Laugardagur 26.10.2013 - 10:01 - FB ummæli ()

Auðræði – þjóðfélagstilraun samtímans

Á Vesturlöndum stendur nú yfir tilraun sem miðar að því að breyta samfélagsgerðinni í átt til aukins auðræðis (plutocracy). Þetta felur í sér að þeir allra ríkustu eru víða að taka til sín sífellt stærri hluta þjóðartekna á meðan hagur millistéttarinnar og lægri tekjuhópa stendur í stað eða versnar.

Bandaríkin eru besta dæmið um framkvæmd þessarar stefnu (sjá nánari upplýsingar hér og hér).

Auður heimsins er nú orðinn meiri en var fyrir fjármálakreppuna en samt er hagur almennings víðast verri – sums staðar mun verri (sjá hér). Það rofar bara til á toppnum (sjá hér).

Í Bandaríkjunum hefur um 95% þeirrar aukningar á þjóðartekjum sem orðið hefur frá 2009 runnið til ríkasta eins prósents þjóðarinnar. Pælið í því! Auðmenn þar í landi eru sem sagt komnir út úr kreppunni – en aðrir sitja enn fastir á botninum.

Víðast reyna ríkisstjórnir að skera niður velferðarútgjöld og auka gjaldtöku fyrir samfélagsþjónustu ýmsa, með auknum byrðum fyrir venjulegar fjölskyldur.

 

Hin nýja stéttabarátta

Þjóðfélagstilraunin er afrakstur aukinnar stéttabaráttu að hálfu yfirstéttarinnar, ríkustu einstaklinganna, sem kreista fram aukið frelsi fyrir fjármálabrask yfirstéttarinnar, skattalækkanir til fyrirtækja og fjárfesta, – en heimta um leið niðurskurð opinberra velferðarútgjalda og framkvæmda. Þeir ríku vilja meira – sífellt meira (sjá hér og hér).

Hugmyndafræðin á bak við þessa nýju stéttbaráttu og hinn aukna yfirgang auðmanna, ekki síst í Bandaríkjunum, er nýfrjálshyggjan. Hún réttlætir gegndarlaus fríðindi fyrir yfirstéttina – á kostnað venjulegra fjölskyldna. Millistéttinni blæðir.

Með auknum áhrifum frjálshyggjunnar eftir 1980 þá tók þessi nýja stefna smám saman yfir. Byrjaði með Thatcher og Reagan. Eimreiðarhópurinn flutti boðskapinn síðan til Íslands og Davíð Oddsson kom honum í framkvæmd í vaxandi mæli frá 1995.

Tilraunin núna gengur út á að finna hversu langt verður hægt að ganga í að auka auð þeirra súperríku og þrengja um leið að venjulegum fjölskyldum og ekki síst fólki í lægri tekjuhópum. Hversu mikið verður hægt að auka ójöfnuðinn og þrengja að velferðarríkinu?

Að sumu leyti er þetta endurtekning á aðstæðum eins og voru á „gyltu öldinni „í Bandaríkjunum (the gilded age) 1865-1918, þegar auðmenn þess tíma (sem gjarnan voru kallaðir “ræningjabarónar” – t.d.  John D. RockefellerAndrew W. MellonAndrew CarnegieHenry FlaglerHenry H. RogersJ. P. MorganLeland StanfordCharles CrockerCornelius Vanderbilt ) réðu ríkjum í atvinnulífi og stjórnmálum öllum. Keyptu stjórnmálamenn og dómara með húð og hári. Keyptu lýðræðið.

Miklum auði fylgja nefnilega mikil pólitísk völd. Framfarahreyfingin í USA (the Progressive Movement) barðist gegn þessu og tókst að ná árangri í að hemja auðræðið tímabundið upp úr aldamótunum 1900 og skattleggja hæstu tekjur meira (sjá hér).

Að því leyti sem íslenskir frjálshyggjumenn sækja hugmyndir sínar til hægri róttæklinga í Bandaríkjunum – og það gera þeir svo sannarlega – þá gætir þessara áhrifa hér á landi (sbr. hér).

Spurningin almennt séð er hversu langt verður hægt að ganga án þess að samfélögin sundrist. Þessu velta fræðimenn erlendis nú fyrir sér í vaxandi mæli.

PS! Hlustið svo á Russel Brand tala um framtíðarsýn sína á BBC (hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar