Laugardagur 18.01.2014 - 13:02 - FB ummæli ()

Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

GJGuðrún Johnsen, lektor í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands, sendi frá sér bókina Bringing Down the Banking System – Lessons from Iceland í síðustu viku. Það er hin virta útgáfa Palgrave-MacMillan sem gefur bókina út. Guðrún kynnti bókina á fjölmennum fyrirlestri í hátíðarsal HÍ á fimmtudag.

Guðrún er sérstaklega vel til þess fallin að fjalla um þetta viðfangsefni. Hún er menntuð í fjármálahagfræði, starfaði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hefur aðra starfsreynslu á þessu sviði frá Bandaríkjunum og víðar og vann að auki með Rannsóknarnefnd Alþingis við úttektina miklu á orsökum falls bankanna.

Bók Guðrúnar byggir því á kenningum og lærdómum faglegra fjármálafræða og miklum gögnum og niðurstöðum Rannsóknarnefndarinnar. Það eru sterkar stoðir að byggja á.

Það er mikilvægt að fagkona eins og Guðrún fjalli svo ítarlega um hrunið vegna þess að skrif aðila sem voru beinir eða óbeinir þátttakendur í þeirri þróun sem leiddi til hrunsins eru mörg hver hlutdræg og ótraust.

Guðrún segir frá því í fyrsta kafla bókarinnar að hún hafi árið 2005 tekið þátt í skýrsluskrifum hjá AGS um vaxandi áhættur vegna örrar skuldasöfnunar í nokkrum löndum. Ísland var þar á meðal. Guðrún gekk milli Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og forsætisráðherra til að vekja athygli á málinu. Hún mætti tómlætinu einu, eins og hún segir frá í fyrsta kafla (sjá hér).

Í mars 2007 skrifaði Guðrún grein í Viðskiptablaðið um óraunhæft lánshæfismat á íslensku bönkunum og vakti athygli á að Seðlabankinn væri orðinn ófær um að gegna lagalegri skyldu sinni sem lánveitandi til þrautavara. Raunar voru síðustu forvöð að bjarga íslensku bönkunum á árinu 2006, eftir að danskir bankamenn sendu okkur skilmerkilega viðvörun (Geysiskrísan).

Það virðist sem ófullnægjandi þekking eða grandvaraleysi hafi einkennt íslenska fjármála- og stjórnmálaumhverfið á bóluárunum miklu, frá 2003 til 2007. Líklega er oftrú á óhefta markaði að einhverju leyti um að kenna, eins og hagfræðingurinn Axel Leijonhufvud hefur bent á (hér).

Sagan af íslenska bóluhagkerfinu og hruninu er mikil saga og öll með ólíkindum. Guðrún sýnir í bók sinni hvernig saman fór óvenju ör vöxtur íslenska bankakerfisins, með of mikilli skuldasöfnun í umhverfi ófullnægjandi eftirlits og aðhalds. Þegar halla tók undan fæti urðu viðskiptahættir í bönkunum vafasamari og fóru jafnvel út fyrir ramma laga og siðferðis. Allt of miklar áhættur voru teknar, upplýsingar voru takmarkaðar og villandi.

Afleiðingin varð þriðja stærsta gjaldþrot heimssögunnar og það varð í þessu örríki sem Ísland er. Stærsta bóluhagkerfi sögunnar leiddi af sér eitt stærsta fjármálahrun sögunnar, með gríðarlegu tjóni fyrir íslensku þjóðina.

Guðrún spyr réttu spurninganna í bók sinni: hvernig gerðist þetta, hvers vegna, af hverju komu stjórnvöld ekki í veg fyrir óheillaþróunina; hver er lærdómurinn?

Eftirfarandi eru molar úr bókinni og erindi Guðrúnar Johnsen í Háskóla Íslands á fimmtudag sl:

  • Efnahagur og útlán bankanna uxu langt framúr innviðum bankanna – þeir fóru illa afvega (á 7 árum frá 2000 til 2007 var vöxtur bankanna 20 faldur).
  • Þróunin varð í umhverfi þar sem nýlega hafði verið innleitt fullt frelsi til fjármagnsflutninga (EES 1995). Ríkisbankarnir höfðu verið einkavæddir í kjölfarið (frá 1998 til 2003). Nýir aðilar komu að stjórn bankanna.
  • Hinir nýju eigendur og stjórnendur bankanna nýttu sér til hins ítrasta ofgnótt lánsfjár sem bauðst á erlendum mörkuðum á þessum tíma á lágum vöxtum og nutu góðs lánstrausts sem íslenska ríkið hafði aflað sér á löngum tíma.
  • Of mikil útlán með of mikilli skuldasöfnun leiðir til stórra gjaldaga, sem kallar á mikla endurfjármögnunarþörf. Það er mikil áhætta gagnvart breyttu framboði lánsfjár á mörkuðum.
  • Vorið 2006 fékk Ísland alvöru viðvaranir um áhætturnar sem voru að byggjast upp hér á landi. Þá hægði á framboði fjár til endurfjármögnunar, en Landsbanki og Kaupþing reyndu þá í auknum mæli að bjarga sér með söfnun sparifjár frá almenningi í Bretlandi (og síðar Hollandi), með Icesave og Edge reikningum.
  • Haustið 2007 varð sú áhætta að köldum veruleika er markaðir lokuðust. Skuldatryggingarálag íslenskra banka tók að hækka mikið og hlutabréfavísitalan hóf verulega lækkun. Gengi íslensku krónunnar fór að lækka skömmu síðar og stóð það alveg fram í sumarbyrjun 2008.
  • Guðrún telur að bankarnir hafi í reynd verið komnir á leiðarenda haustið 2007.
  • Til viðbótar við Icesave og Edge innlán sóttu bankarnir frekari lán til Seðlabanka Íslands, gegn ófullnægjandi veðum (“ástarbréfum”). Þetta leiddi til gjaldþrots Seðlabanka Íslands. Síðan gerðu þeir það sama gagnvart Seðlabanka Lúxemborgar og læddu íslenskum veðum inn í Seðlabanka ESB gegnum bakdyrnar – með brögðum.
  • Starfsemi íslensku bankanna var sögð alþjóðleg starfsemi og 60% lána þeirra voru sögð erlend útlán. Samt var meirihluti lánasafnanna íslensk áhætta – falið í vefjum eignarhaldsfélaga í skattaskjólum. Krosseignatengsl og blekkingarvefir voru notaðir til að fela of mikil lán til eigenda bankanna og tengdra aðila.
  • Þannig gátu íslensku bankarnir lánað félögum tengdum eigendum sínum langt umfram löglegt hámark.
  • Á endanum voru stærstu eigendur allra bankanna þriggja búnir að taka stóran hluta af eiginfé bankanna að láni sjálfir, langt umfram löglegt hámark, í gegnum félög sín. Bankarnir lánuðu til félaga eigenda hvors annars til að blekkja eftirlitsaðila.
  • Hvers vegna gerðu bankamennirnir þetta?
  • Eigendur bankanna voru í eigin góðaleit, eins og hverjir aðrir braskarar. Launaðir stjórnendur bankanna voru á bónusum sem þýddi að ofurvöxtur og ofuráhættur juku tekjur þeirra. Hvati til aukinnar áhættu var innbyggður.
  • Gæðum lánasafnsins hrakaði með vaxandi hraða eftir 2003, t.d. með fjölgun kúlulána (eingreiðslulána) – áhætta jókst og endurfjármögnunarþörf varð meiri
  • Lánasafn dótturfélags Landsbankans í Lúxemborg var að megni til íslensk áhætta.
  • Stór hluti af skráðum hlutabréfum voru veðsett í bönkunum, þar á meðal þeirra eigin bréf í þeim sjálfum.
  • Til að halda verðmæti veðanna fóru bankarnir í vaxandi markaðsmisnotkun 2006 til 2008 til að varna því að hlutabréf þeirra lækkuðu í verði á markaði. Það var þeirra lífróður, ásamt söfnun innistæðna frá almennum sparifjáreigendum í Bretlandi og Hollandi, með ósjálfbærum yfirboðum á vöxtum.
  • Bankarnir blekktu í ársreikningum sínum með því að gera ekki grein fyrir þeirri veikingu eiginfjárgrunns sem þessu fylgdi. Fölsuðu í reynd tölur um eiginfé. Endurskoðendur horfðu framhjá því.
  • Bresk yfirvöld sáu að eiginfé í útibúum Landsbankans í Englandi var ónógt til að tryggja innistæður. Buðust til að taka það á eigin hendur gegn hóflegu fjárframlagi frá bankanum á Íslandi, fyrst í maí 2008. Bankinn gerði það ekki, gat sennilega ekki ráðið við það. Íslensk stjórnvöld gátu ekki eða vildu ekki leggja fram fé til þess. Þá tóku bresk stjórnvöld útibú LÍ í Bretlandi yfir að kvöldi dags 7. október 2008.
  • Móðurfélag Kaupþings tappaði lausu fé út úr Kaupþing Singer and Friedlander í London, með brellum. Bresk stjórnvöld sáu þetta og ákváðu að taka bankann yfir og frysta íslenskar eignir í landinu (með hryðjuverkalögunum).
  • Þó Ríkissjóður Íslands sjálfur væri nærri skuldlaus í aðdraganda hrunsins vildi enginn lána honum né Seðlabanka Íslands – vegna þess að allir erlendir seðlabankar sáu að íslensku bankarnir voru að hruni komnir. Þeir bentu á AGS sem veitanda neyðarstoðar.
  • Það var lán í óláni að ekki fengust lán til að bjarga bönkunum – því ella hefðu skuldir Íslands orðið algerlega óviðraðanlegar og þjóðarbúið farið í gjaldþrot, eins og Már Guðmundsson seðlabankastjóri stafesti á nýlegri ráðstefnu um hrunin á Íslandi og Írlandi í Reykjavík.
  • Hvers vegna gekk þetta svona langt á Íslandi?
  • Of veikt Fjármálaeftirlit, of veikur Seðlabanki og veik stjórnvöld voru lykil brestir. Hér var algerlega ófullnægjandi eftirlit og aðhald. Ofurtú á óhefta markaði og fjandskapur í garð “eftirlitsiðnaðar” var prédikaður í pólitík og viðskiptaheiminum.
  • Áhyggjur Seðlabankafólks af stöðu bankanna jukust verulega frá nóvember 2007 – en þeir sendu ríkisstjórninni engar tillögur til mótvægisaðgerða, hvorki formlega né óformlega. Það var þó skylda Seðlabankans að grípa til aðgerða.
  • Eftir fall bankanna voru eignir þeirra taldar vera um 40% af bókfærðum eignum þeirra. Froðan var um 60%. Eignir bankanna voru niðurfærðar um nærri fimmfalda þjóðarframleiðslu Íslands.

Lærdómar af íslenska bankahruninu eru því margir. Of hraður vöxtur er varasamur. Of mikil skuldasöfnun er gríðarlegur áhættuþáttur. Ófullnægjandi eftirlit og aðhald gagnvart fjármálamarkaði eykur hættur á því að bankar fari afvega.

Bankakerfinu íslenska var leyft að vaxa landinu og Seðlabankanum langt yfir höfuð og stóðu bankarnir því berskjaldaðir þegar veðrabrigði urðu á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Þróunin í aðdraganda hrunsins á Íslandi, raunar alveg frá 1998 til 2007, var óhófleg, óvarkár og ógæfuleg á marga vegu. Þetta var verulega ýkt fjármálabóla með óvenju miklum áhættum.

Því miður brást stjórnkerfi þjóðarinnar því hlutverki sínu að verja almenning gegn áhættum sem gráðugir braskarar í bönkum og fyrirtækjum tóku. Stærsta lexían er sú, að eftirlit og aðhald þarf að vera mun meira en hér var á bóluárunum.

Bók Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System – Lessons from Iceland, er tímamótaverk um óheillaþróunina sem hér varð og hrunið sem í kjölfarið fylgdi.

 

Síðasti pistill: Velferðarstefna í mjólkuriðnaði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar