Fimmtudagur 25.07.2013 - 17:00 - FB ummæli ()

Á ríkið að reka banka?

Síbylja viðskiptafræðinga og hægri stjórnmálamanna er alltaf sú, að ríkið eigi ekki að gera hitt eða þetta – heldur einkaaðilar. Það sé alltaf betra.

Í dag tjáðu greiningarmenn Landsbankans sig um að rétt væri að einkavæða eignir ríkisins í bönkunum, einkum í Landsbankanum. “Það er ekki hlutverk ríkisins að reka banka”, segja hinir miklu spekingar!

En hver er dómur reynslunnar?

Ríkið átti og rak Landsbankann frá 1886 til 2003, eða í 117 ár, án meiriháttar áfalla – og oft með ágætum hagnaði.

Eftir einkavæðingu til hinna bestu manna sem þá þótti völ á, tók það aðeins um 5 ár fyrir einkaaðilana að reka bankakerfið í heild í þrot! Og ekkert smá þrot, því gjaldþrot íslensku bankanna voru með þeim stærstu í heimssögunni.

Við vissum eftir hrun hversu misheppnuð þessi einkavæðing var. Í dag var svo sagt frá nýrri rannsókn á rekstri bankanna sem sýnir að rekstur venjulegrar bankaþjónustu þeirra stórversnaði eftir einkavæðinguna!

Ríkið gat rekið banka í 117 ár og byggt upp ágætt lánstraust erlendis en það tók einkaaðilana aðeins 5 ár að koma öllu á hausinn – og draga þjóðina sjálfa ofaní svaðið með sér.

Almenningur ber byrðar af þessum einkarekstri bankanna langt inn í framtíðina.

Það sér hver maður af þessu, að auðvitað á ríkið ekki að reka banka!!!

Að öllu gríni slepptu, tel ég þrátt fyrir allt að til greina komi að selja hluta af eignum ríkisins í bönkunum, til að lækka skuldir. En ríkið verður augljóslega að hafa mikil afskipti af bankarekstri í framtíðinni, ekki síst með öflugu eftirliti og aðhaldi – og einhverju eignarhaldi.

Annað væri heimska af verstu gerð.

Bitur reynsla af algjörum einkarekstri bankanna kennir okkur þá lexíu – ef við erum yfirleitt fær um að læra eitthvað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar