Fimmtudagur 22.08.2013 - 21:56 - FB ummæli ()

Launalöggan fór með staðlausa stafi

Fyrir tveimur vikum eða svo varð allt sjóðandi vitlaust í fjölmiðlum vegna smá leiðréttingar sem Kjararáð gerði á kjörum nokkurra forstjóra í ríkisstofnunum.

Allir helstu talsmenn “launalöggunnar” fóru á flug og sögðu þjóðarhag stefnt í voða, því þetta myndi hleypa kjarakröfum almennings af stað. Fólk myndi fá þá firru í kollinn að launin gætu hækkað eitthvað lítillega í næstu kjarasamningum (í nóvember)!

Hin margreynda launalögga Styrmir Gunnarsson fór mikinn á Evrópuvaktinni, en sú vakt varar í senn dyggilega við ESB-aðild og kauphækkunum til almennings. Ritstjórar Moggans, talsmenn Samtaka atvinnulífsins og fleiri gæslumenn þjóðarhags hömruðu járnið duglega.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi bankamaður, sagði meira að segja að ríkisstjórnin yrði að kalla saman aukaþing í hvelli og afnema hina lítilfjörlegu hækkun Kjararáðs. Ella stefndi þjóðarbúskapurinn í voða!

Í kjölfarið kom svo Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og sagði brýnt að „kæla hagkerfið“, til að drepa allar hugmyndir almennings um að kaupið gæti hækkað.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ kom þá fram og benti á að Kjararáð væri með leiðréttingum sínum einfaldlega að fara að lögum – og fylgja að hluta á eftir forstjórum í einkageiranum, sem hefðu tekið forystuna í launahækkunum.

Í dag birti svo fjármálaráðuneytið tölur um launaþróunina. Niðurstaðan er þessi: “Laun forstjóra félaga í eigu ríkisins eru svipuð nú og þau voru árið 2010. Á sama tíma hafa laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði hækkað um 20%”.

Talsmenn launalöggunnar fóru sem sagt með staðlausa stafi. Það voru hæst launuðu forstjórarnir í einkageira og stjórnendur fjármálageirans sem höfðu farið langt framúr stjórum í opinbera geiranum.

Nú er spurning hvort launalöggurnar í Sjálfstæðisflokknum og samtökum atvinnurekenda fari fram og heimti að forstjórar einkageirans og fjármálamennirnir lækki laun sín.

Það væri þá nýtt!

 

Yfirstéttin slapp undan þjóðarsáttinni

Þjóðarsáttin frá 1990 átti að fela í sér að laun allra í samfélaginu fylgdu hóflegu mynstri – svipaðar hækkanir yrðu hjá öllum, með miklu verðlagsaðhaldi samhliða, til að hemja verðbólguna.

Síðan fundu atvinnurekendur og fjármálamenn þó út að þeir gætu í auknum mæli tekið laun sín sem fjármagnstekjur, utan ramma launakerfisins. Davíð Oddsson lækkaði svo skattinn á fjármagnstekjur stórlega.

Þar með var komin ný leið fyrir yfirstéttina til að sleppa undan þjóðarsáttinni og auka tekjur sínar margfalt umfram alla aðra – í formi fjármagnstekna með miklum skattfríðindum. Þar með jókst ójöfnuðurinn gríðarlega (sjá hér).

Þjóðarsáttin varð á endanum bara launaaðhald fyrir launafólkið.

Það góða fólk var síðan svo vinsamlegt að greiða tjónið sem hlaust af hruninu, sem græðgi yfirstéttarinnar leiddi af sér.

Vonandi verður næsta þjóðarsátt ekki með sama sniði…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar