Miðvikudagur 11.12.2013 - 12:12 - FB ummæli ()

Lítið stutt við barnafjölskyldur á Íslandi

Vigdís Hauksdóttir segir að vinstri stjórnin hafi haft það markmið að gera alla háða bótum. Hún vill breyta stefnunni og vinda ofanaf bótagreiðslum.

Þetta er sjónarmið sem kemur frá róttækum frjálshyggjumönnum, en fáum öðrum. Flestir stjórnmálamenn á Vesturlöndum – bæði á miðju, vinstri og jafnvel á hægri væng – eru hlynntir fjölskyldustefnu (þar sem barna- og vaxtabætur eru mikilvægur hluti).

Um hvað snýst fjölskyldustefna?

Hún snýst einkum um það að gera ungu fólki kleift að koma sér upp heimili og eignast börn. Það verkefni er eitt það stærsta sem fólk stendur í á ævinni.

Ungt fólk fær gjarnan lægri laun í upphafi starfsferils en síðar verður. Þegar lægri laun og miklar byrðar vegna stofnunar fjölskyldu leggjast saman verða baggarnir gjarnan þungir. Þar kemur tryggingakerfi velferðarríkisins til sögunnar, í formi fjölskyldustefnu.

Tekjustuðningur (bætur og ívilnanir) og þjónusta (leikskólar, heilbrigðisþjónusta) til ungra barnafjölskyldna miðar að því að létta undir á tímabili í lífi fólks sem er fjárhagslega erfitt. Í staðinn greiðir það sama fólk hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði þegar það er komið úr barneignum.

Þetta er tekjutilfærsla milli aldurshópa – en ekki ölmusa.

Aðstæður ungra barnafjölskyldna urðu reyndar sérstaklega slæmar eftir hrunið og hækkun vatabóta og barnabóta á síðasta kjörtímabili var til að milda þá óvenju miklu erfiðleika. Það var mikilvægt stoðkerfi, en miðaði ekki að því að gera alla háða bótum.

Slíkur stuningur við barnafjölskyldur hefur þó lengi verið hóflegur hér á landi, í samanburði við mörg grannríkjanna sem eru á svipuðu hagsældarstigi. Samt eru óvenju mörg börn á íslenskum heimilum og því mikil verkefni fyrir öfluga fjölskyldustefnu. Vigdís Hauksdóttir hefði átt að kynna sér það áður en hún lýsti stríði á hendur fjölskyldu- og vaxtabótum.

Í töflunni hér að neðan má t.d. sjá yfirlit yfir fjárhagsstuðning við barnafjölskyldur á Norðurlöndum (stuðningur í Evrum á hvert barn 0-17 ára; annars vegar fjárstuðningur barnabóta -kontantydelser- og hins vegar niðurgreiðsla þjónustu -serviceydelser- eins og leikskóla).

Screen shot 2013-12-11 at 11.50.42 AM

Heimild: Nososko 2012

 

Taflan sýnir að fjárhagsstuðningur (barnabætur) á hvert barn var minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum árið 2010 (1589 Evrur á móti 2255 til 2831 Evrur, leiðrétt fyrir ólíku verðlagi).

Þó hér sé tiltölulega mikill stuðningur við leikskóla og fæðingarorlof þá stöndum við frændþjóðunum einnig þar að baki. Jafnvel Færeyingar verja stærri fjárhæðum en Íslendinga á hvert barn, bæði í fjárhagsstuðning og þjónustu.

Stuðningur af vaxtabótum er þó mikill hér á landi, eftir þær hækkanir sem komu á síðasta kjörtímabili. Tilefnið fyrir þeim aukna stuðningi var þó óvenjustórt: stökkbreyttar skuldir í kjölfar um 50% gengisfalls og veruleg lækkun kaupmáttar.

Á heildina litið eru tilefni til öflugrar fjölskyldustefnu meira hér á landi en víðast í grannríkjunum. Það er vegna hrunsins,  vegna meiri fjölda barna á íslenskum heimilum og vegna þess að hér eru í meiri mæli tvær fyrirvinnur á heimili. Álag á ungum íslenskum fjölskyldum er því mjög mikið.

Það var uppörvandi að sjá að Vigdís Hauksdóttir hafði ekki stuðning í þingflokki Framsóknar fyrir róttækum frjálshyggjuskoðunum sínum um þetta. Það er því rétt sem Björn Ingi Hrafnsson sagði, að Framsókn er ekki sem heild hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Vigdís Hauksdóttir virðist vera nokkuð ein á báti á þeim slóðum.

Raunar ætti Framsókn að gera fjölskyldustefnu að sínu máli. Það styður við stefnuna í skuldamálum og er almennt gott mál fyrir samfélagið og framtíðina.

Gott fyrir heimilin.

 

Síðasti pistill: Lækkun barna- og vaxtabóta – afleit hugmynd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar