Sunnudagur 13.10.2013 - 09:36 - FB ummæli ()

Það sem AGS lærði um ríka fólkið á Íslandi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skekur nú heimsbyggðina með boðskap í nýrri skýrslu sinni um að rétt kunni að vera að skattleggja ríkasta fólkið og fyrirtæki meira til að vinna gegn halla á ríkisbúskap og ójöfnuði.

Þetta eru helgispjöll í heimi hagfræðinnar, þar sem frjálshyggja og auðmannadekur hafa ráðið ríkjum.

Boðskapur frjálshyggjumanna hefur frá um 1980 verið sá, að það sé allra meina bót að lækka skatta á ríkasta fólkinu. Bættur hagur þeirra ríku hafi góð áhrif á hagvöxt og molar hrynji af veisluborðum þeirra niður til þeirra tekjulægri, segja trúboðar frjálshyggjunnar.

Nú er komin um 30 ára reynsla af þessum boðskap. Niðurstaðan er að slík forréttindi hátekjufólks skila engu til samfélagsins nema auknum ójöfnuði, bóluhagkerfum, kreppu og hægari hagvexti í mörgum löndum.

Það voru einkum þeir ríku sem steyptu samfélögum heimsins út í fjármálakreppuna með skuldsettu braski sínu. Og þeir græddu rosalega á bólutímanum.

Víðast á Vesturlöndum hefur skattbyrði þeirra ríku lækkað eftir 1980, bæði með lækkun jaðarskatta á tekjur og eignir, en einnig með lægri skattlagningu á fjármagnstekjur.

Sú þróun varð mjög afgerandi á Íslandi eftir 1995, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Hún sýnir þróun skattbyrðarinnar hjá ríkasta einu prósenti þjóðarinnar (gögn frá Ríkisskattstjóra).

Skattbyrði ríkra til 2011

Ríkasta eitt prósentið á Íslandi greiddi um 35% af heildartekjum sínum í beina skatta árið 1994. Það lækkaði svo ár frá ári niður í 13% árið 2007, er það varð lægst (enda voru fjármagnstekjur sem báru einungis 10% skatt mestar það árið).

Eftir hrun jókst svo skattbyrði ríkasta fólksins, bæði vegna minnkandi fjármagnstekna og upptöku þriggja þrepa tekjuskatts vinstri stjórnarinnar (sjá nánar hér).

Þetta var mikilvæg breyting, því auknar tekjur af skattlagningu þeirra sem greiðslugetu höfðu varð til þess að ekki þurfti að skera eins mikið niður í opinberum útgjöldum. Nóg var nú samt – enda fjárhagsvandi ríkisins skelfilegur.

Íslenska leiðin í skattlagningu hátekjuhópa og fyrirtækja hjálpaði þannig til við endurreisnina.

Þessa lexíu boðar AGS nú til heimsins.

Frjálshyggjumenn og hagsmunagæslumenn ríka fólksins munu rísa upp á afturlappirnar og reyna að kveða þetta í kútinn. Sennilega ná þeir árangri. Völd þeirra eru einfaldlega svo mikil.

Spurning er hvort Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra læri eitthvað af þessum boðskap á fundi AGS í Washington sem hann nú situr. Lækkun tekjuskatts á auðmenn og útvegsmenn gengur þvert á þennan boðskap AGS!

Lítillega hærri skattlagning á þá hópa myndi duga til að bjarga heilbrigðisþjónustunni.

 

Síðasti pistill: Kaupmátturinn batnar of hægt

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar