Mánudagur 25.11.2013 - 23:26 - FB ummæli ()

Hvaða ríki juku skuldir mest í kreppunni?

Alvanalegt er að skuldir hins opinbera aukast mikið í fjármálakreppum. Það sýna rannsóknir.

Almennt mátti búast við að þau ríki  sem verst héldu á málum sínum á bóluárunum í aðdraganda fjármálakreppunnar myndu enda uppi með mesta skuldaaukningu.

Ísland og Írland voru með stærstu bóluhagkerfin. Þar var ofþenslan mest í aðdraganda kreppunnar og fallið hæst. Þess vegna var við því að búast að skuldir hins opinbera í þessum löndum myndu aukast meira en í öðrum kreppulöndum.

Þannig var það einmitt, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Skuldir írska ríkisins jukust langmest, en Ísland er í öðru sæti. Svo komu Grikkland, Portúgal, Króatía, Bretland og Spánn.

Aukning skulda ríkisins til 2012

Aukning heildarskulda hins opinbera í Evrópu, frá 2005 til 2012 (í prósentustigum). Heimild: Eurostat (Ath! Þetta eru skuldir ríkisins en ekki skuldir heimila eða fyrirtækja.)

 

Raunar hefðu skuldir Íslands átt að aukast mest, því óreiðan og áhætturnar sem hér voru teknar á árunum til 2008 voru meiri en á Írlandi. Skuldir ríkisins urðu hins vegar stærri þar vegna þess að stjórnvöld björguðu bönkunum – og tóku þar með á sig hlutfallslega meiri skuldir en íslenska ríkið.

Skuldir íslenska ríkisins náðu hámarki árið 2011 (tæplega 100% af landsframleiðslu) og lækkuðu í 96% árið 2012. Skuldir Íra eru enn að aukast og eru nú um 117% af landsframleiðslu.

Íslenska ríkið slapp því betur frá skuldafeninu en það írska.

 

Hvað ef íslensku bönkunum hefði verið bjargað?

 

Menn geta velt fyrir sér hvað hefði gerst ef Ísland hefði fengið aðstoð til að bjarga bönkunum, eins og gerðist á Írandi. Ef bandaríski seðlabankinn hefði lánað Davíð Oddssyni risalán eins og um var beðið.

Þá hefðu erlendar skuldir íslenska ríkisins væntanlega orðið mun meiri en á Írlandi – og líklega óviðráðanlegar. Við hefðum orðið fangar mun verri skuldafjötra til langrar framtíðar. Hugsanlega hefðu bankarnir fallið þrátt fyrir slík björgunarlán og lánsféð tapast.

Sem betur fer höfðu erlendir seðlabankastjórar vit fyrir Íslendingum og neituðu að lána þeim til að bjarga íslensku bönkunum. Mat þeirra allra var að þessum bönkum væri ekki bjargandi, enda stærð þeirra um tíföld landsframleiðsla Íslands. Þeir voru hlutfallslega mun stærri en írsku bankarnir.

Það var því lán í óláni að beiðni Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um risalán var hafnað – af öllum sem leitað var til.

 

Síðasti pistill: Frá Eimreiðinni til öfgastefnu Ayn Rand

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar