Miðvikudagur 16.10.2013 - 11:29 - FB ummæli ()

Sjálfstæðiskona vegur að fátækum

Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er í herferð gegn fátækum í Reykjavík.

Hún gagnrýnir harðlega að borgin skuli hafa hækkað leyfilega upphæð fjárhagsaðstoðar við fólk í sérstökum fjárhagsþrengingum. Segir að upphæðin nálgist lægstu laun um of og að þetta dragi úr vilja fólks til að vinna sér til sjálfsbjargar.

Reykjavíkurborg hækkaði fjárhagsaðstoðina sem hluta af viðbrögðum við kreppunni sem kom í kjölfar frjálshyggjuhrunsins. Þeim sem eru í vandræðum og hafa t.d. misst rétt til atvinnuleysisbóta og þurfa að stóla á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi hefur vissulega fjölgað í kreppunni.

Hins vegar stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi sjálfstæðiskonunnar.

Eftirfarandi eru nokkrar ástæður þess:

  • Rangt er að miða fjárhagsaðstoðina við lægstu laun. Þeir sem eru á lægstu launum eru einkum skólafólk í hlutastörfum, ófaglærðir nýliðar á vinnumarkaði eða útlendingar sem búa við slík kjör venjulega í skamman tíma.
  • Lægstu laun fullvinnandi fólks eru í flestum tilvikum laun verkafólks. Þau voru að jafnaði um 358 þúsund á mánuði 2012 skv. Hagstofunni. Þá var hámark fjárhagsaðstoðarinnar í Reykjavík 163.635 kr. á mánuði fyrir einhleypan sem rekur eigin heimili, eða um 46% af miðlaunum verkafólks.
  • Meðallaun verkafólks í lægsta tekjufjórðungi (þ.e. regluleg heildarlaun hjá láglaunaverkafólki) voru um 297.000 krónur 2012. Fjárhagsaðstoðin var um 55% af þeim launum. Hættan á vinnuletjandi áhrifum af fjárhagsaðstoðinni er því hverfandi.
  • OECD var að birta nýjar tölur um atvinnuþátttöku í gær. Þar kom fram að atvinnuþátttaka á Íslandi er nú sú hæsta innan samtakanna. Það er því enginn fótur fyrir því að vinnuletjandi áhrif af bótakerfi eða fjárhagsaðstoð séu vandamál hér á landi.
  • Flestir Íslendingar sem geta unnið vegna heilsufars og fá atvinnutækifæri vilja frekar vinna – og gera það í reynd. Þannig hefur það lengi verið. Allt tal um annað er rangt. Líf á bótum eða fjárhagsaðstoð er örsjaldan eða aldrei betri kostur fyrir fullfrískt fólk.
  • Þeir sem fengu fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg á árinu 2012 fengu hana greidda að jafnaði í 5,1 mánuð. Fyrir flesta er sá stuðningur því tímabundinn, til að fleyta fólki í gegnum sérstaka erfiðleika. Fólk sem er utangarðs í samfélaginu og sem ekki á neinna annarra kosta völ þarf þó að reiða sig á slíka ölmusugreiðslu. Þannig er það í öllum borgum og víðast er umfangið meira en í Reykjavík.

Sjálfstæðismenn eru eins og Repúblikanar og frjálshyggjuróttæklingar í Bandaríkjunum.

Þeir hafa mestar áhyggjur af því að hátekjufólk borgi of háa skatta og að fátækt fólk hafi það of gott á bótum eða lífeyri. Vilja skera niður velferðarkerfið og bæta hag auðmanna.

Málflutningur borgarfulltrúans sýnir að auki lítinn skilning á því að hér varð hrun og djúp kreppa. Hún virðist telja að hækkun fjárhagsaðstoðarinnar hafi búið til atvinnuleysisvanda í Reykjavík.

Veruleikinn er allt annar. Atvinnuleysi hefur verið minnkandi á síðustu árum og einnig á þessu ári – þrátt fyrir það að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi hækkað fjárhagsaðstoðina í kreppunni.

Þessi annars ágæti borgarfulltrúi ætti að endurskoða málflutning sinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar