Miðvikudagur 19.02.2014 - 21:21 - FB ummæli ()

Svar til Gylfa Arnbjörnssonar

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, sendir mér pirraðan tón á Pressunni í dag.

Erindið er að kvarta yfir skrifum mínum um kjarasamninga og nú síðast grein um aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna, fyrir og eftir þjóðarsáttarsamningana 1990.

Gylfi afbakar skrif mín og tilgang nokkuð og stillir svo upp tölum um launaþróun sem hann segir að gefi allt aðra og réttari mynd en tölurnar sem ég notaði.

Ég ætla hér að leiðrétta rangfærslur Gylfa um skrif mín og sýna að auki samanburði á hækkun kaupmáttar launavísitölunnar (í stað ráðstöfunartekna), fyrir og eftir þjóðarsátt – sem styður fyrri niðurstöður mínar.

Fyrst koma tvær leiðréttingar á rangfærslum Gylfa um skrif mín.

1. Gylfi segir að ég sé í uppgjöri við Þjóðarsáttarsamningana frá 1990 og reyni “að búa til einhver fræðileg rök fyrir því að launafólk sé betur statt í óðaverðbólgu og víxlverkan gengis, verðlags og launa”.

Þetta er kolrangt og frekar ósvífið. Ég tek sérstaklega fram í greininni að ég sé ekki að mæla með verðbólgu.

Þeir sem lesa grein mína á Eyjunni (hér) sjá að ég er einfaldlega að benda á, að raunveruleg aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna var meiri á tímabilinu frá 1960 til 1987 en á tímabilinu eftir þjóðarsáttarsamningana (1990-2007) – þrátt fyrir mikla verðbólgu á fyrra skeiðinu. Hverjar orsakir þess eru segi ég ekkert um og síst af öllu dettur mér í hug að verbólgan hafi sérstaklega leitt til kaupmáttaraukningar.

Það er greinilega ekki vanþörf á að birta þessar grundvallarupplýsingar fyrst margir virðist halda að kaupmáttaraukning heimilanna hafi verið meiri eftir þjóðarsáttarsamninga en fyrir þá – þegar staðreyndin er öndverð.

2. Loks skýri ég neðst í grein minni hvað felst í tölum um kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna. Þar má sjá að Gylfi fer með rangt mál þegar hann segir eftirfarandi:

“Það sem ekki kemur fram að fullu í þessum útreikningum er, að skuldsetning heimilanna í dag er margföld á við skuldsetninguna fyrir 1990 og þar af leiðandi eru áhrifin af þeirri miklu lækkun vaxta sem þó hefur orðið frá óðaverðbólguárunum mjög vanmetin.”

Greiðslubyrði af húsnæðislánum er inni í þeim tölum sem ég nota og því er ekki um slíkt vanmat að ræða, sem Gylfi nefnir.

 

Hvað segja tölurnar?

Loks birtir Gylfi tölur um kaupmátt dagvinnulauna verkakarla í Dagsbrún/Eflingu frá 1955 til 2013 og segir að þær gefi allt aðra niðurstöðu en ég fæ.

Ég myndi setja fyrirvara við notkun slíkra gagna um þróun launataxta tiltekinnar starfsstéttar á svo löngum tíma. Miklar breytingar geta orðið á notkun svona viðmiða, bæði vegna tilfærslna og yfirborgana, ekki síst á löngum tímabilum. Það skerðir gildi samanburðar yfir tíma.

Í staðinn hef ég reiknað kaumáttaraukningu launavísitölunnar, sem er meðalkaup launafólks. Það gefur betri heildarmynd af kaupmáttarþróun launafólks. Niðurstöðuna má sjá á meðfylgjandi mynd.

AUkning kaumáttar launavísitölu 1960-2013

Kaupmáttaraukningin var meiri á báðum tímabilum fyrir þjóðarsátt en eftir. Það voru vissulega miklu meiri sveiflur til beggja átta á verðbólgutímanum en á þjóðarsáttartímanum og því er val tímabila nokkuð viðkvæmt. Ef við byrjuðum t.d. árið 1961 í stað 1960 væri útkoman mun hagstæðari en myndin sýnir fyrir verðbólgutímann (2,6% á ári í stað 1,9% – fyrsta súlan á myndinni).

Það er vissulega rétt hjá Gylfa að stöðugleiki var meiri á þjóðarsáttartímanum og það skiptir miklu máli þegar skuldir eru verðtryggðar, eins og ég benti á í minni grein.

En niðurstaða mín stendur óhögguð, hvort sem notast er við ráðstöfunartekjur eða launavísitöluna.

Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna heimilanna var markvert meiri á verðbólgutímabilinu en á tíma þjóðarsáttar. Fleira en kauphækkanir skilaði þeim árangri, meðal annars aukin atvinnuþátttaka kvenna, eins og Gylfi bendir á, en einnig þróun bóta og skatta. Kaupmáttaraukning launavísitölunnar var líka meiri á verðbólgutímanum.

Það þýðir þó alls ekki að ég mæli með verðbólgu og stjórnlausum kauphækkunum, eins og Gylfi leyfir sér að bera á mig. Ég hef hins vegar lýst efasemdum um að fyrirliggjandi kjarasamningur ASÍ og SA skili einhverri kaupmáttaraukningu sem máli skiptir. Vera má að það skapi pirring.

Í staðinn hef ég mælt með verðtryggðum hóflegum kauphækkunum, sem væru innan þeirrar aukningar sem hagvöxtur leyfir – og því án verðbólguþrýstings.

Slík leið myndi færa okkur nær skandinavískum kaupmáttaraukningum en sú leið sem ASÍ hallast að.

Auk þess myndi hún legga ábyrgð af verðbólgunni á herðar atvinnurekenda og stjórnvalda – þar sem hún ætti frekar heima en á herðum almenns launafólks.

 

Síðasti pistill: Kaupmáttur fyrir og eftir þjóðarsátt

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar