Föstudagur 29.11.2013 - 15:20 - FB ummæli ()

Páfinn í Róm varar við frjálshyggju

 

Joy of the gospel Francis páfi hefur nýlega sent frá sér mikilvæga hugvekju í bók sem hann kallar Gleðiboðskap guðspjallanna (The Joy of the Gospel).

Þar ítrekar páfinn þá sýn sem hann vill að kirkjan standi fyrir. Í bókinni er auðvitað klassískur boðskapur kristinnar kirkju um kærleika, hjálpræði, réttlæti og samstöðu með þeim sem minna mega sín.

Góðmennska og gleðigjöf guðspjallanna eru í öndvegi.

En Francis páfi slær líka nýja strengi í ranni kaþólsku kirkjunnar og sýnir að hann er með gott jarðsamband. Hann sér hvar illgresið hefur skotið rótum og grafið undan kristilegum gildum og góðu mannlífi.

Páfi bendir sérstaklega á illgresi sem af frjálshyggjunni stafar, svo sem trú á óheftan og siðspillandi markað, peninga og ójöfnuð.

Þannig varar Francis páfi við sjálfselsku, græðgi neyslusamfélagsins og eigingirni sem hann segir grafa undan samúð með öðrum, ekki síst fátækum og útskúfuðum.

Páfinn segir efnahagskerfi nútímans óréttlátt frá rótum, enda byggt á “alræði markaðsafla, þar sem fjármálabrask, víðtæk spilling og skattaundanskot eru allsráðandi”, svo vísað sé orðrétt í rit páfa.

Brauðmylsnukenning frjálshyggjunnar fær einnig beinskeytta afgreiðslu hjá páfa:

“Sumir eru enn að verja brauðmylsnukenninguna („trickle-down theory„), sem gengur út frá því að hagvöxtur muni, fyrir tilstilli óhefts markaðar, færa meira réttlæti og bræðralag öllum til handa, ekki bara þeim ríku. Sú skoðun, sem aldrei hefur verið sönnuð með staðreyndum, endurspeglar einfeldningslega trú á góðsemi þeirra sem hafa völdin í efnahagslífinu og á virkni ríkjandi efnahagsskipanar, sem talin er allt að því heilög”… „Á meðan sitja þeir fátæku og útskúfuðu óbættir hjá garði“, segir páfi.

Þarna tekur páfinn kröftuglega til orða og talar skýrt. Hann varar við frjálshyggjuboðskapnum.

Það vantar ekkert nema að páfi bendi líka á þá lygaflækju sem vúdú-hagfræði Arthurs Laffers er!

Francis páfi ætlar greinilega að marka kristnu kirkjunni skýra sýn og tala máli samúðar, hjálpsemi og góðmennsku. Hann boðar “byltingu góðmennskunar” (“revolution of tenderness”).

Þó páfinn leggi áherslu á að dyr kirkjunnar séu öllum opnar, þá er augljóslega ekki pláss fyrir hugmyndafræði frjálshyggjunnar né áróður Hólmsteina fyrir dimmum boðskap Ayn Rand í þessari framtíðarsýn hans.

Páfinn í Róm hefur vissulega kveðið sér hljóðs á óvenjulegan og tímabæran hátt.

Víst er að boðskapur hans má sín mikils gegn myrkraöflum frjálshyggjunnar á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Þetta boðar því tímamót! Frjálshyggjumenn munu nú væntanlega skríða í felur og láta lítt á sér kræla í framtíðinni.

 

Síðasti pistill: Skuldir ríkja – Ísland í sjötta sæti í Evrópu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar