Sunnudagur 20.10.2013 - 10:49 - FB ummæli ()

Spilling í stjórnkerfinu – mikil eða lítil?

Gallup International gerði könnun á viðhorfum almennings í nærri 130 löndum á síðasta ári, þar sem spurt var: “Er spilling víðtæk í stjórnkerfi lands þíns, eða ekki?“

Niðurstöðurnar má sjá á myndinni hér að neðan (tvísmellið á myndina til að stækka hana).

Spillingin í heiminum

Ísland er í 42. sæti. Almenningur á Íslandi telur sem sagt í mun meiri mæli en almenningur á hinum Norðurlöndunum að spilling sé víðtæk í stjórnkerfinu. Þar eru það á bilinu 14-30% sem telja spillingu víðtæka í stjórnkerfinu á móti 67% hér á landi. Þetta er mikill munur.

Vestræn hagsældarríki sem teljast með meiri spillingu en Ísland skv. þessari mælingu eru aðeins Bandaríkin (73%), Ítalía (86%), Portúgal (88%) og Grikkland (92%).

Útkoman fyrir Ísland er því alls ekki nógu góð.

Transparency International birtir einnig upplýsingar um spillingu í opinbera geiranum, sem byggir á öðruvísi gögnum. Þar kemur Ísland betur út og er í 11. sæti. Þó fyrir neðan öll hin norrænu löndin.

Almenningur telur sem sagt í mun meiri mæli að spilling sé ríkjandi í íslenska stjórnkerfinu en mælingar Transparency International benda til.

Erfitt er að meta hvor niðurstaðan er réttari. Hins vegar er það grafalvarlegt ef almenningur trúir því í svona miklum mæli að spilling sé víðtæk í stjórnkerfinu. Slíkt er ekki bara spurning um lítið traust á stjórnmálum og stjórnkerfi. Þetta kallar því á úttektir, aðhald og eftirlit í auknum mæli, t.d. frá Ríkisendurskoðun og óháðum rannsóknaraðilum.

Ganga verður úr skugga um hvort slíkar grunsemdir almennings eigi við rök að styðjast.

Fyrirgreiðsluspilling hefur lengi verið talin mikil hér á landi, eins og fram hefur komið í rannsóknum prófessoranna Svans Kristjánssonar og Gunnars Helga Kristinssonar. Fyrirgreiðsluspilling tengist ekki síst of miklum samgangi milli stjórnmála og viðskiptalífs. Það var ríkur þáttur í því sem orsakaði hrunið. En fyrirgreiðsluspilling á einnig við á öðrum sviðum.

Einkavæðing bankanna er líklega mest sláandi og afdrifaríkasta dæmið um slíka fyrirgreiðsluspillingu. Mikilvægt er því að fyrirhuguð úttekt rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu bankanna fari fram.

Spillingin er eins og syndin, lævís og lipur og leynist víða. Mikið er í húfi að unnið sé gegn henni. Það er ein af mikilvægustu lexíum hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar