunsins og það er auðvitað fagnaðarefni.

Auk þessara kjarabreytinga eru innleiddar umbætur er varða upplýsingagjöf og viðurlög gegn brotum, sem Tryggingastofnun hefur lengi óskað eftir. Það er einnig mikilvægt framfaramál, sem ætti að stuðla að nákvæmari útreikningi bótaréttinda og hindra of- eða vangreiðslur, sem og að draga úr bótasvikum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar