Sunnudagur 28.07.2013 - 21:26 - FB ummæli ()

Hvers vegna kaupið má hækka í haust

Þessa dagana fara talsmenn atvinnurekenda mikinn og vara við kauphækkunum.

Þorsteinn Pálsson, Styrmir Gunnarsson og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hamra allir á sömu þulunni. Fleiri taka undir.

Boðskapur þessara aðila er sá, að engin innistæða sé í atvinnulífinu fyrir kauphækkunum. Engin innistæða.

Þeir hafa hins vegar rangt fyrir sér. Hvers vegna?

Reynslan frá kreppuárinu 2011 sýnir það. Þá jókst kaupmáttur umtalsvert í mjög erfiðu árferði og hagvöxtur fór á fullt.

Árið 2011 voru gerðir kjarasamningar um vorið upp á um 6% nafnlaunahækkun. Það skilaði sér í 3,7% hækkun kaupmáttar á árinu 2011 (frá des. 2010 til des. 2011). Seðlabankinn og atvinnurekendur sögðu þetta of mikla kauphækkun. En þeir höfðu rangt fyrir sér.

Kaupmáttur hafði reyndar einnig aukist vegna kjarasamninga vorið 2010 sem skilaði 2% aukningu kaupmáttar launa það árið. Frá og með þessum kjarasamningum tók hagvöxturinn að glæðast, þ.e. á seinnig hluta 2010 og allt árið 2011. Þetta má sjá á myndinni sem hér fylgir.

Kaupmáttur og VLF til 2012

Myndin: Tengsl kaupmáttaraukningar og hagvaxtar 2007-2012.

Árið 2011 var hagvöxtur meiri á Íslandi en í nær öllum vestrænum ríkjum (2,6%), eftir að kaupmáttur launa jókst um 2% árið 2010 og önnur 3,7% á árinu 2011.

Síðan hægði verulega á kaupmáttaraukningunni 2012 og 2013 – og viti menn, hagvöxturinn stórminnkaði einnig á þeim tíma. Hagvöxtur er slappur áfram á þessu ári, ekki síst vegna of lélegs kaupmáttar.

Þá má spyrja: var einhver innistæða fyrir þessum kauphækkunum 2010 og sérstaklega 2011? Við vorum á botni kreppunnar vorið 2010, eftir hið skelfilega hrun. Samt voru þetta vel heppnaðar kauphækkanir.

Ástandir er betra núna 2013 en það var 2010 og 2011, þegar kaupmáttaraukningin hófst.

 

Kaupmáttaraukning > aukin eftirspurn > aukinn hagvöxtur

Staðreyndin er sú, að aukning kaupmáttar eykur eftirspurn neytenda og það skapar fyrirtækjunum tækifæri til framleiðsluaukningar. Hagvöxtur eykst. Þetta er í samræmi við klassíska keynesíska hagfræði.

Leiðin til að koma þjóðum upp úr doða kreppunnar er að auka eftirspurnina. Aukinn kaupmáttur almennings er vænleg leið til þess (með kauphækkunum og/eða skuldaniðurfellingu).

Raunar er þetta sama rökfræði og liggur á bak við hugmynd Framsóknar um skuldalækkun til heimilanna, sem á að geta komið hagvextinum á hærra stig, eins og Paul Krugman hefur fært rök fyrir.

Atvinnurekendur og málpípur þeirra sjá aldrei innistæðu fyrir kauphækkunum (nema til æðstu stjórnenda og eigenda). Aldrei. Við eigum því ekki að hlusta á þá.

Hóflegar en markvissar kauphækkanir sem skila auknum kaupmætti í kjarasamningunum í haust munu skila auknum hagvexti og framförum. Reynslan frá árinu 2011 sýnir að þetta er vel mögulegt.

Hins vegar er líka mikilvægt að fara samhliða í mjög kröftugt átak gegn verðhækkunum, eins og gert var samhliða þjóðarsáttinni 1990.

Þetta er rétta framfaraleiðin.

Leið atvinnurekenda er hins vegar sú, að festa þjóðina á lágum launum krepputímans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar