Þriðjudagur 29.10.2013 - 11:58 - FB ummæli ()

Ayn Rand: Heimur ofurmenna og aumingja

Íslenskir frjálshyggjumenn eru farnir að þýða og gefa út bækur bandaríska rithöfundarins Ayn Rand í gríð og erg. Bækur hennar einkennast af rótækri trú á óheftan kapítalisma, afskiptaleysisstefnu og skefjalausa einstaklingshyggju.

Ayn Rand upphefur atvinnurekendur, framtaksmenn og auðmenn en kallar flesta aðra ónytjunga, blóðsugur eða þjófa. Vinnandi alþýða telur varla með í heimi hennar. Auðmennirnir einir eru sagðir skapa verðmætin – hún talar um þá eins of þeir séu ofurmenni, í anda Nietzsche.

Bækur Ayn Rand eru skáldsögur, en markmið þeirra er pólitíkskur áróður. Þetta er boðskapurinn um dásemd óhefta kapítalismans og meinta galla alls þess sem lýðkjörið ríkisvald gerir. Hún hafnar lýðræði (vilja meirihlutans), velferðarríkinu og kristnu siðgæði.

Frjáls markaður er sagður góður – en ríkið alslæmt. Auðmenn eru góðir – en stjórnmálamenn slæmir. Atvinnurekendur eru góðir – en alþýðan er safn ónytjunga og aumingja. Eigingirni er sögð vera dygð – en samúð með öðrum er sögð sjálfsfórn og siðleysi.

Ayn Rand er auðvitað harður andstæðingur sósíalisma og allt í lagi með það. Hins vegar gengur hún svo langt að berjast líka gegn blandaða hagkerfinu sem tíðkaðist eftir seinni heimsstyrjöld, eftir að óheftur klapítalismi rann sitt skeið með Kreppunni miklu sem kom í kjölfar hrunsins á Wall Strteet 1929. Allir málsmetandi menn á Vesturlöndum sáu þá að óheftur kapítalismi gengur ekki upp. Hemja þarf græðgina til að markaðurinn fari ekki afvega, með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið.

Þess vegna tók blandaða hagkerfið og velferðarríkið við eftir seinni heimsstyrjöld. Þá rann upp mesta hagsældar- og framfaraskeið sögunnar. Samt réðst Ayn Rand gegn því og gerði sömu mistökin og frjálshyggjumaðurinn Friedrich von Hayek gerði í bókinni Leiðin til ánauðar. Hún taldi að blandaða hagkerfið myndi leiða til ánauðar alræðislegs ríkisvalds, eins og Hayek.

Þar fóru þau hjúin illa afvega! Blandaða hagkerfið sem stóð frá 1945 til um 1975 varð einstaklega farsælt, lýðræði blómstraði sem aldrei fyrr og hagur almennings batnaði um öll Vesturlönd! Þetta var einstakt framfaraskeið á flestum sviðum. Millistéttin blómstraði og yfirstéttinni var haldið í skefjum.

Með endurkomu frjálskyggjunnar upp úr 1980 fóru hægri róttæklingar að sýna verkum Ayn Rands aukinn áhuga. Það var meðal annars vegna þess að bandarískar áróðursveitur (t.d. Ayn Rand Insititue og Cato Institute) beinlínis gefa mörg hundruð þúsund eintök af þessum bókum til skólakrakka á ári hverju – til að planta frjálshyggjunni sem víðast í ómótaðar sálir.

 

Íslenskir frjálshyggjumenn boða auðræði og öfga Ayn Rand

Áróðursveita Hannesar Hólmsteins og Ragnars Árnasonar og félaga sér um dreifingu þessara bóka á Íslandi, í gegnum Almenna bókafélagið sem Hannes og félagar reka.

Hannes Hólmsteinn vísaði í Ayn Rand til að réttlæta auðræðið í Bandaríkjunum í nýlegum pistli. Sagði þar að auðmenn (ríkustu 20 prósentin) greiddu 70% allra skatta (sem er reyndar rangt!). Hannes sagði svo: “Hvað myndi gerast, ef þeir, sem skapa verðmætin, hætta að nenna að deila þeim með hinum, sem ekki skapa verðmætin?”. Það er einmitt stefið í bók Ayn Rand Undirstaðan (Atlas Shrugged).

Atvinnurekendur eða framtaksmenn eru þar sagðir skapa verðmætin sem allir njóta. Venjulegt vinnandi fólk telur varla með sem verðmætaskapandi verur. Almenningur er sagður öfunda auðmennina af snilli þeirra og heimta af þeim lífsviðurværi. Ríkisstarfsmenn eru svo sagðir “stela” eigum auðmanna með skattheimtu – og “aumingjar” (moochers) heimta loks af þeim lífeyri. Hér má heyra hvað Ayn Rand hefur að segja um öryrkja, sem hún telur að eigi að vera réttlausir ölmusumenn.

Í heimi Ayn Rand eru auðugir atvinnurekendur sem sagt sagðir helstu velgjörðarmenn samfélagsins, en aðrir teljast aumingjar eða ónytjungar! Þessi ógeðfellda hugsun hefur því miður náð furðu langt hjá frjálshyggjumönnum og er ein af réttlætingunum fyrir auðræðinu mikla sem hefur þróast í Bandaríkjunum á síðustu áratugum.

Íslenska frjálshyggjumenn þyrstir að koma okkur Íslendingum í sömu stöðu. Þeir eru talsmenn óhefts kapítalisma, aukins ójafnaðar og andstöðu við velferðarríkið og blandaða hagkerfið, eins og Ayn Rand og Friedrich von Hayek voru.

Í sjávarútvegsmálum kemur þetta skýrlega fram hjá frjálshyggjumönnum. Þeir vilja útvegsmönnum allt en landvinnslufólki ekkert. Veiðigjaldið er sagt eignaupptaka ríkisins (Ayn Rand hefði kallað það „þjófnað“), þó lög kveði á um að almenningur eigi auðlindina. Öllu er snúið á haus í þágu útvegsmanna – gegn hagsmunum almennings.

Markmið Ayn Rand og fylgjenda er að brjóta niður samfélag samhjálpar, sanngirni og almennrar velferðar. Í staðinn skuli magna eigingirni og græðgi róttækrar einstaklingshyggju, í óheftum kapítalisma og auðræði.

Svo er sagt að ef hátekju- og stóreignafólkið fái ekki allt þá einfaldlega farið það og skilji hina eftir í eymd og volæði, eins og Hannes Hólmsteinn ítrekar.

Þeir sem þekkja sögu blandaða hagkerfisins og velferðarríkisins vita hins vegar betur. Þeir vita að ef kaup og kjör almennings væru betri og hagur auðmanna hóflegri, þá gengi allt betur.

Lýðræðið, hagsældin, velferðin og hamingjan myndu blómstra betur. Þannig var það einmitt á tíma blandaða hagkerfisins frá 1945 til 1975.

Fylgismenn róttæklinga eins og Ayn Rand mega því alveg missa sig. Þeir eru ekki handhafar neinna hugmynda um farsælt og manneskjulegt samfélag.

Þeir eru vinir auðræðis – en óvinir lýðræðis og velferðarsamfélags.

 

Hér má sjá gott viðtal Mike Wallace við Ayn Rand þar sem hún lýsir skoðunum sinum (í þremur hlutum):

Sjá einnig þennan pistil:  Auðræði – þjóðfélagstilraun samtímans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar