Laugardagur 22.02.2014 - 15:13 - FB ummæli ()

Tækifærum Íslands fækkað

Eitt það mikilvægasta í stjórnmálum og samskiptum þjóða er að safna bandamönnum og rækta tækifæri – í þágu eigin þjóðarhags og sameiginlegra hagsmuna.

Í hnattvæddum heimi nútímans skipta viðskipti og tengsl milli ríkja meira máli en nokkru sinni fyrr. Evrópa er mikilvægasti heimshlutinn fyrir hagsmuni Íslands, þó sjálfsagt sé að rækta einnig önnur tengsl.

Ég hef áhyggjur af því að það líti sérstaklega illa út í Evrópu að Ísland skuli ekki vilja fá svör við álitamálum varðandi aðildarsamning – hvernig hann gæti litið út, eftir að hafa klárað drjúgan hluta af ferlinu. Við kjósum frekar óvissu en traustar upplýsingar.

Bæði ESB og Ísland hafa lagt mikið fé, tíma og erfiði í samningssvinnuna. Nú er því kastað hálfkláruðu á glæ, til tjóns fyrir báða aðila.

Lúkning samningaferilsins var eina leiðin til að útkljá deilur um hvaða skilyrði og varanlegar sérlausnir fengjust með aðildarsamningi – sem hægt væri svo að taka upplýsta afstöðu til.

Það er án efa fátítt á Vesturlöndum að menn kjósi fremur fávisku en traustar upplýsingar í stóru hagsmunamáli þjóðar, eins og hér um ræðir.

Í ESB-ríkjum eru mikilvægustu útflutningsmarkaðir Íslands.

Seðlabankinn gerði vandaða og viðamikla úttekt á valkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum. Tveir kostir þóttu vera raunsæir: að hald áfram krónunni eða taka upp Evru með aðild að ESB.

Nú lokum við á annan af þessum tveimur valkostum og festum okkur við meingallaðan gjaldmiðil til áratuga í viðbót. Sama hvernig allt fer.

Margir bundu vonir við aðstoð frá ESB við afnám gjaldeyrishafta, í nafni samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ekki greiðum við fyrir því með framferði okkar.

Raunar er framtíð samningsins um EES í óvissu og þar eigum við allt undir velvilja frá ESB í okkar garð. Við munum hafa mikla þörf fyrir margar og mikilvægar ívilnanir á þeim vettvangi á næstu árum.

Hjálpar það að sýna ESB fingurinn, eins og nú er gert, með viðræðuslitum án nokkurra ásteitingssteina í ferlinu?

 

Óttinn við fullkláraðan samning

Viðræðuslit á miðri leið skilja öll álitamálin eftir í óvissu. Hvað græðir Ísland á því?

Augljóslega ekkert.

Andstæðingar aðildar græða hins vegar það, að geta fullyrt áfram að aðild sé okkur óhagstæð – án þess að hirða nokkuð um staðreyndir eða að hafa látið á það reyna.

Sennilega vildu andstæðingarnir ekki klára viðræðurnar því þeir óttuðust að samningurinn yrði of hagstæður – of góður fyrir Ísland.

Enginn þurfti að óttast slæman samning, því hann hefði verið felldur umsvifalaust í þjóðaratkvæði.

Dapurlegt er að kjósa frekar óvissu og innihaldslaust karp en áreiðanlegar upplýsingar til að byggja framtíðina á.

Enn verra er þó að hafna því að rækta mikilvægustu tækifæri Íslands á klókan hátt.

Enginn vandaður bísnessmaður myndi fara svona að. Hví þá að fara svona með fjöregg þjóðarinnar allrar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar