Laugardagur 29.06.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Veiðigjaldsmál Sjálfstæðisflokks

Í aðdraganda kosninganna var ljóst að það voru Sjálfstæðismenn sem einkum lögðu áherslu á að lækka veiðigjaldið. Framsókn og aðrir töluðu mest um að breyta gjaldinu og fínstilla virkni þess.

Nú var að koma könnun sem sýnir mikla andstöðu við lækkunina hjá stuðningsmönnum allra flokka – nema Sjálfstæðisflokks. Um 70% almennta kjósenda vilja ekki lækka gjaldið.

Um 60% stuðningamanna Sfl. eru hins vegar hlynnt lækkun gjaldsins en 60% stuðningsmanna Ffl. eru andvíg því. Lækkun gjaldtökunnar fyrir afnotin af auðlind þjóðarinnar er því einkum baráttumál Sjálfstæðismanna. Um framkvæmd þess var þó greinilega samið í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Nú ber svo við að Framsókn fer með sjávarútvegsmálin, sem eru í forsjá Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er því Framsókn sem fær það súra hlutverk að framkvæma lækkunina – gegn vilja þjóðarinnar og gegn meirihluta eigin stuðningsmanna. Og ég vil líka segja gegn almennri skynsemi!

Þetta er auðvitað óskastaða fyrir Sjálfstæðismenn. Þeir geta þjónað auðmönnum í sjávarútvegi, sem er þeirra ær og kýr, en Framsókn tekur á sig óvinsældirnar.

Nú veit ég ekki hver persónuleg afstaða sjávarútvegsráðherra er. Hann þarf í öllu falli að framkvæma það sem um var samið í stjórnarmyndunarviðræðum. Það er hins vegar afar slæmt fyrir Framsókn að Sigurður Ingi birtist almenningi eins og harðasti Sjálfstæðismaðurinn í ríkisstjórninni, bæði í veiðigjaldsmálinu og umhverfisverndarmálum.

Það er mikilvægt fyrir Framsókn að halda sérstöðu sinni sem miðjusinnaður velferðarflokkur sem setur heimilin í forgang. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar einkum flokkur ríka fólksins (sjá hér).

Það var ekki farsælt þegar Framsókn kokgleypti hráa frjálshyggju Sjálfstæðismanna á stjórnarárum Halldórs og Davíðs. Enginn sýnilegur munur var á stefnu og áherslum flokkanna þá. Biskup frjálshyggjunnar á Íslandi, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, lagði enda til að flokkarnir yrðu sameinaðir!

Í samsteypustjórnum mega flokkar alveg halda sérstöðu sinni og togast á við samstarfsflokkinn. Kjósendur vita að semja þarf um einstök mál. Mikilvægast er að þeir sem eiga góðu málin fái að njóta þeirra  og hinir sem eiga vondu málin ættu að greiða sjálfir kostnaðinn af framkvæmd þeirra.

Kanski Framsókn eigi að huga meira að þessu, því undirróðursmenn Sjálfstæðisflokksins eru víða að verki. Það sannaðist m.a. í vikunni af ómálefnalegri árás Samtaka atvinnulífsins (SA) á hugmyndir Framsóknar um skuldalækkun til heimilanna.

Sjálfstæðismenn vinna oft meira að tjaldabaki en á yfirborðinu – eins og algengt er um reynda valdaflokka yfirstéttarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar