Sunnudagur 29.09.2013 - 21:13 - FB ummæli ()

Einstakur árangur í baráttu gegn atvinnuleysi

Þó hrunið á Íslandi hafi verið stærra en hjá öðrum þjóðum voru afleiðingarnar hér á landi ekki þær verstu sem kreppan lagði á vestrænar þjóðir.

Verstu afleiðingarnar hér voru hin gríðarlega kjaraskerðing heimilanna og aukin skuldabyrði, sem hvoru tveggja varð vegna hruns krónunnar (um nærri 50%). Að auki rústaði hrunið fjármálum ríkisins.

Hjá flestum öðrum kreppuþjóðum varð atvinnuleysið hins vegar stærsta vandamálið, en kjaraskerðing Evru-þjóða varð í staðinn mun minni en hjá Íslendingum.

Íslendingar náðu hins vegar einstökum árangri í að halda aftur af atvinnuleysinu og einnig við að ná því niður aftur eftir 2009.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig atvinnuleysið var á Vesturlöndum í júlí síðastliðnum (gögnin koma frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins).

Atvinnuleysi í júlí 2013

Ísland er með fimmta besta árangurinn í baráttunni gegn atvinnuleysi, næst á eftir Þýskalandi, Austurríki, Japan og Noregi sem er á toppnum. Nú í ágúst var atvinnuleysið komið enn neðar á Íslandi, eða í 4,4%.

Ef litið er á atvinnustig (hlutfall fólks á vinnualdri sem er í launaðri vinnu) þá var Ísland á toppnum á Vesturlöndum þegar í árslok 2012, með 79,1%. Atvinnustigið hafði þá hækkað um hátt í tvö prósentustig frá 2010.

Þetta er auðvitað ótrúlega góð útkoma fyrir Ísland, ekki síst í ljósi þess hversu gríðarlega stórt hrunið var.

Stjórnvöld eiga sinn þátt í þessum árangri, ásamt góðum vexti í ferðaþjónustu. Ýmsar aðgerðir og átaksverkefni hins opinbera til að örva atvinnu og vinnumarkaðsúrræði skiluðu góðum árangri.

Vinnumálastofnun á heiður skilinn fyrir kröftuga eflingu margvíslegra vinnumarkaðsúrræða. Ég hygg að fá ef nokkur dæmi muni finnast á Vesturlöndum um meira umfang þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum en varð hér á Íslandi eftir hrun og allt fram á þetta ár.

Ég hygg að á engan sé hallað þó Runólfur Ágústsson sé sérstaklega nefndur í þessu sambandi. Runólfur er þekktur fyrir dugnað og áræði og lét virkilega til sín taka í starfi sínu sem stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og verkefnisstjóri vinnumarkaðsúrræða í gegnum kreppuna. Honum ber að þakka góð störf.

Atvinnuleysi er eitt versta bölið sem fylgir kreppum. Þó Íslendingar hafi yfir miklu að kvarta vegna frjálshyggjuhrunsins, þá ber að meta það sem vel var gert.

Baráttan gegn atvinnuleysi á Íslandi eftir hrun er öllum sem að komu til sóma. Það á við um stjórnvöld sem mörkuðu skynsama stefnu og þeim sem hana framkvæmdu, í samvinnu við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar