Miðvikudagur 24.07.2013 - 15:31 - FB ummæli ()

Hrunið – Styrmir fylgist ekki með!

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í bloggi í gær að hægri menn séu að taka forystuna í umræðu um orsakir hrunsins.

Það er verulega ofsagt – og satt best að segja nokkuð spaugileg yfirlýsing.

Styrmir nefnir tvennt þessu til sönnunar. Leiðara Davíðs Oddssonar um málið í Mogganum í gær og sundurlausan fyrirlestur sem Hannes Hólmsteinn hélt fyrr á þessu ári, í tilefni af sextugsafmæli sínu.

Hvoru tveggja er léttvægt og því marki brennt að fría frjálshyggjustefnuna og stjórnartíma Davíðs, bæði í ríkisstjórnum og Seðlabanka, af ábyrgð á því sem gerðist hér á landi frá aldamótum til hruns.

Ekki einasta eru þetta léttvæg framlög heldur horfir Styrmir framhjá, eða veit ekki af, umtalsverðum fræðilegum framlögum til greiningar á orsökum kreppunnar.

Preludes to Iceland crisisTil dæmis mætti nefna bók sem Robert Z. Aliber og Gylfi Zoega gáfu út árið 2011, Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Þar eru birt helstu gögn um þróunina í aðdraganda hrunsins og nýjar greinar, ma. eftir Robert Aliber og Anne Sibert o.fl., þar sem orsakir eru greindar. Aliber er heimsþekktur sérfræðingur á þessu sviði.

Þá hafa verið skrifaðar nokkrar bækur eftir aðila tengda hruninu, bæði þátttakendur í hrunadansinum, blaðamenn og fræðimenn.

Meðal annars hafa erlendir frjálshyggjumenn skrifað bók um orsakir hrunsins (sjá hér). Sú bók er gefin út af frjálshyggjustofnuninni Ludwig von Mises Institute árið 2011.

Þessir erlendu frjálshyggjumenn komast að allt annarri niðurstöðu en Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn. Þeir segja mistök Seðlabanka Íslands vera helstu orsök hrunsins – en Davíð og Hannes kenna einkum Baugsfjölskyldunni um ófarirnar!

Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur nýlega skrifað athyglisverðan greinaflokk á Eyjunni um ábyrgð Seðlabankans á hruninu.

Margar fleiri bækur mætti nefna, sem og greinar í tímaritum eða erlendum bókum. Sjálfur hef ég skrifað tvo fræðilega bókarkafla um efnið á erlendum vettvangi, sem og kafla í nýrri erlendri bók um samband milli bóluhagkerfisins og þróunar tekjuskiptingarinnar frá 1992 til 2010.

Orsakir hrunsins verða endanlega krufnar til fulls á fræðilegum vettvangi en ekki í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins, né í fyrirlestrum helsta hugmyndafræðings hinnar ógæfulegu íslensku frjálshyggjutilraunar. Slíkir aðilar hafa of mikinn hag af því að afvegaleiða umræðuna og geta því ekki fjallað hlutlægt um efnið. Þeir geta einungis birt eigin málsvörn – sem aðrir verða að leggja mat á.

Þá má einnig benda á að sérfræðingar á sviði fjármálakreppa, t.d. Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff, auk Robert Alibers, Anne Siberts, Mark Blythes, Paul Krugmans og fleiri, hafa sett þróunina hér í samhengi við reynslu annarra þjóða af fjármálakreppum.

Slíkir fagaðilar draga gjarnan fram sameiginleg einkenni í aðdraganda fjármálakreppa og benda jafnframt á sérstöðuna sem varð hér á Íslandi. Hún fólst ekki síst í því að hér var gengið lengra en annars staðar í braski og skuldasöfnun, samhliða afskiptaleysisstefnu hjá eftirlitsaðilum og stjórnvöldum, sem skapaði geigvænlega áhættu.

Engin einn þáttur skýrir allt sem hér gerðist í aðdraganda hrunsins, heldur þarf að skoða samspil margra þátta í framvindunni.

Styrmir ber hins vegar augljóslega þá ósk í brjósti að hægri menn nái vopnum sínum og geti búið til „seljanlega söguskoðun“ um þróunina að hruni, sem fríar þá af þeirri ábyrgð sem þeir þó augljóslega bera. Þá afstöðu mátti glögglega sjá í bókinni sem Styrmir sjálfur skrifaði um efnið og kallaði „Umsátrið“, en þar var útlendingum einkum eignuð ábyrgð á hruninu og kreppunni.

Það er skiljanleg afstaða hjá hægri mönnum – en hvorki fræðilega boðleg né stórmannleg.

Hins vegar má vel taka undir með Styrmi þegar hann leggur til að Háskóli Ísland beiti sér fyrir ráðstefnuhaldi um orsakir hrunsins, þar sem helstu skýringar og álitamál verði leidd fram.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar