Fimmtudagur 20.03.2014 - 23:49 - FB ummæli ()

Húsnæðiskostnaður fátækra á Íslandi

Í tillögum ráðgjafarfyrirtækja um skipan húsnæðismála, sem birtar voru í gær, fer frekar lítið fyrir útfærslu hugmynda um félagslegt húsnæðiskerfi.

Megin áhersla tillagnanna er á fyrirkomulag fjármögnunar húsnæðislána, með sveigjanleika á uppgreiðslumöguleikum, án þess að skapa vanda fyrir lánveitanda. Það er ágætt.

Raunar hefur Íbúðalánasjóður sjálfur verið að vinna að upptöku slíks fyrirkomulags á fjármögnun undanfarið, til að komast út úr þeim ógöngum sem hann var leiddur í árið 2004.

Þá var farið inn á leið fjármögnunar sem bauð ekki upp á möguleika sjóðsins á að greiða upp sín eigin lán þegar viðskiptavinir greiddu upp lán frá sjóðnum. Það er meginrót þess vanda sem Íbúðalánasjóður glímir við í dag, auk mikils fjölda fullnustueigna, sem komu til vegna hrunsins.

Megin markmið félagslegra hluta húsnæðiskerfa er að skapa lágtekjufólki möguleika á að fá þak yfir höfuðið, í leigu eða eignarhúsnæði. Mismunandi leiðir til niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar eru farnar.

Á myndinni hér að neðan má sjá hversu mikill húsnæðiskostnaður fátækra er, sem % af ráðstöfunartekjum þeirra. Fátækir teljast þeir sem eru undir fátæktarmörkum ESB (Heimild: Eurostat).

Húsnæðiskostnaður fátækra í Evrópu 2011

Grikkir og Danir eru með mestar hlutfallslegar byrðar af húsnæðiskostnaði meðal fátæks fólks, en svo koma Íslendingar. Þeir sem eru undir fátæktarmörkum á Íslandi vörðu að jafnaði rúmlega helmingi ráðstöfunartekna sinna í húsnæði á árinu 2011 (52,5%), en samsvarandi tala í Danmörku var 59% og um 66% í hinu kreppuhrjáða Grikklandi.

Staðan hefur versnað á Íslandi frá 2011 vegna hækkunar húsaleigu, en margir þeirra tekjulægstu búa í leiguhúsnæði. Það er auðvitað skelfilegt að þurfa að eyða um eða yfir 60% af mjög lágum ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað. Ástandið er því afleitt.

Myndin bendir til þess, að ef við viljum gera betur við fátæka í húsnæðismálum, með umbótum á húsnæðiskerfinu, þá höfum við frekar lítið til Dana að sækja varðandi þann þátt – þó annað í kerfi þeirra gæti vel hentað.

Vænlegra virðist að fylgja fordæmum Svía og Norðmanna og enn vænlegra virðist að taka Finna til fyrirmyndar, hvað þennan þátt varðar. Annað getur gilt um aðra þætti húsnæðiskerfanna.

Myndin gefur nokkra vísbendingu um árangur húsnæðiskerfa við að halda niðri húsnæðiskostnaði fátækra. Fleiri þættir koma þó við sögu. Þannig er t.d. algengt að ungt fólk með lágar tekjur, ekki síst ungt atvinnulaust fólk, búi fram yfir þrítugt á heimili foreldra sinna á Ítalíu og í öðrum löndum Suður og Austur Evrópu. Það heldur meðaltali húsnæðiskostnaðar fátækra oft lágu í þeim löndum.

Síðan eru gæði húsnæðis fátækra einnig mismunandi milli landa, ekki síst þegar saman eru borin lönd í Norður og Suður Evrópu, eða Vestur og Austur Evrópu.

En ef borin eru saman þjóðfélög á svipuðu hagsældarstigi og okkar þá má draga ályktanir af myndinni um gæði félagslegra lausna í húsnæðismálum.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sagt að hún vilji leggja mikla áherslu á félagslega þáttinn í nýju húsnæðiskerfi. Það er hárrétt áhersla hjá henni og afar mikilvægt að vel til takist.

 

Síðasti pistill: Er danskt húsnæðiskerfi gott fyrir okkur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar