Fimmtudagur 27.02.2014 - 15:50 - FB ummæli ()

Tekjur innflytjenda og Íslendingar

Mirra, Miðstöð innflytjendarannsókna, kynnti nýlega athyglisverða könnun Norrænu ráðherranefndarinnar á kjörum innflytjenda og heimamanna í Reykjavík, Kaupmannahöfn og Osló (sjá hér).

Niðurstöðurnar benda til að Pólverjar hér á landi séu einungis með um 57% af meðallaunum í landinu, sem er lakara en í Kaupmannahöfn og Osló.

Um daginn birtir hins vegar Efling stéttarfélag tölur sem benda til að pólskir félagsmenn Eflingar (verkafólk) séu með um 14% hærri heildarlaun en íslenskt verkafólk.

Þetta virðist mótsagnakennt – en svo þarf þó ekki að vera.

Menn eru að bera saman ólík atriði. Í norrænu skýrslunni eru laun pólverja á Íslandi borin saman við meðallaun í landinu, en í tölum Eflingar eru borin saman heildarlaun verkafólks af pólsku og íslensku þjóðerni.

Pólverskir verkamenn vinna lengri vinnutíma og fá þannig hærri launatekjur en íslenskir stéttarbræður, jafnvel þó taxtalaun þeirra pólsku geti verið lægri.

Þegar laun innflytjenda eru borin saman við meðallaun í landinu hefur mikil áhrif sú staðreynd, að innflytjendur eru almennt meira í lægra launuðum störfum. Flestir þeirra eru verkafólk, en það gildir ekki um íslenskt launafólk almennt.

Vel þekkt er að innflytjendur vinna talsvert lengri vinnutíma en Íslendingar. Það jafnar heildartekjurnar, jafnvel þó taxtakaup geti verið ójafnt.

Hér að neðan eru tölur frá Eurostat um kaupmáttarjafnaðar ráðstöfunartekjur innflytjenda sem hlutfall af tekjum Íslendinga, frá 2004 til 2011. Það gefur góða heildarmynd að kjarastöðu innflytjenda í samanburði við Íslendinga.

Tekjur innflytjenda og Íslendinga

Fyrir hrun voru innflytjendur að saxa á heimamenn í ráðstöfunartekjum, fóru frá 83,6% af meðaltekjum Íslendinga árið 2004 og upp í rúm 90% árið 2006. Með hruninu drógust tekjur innflytjenda meira niður en Íslendinga og lækkaði hlutfall innflytjenda af tekjum Íslendinga því úr rúmlega 90% í 77% árið 2008.  Síðan þá hafa innflytjendur sótt lítillega á, voru komnir í um 81% árið 2011.

Samkvæmt þessu má búast við að ráðstöfunartekjur innflytjenda séu að jafnaði um 15-20% lægri en tekjur Íslendinga um þessar mundir.

Þetta er fyrir alla hópa innflytjenda og endurspeglar einkum áhrif af skipan innflytjenda í tekjulægri stéttir en almennt er meðal Íslendinga. Hugsanlegt er að innflytjendur séu á lægri töxtum en Íslendingar í sömu störfum (flest bendir til þess), en þeir geta unnið það upp með lengri vinnutíma.

Á heildina litið er kjarastaða innflytjenda sem sagt umtalsvert lakari en staða Íslendinga. Að sama skapi hefur atvinnuleysi verið meira meðal innflytjenda en Íslendinga í kreppunni, eins og ég hef áður sýnt (hér).

 

Nýlegur pistill: ESB:  Sátt um hlé er skynsamleg

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar