Mánudagur 24.02.2014 - 21:18 - FB ummæli ()

“Ómöguleiki” Bjarna grefur undan lýðræðinu

Ég var að horfa á Bjarna Benediktsson í Kastljósi. Hann var órólegur og stóð sig illa.

Bjarni er augljóslega að svíkja loforð sín og flokksins fyrir kosningar, en segist samt vera einlægur í að vilja hlíta þjóðaratkvæðagreiðslum – en aðeins ef skilyrði séu rétt!

Hvað eru rétt skilyrði? Ekkert skýrt svar var við því.

Hins vegar segir Bjarni að það sé „ómöguleiki“ í stöðunni vegna þess að ríkisstjórnin öll sé andvíg aðild að ESB. Þess vegna sé ekki hægt að bjóða upp á þjóðaratkvæði um framhald málsins. Ríkisstjórnin myndi ekki framkvæma vilja þjóðarinnar ef hún vildi klára ferlið og fá svörin, eins og skoðanakannanir benda til. Það er enginn að tala um að segja já eða nei við aðild á þessu stigi, einungis hvort klára eigi samninginn.

Með öðrum orðum, það er einungis hægt að bjóða upp á þjóðaratkvæði ef ríkisstjórnin vinnur þá atkvæðagreiðslu. Það er inntakið í „ómöguleika“ Bjarna Benediktssonar.

Þetta er ansi innantómur skilningur á þjóðaratkvæðagreiðslum og lýðræði.

Ef stjórnvöld virða þjóðaratkvæðagreiðslur og þann vilja þjóðarinnar sem fram kemur í þeim, þá ber þeim skylda til að framkvæma niðurstöðuna.

Í besta falli gæti ríkisstjórn sem lendir algerlega upp á kant við þjóðina í slíkri atkvæðagreiðslu komist upp með að tefja eða fresta framkvæmd.

Ef ríkisstjórn neitar að framkvæma niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þá gefur hún skít í vilja þjóðarinnar. Beinlínis.

Það sem er að gerast nú er þess vegna vanvirðing á þjóðaratkvæðagreiðslum og lýðræði – gengisfelling niður í núll!

Þjóðaratkvæðagreiðsla er aðeins “möguleg” ef ríkisstjórnin vinnur kosninguna, samkvæmt þessum skilningi Bjarna.

Ef vinstri stjórnin hefði farið eins að varðandi Icesave-málið þá hefði hún væntanlega blásið fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna af þegar kannanir bentu til að vilji þjóðarinnar væri allt annar en vilji stjórnvalda.

Vinstri stjórnin bauð samt sem áður uppá þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirfram var vitað að gengi gegn áformum hennar um að klára samningaleiðina, en stjórnin virti samt niðurstöðuna að fullu.

Hvað sem efnislegri niðurstöðu þess máls líður að öðru leyti þá var það mun heiðarlegri umgengni við vilja þjóðarinnar en núverandi ríkisstjórn sýnir.

Skýr kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu eru nú svikin, eins og ekkert sé.

Þjóðaratkvæði er svo sagt fela í sér “ómöguleika” ef niðurstaðan gæti orðið ríkisstjórninni óþægileg.

Svo segist ráðherrann vera “einlægur” í vilja sínum til að lúta þjóðaratkvæðagreiðslum!

Hver eru heilindin í þeirri einlægni?

 

Síðasti pistill: Nú er ég sammála atvinnurekendum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar